fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn

Eyjan
Laugardaginn 23. mars 2024 13:15

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alveg er það makalaust hvað hægrimönnum hér á landi er mikið í nöp við listamenn. Þeir virðast óttast sköpunarkraftinn eins og heitan eldinn. Nærri stappar að þeir sjái rautt þegar eitthvað lítilræði af almannafé rennur til menningarmála, en þá geta þeir ekki á heilum sér tekið eins og augljóst má vera af ólundarlegum viðbrögðunum.

Þetta er þeim mun skrýtnara sem það liggur fyrir að listsköpun í landinu er með allra blómlegustu atvinnugreinum sem þjóðin getur státað af – og leggur ekki einasta mikið til hagkerfisins, heldur er hún líka þeirrar náttúru að leiða af sér fjöldamörg önnur störf, svo sem í hönnun, iðnaði og þjónustu.

Og þá er ef til vill ónefndur sá helstur akkurinn í því að efla greinina til muna, og gera gangskör í því að treysta aðstöðu og afkomu listamannanna sjálfra, að það er langtum bærilegra að búa í samfélagi þar sem kúnstin er í hávegum höfð – og gerir það á allan hátt áhugaverðara og eftirsóknarverðara en ella – og ekki aðeins fyrir heimamenn, sem geta dáðst og undrast, hrifist og hlegið að allri fjölbreytninni, heldur er menningarbragur hverrar þjóðar svo til augljóst aðdráttarafl fyrir ferðamenn frá öðrum löndum.

En afturhaldið er á öðru máli, allt frá stuttbuxnastrákum uppi í sterkefnaða burgeisa sem sjá ekki annan tilgang í lífinu en að græða á daginn og grilla á kvöldin, eins og einn helsti hugsuður íslenskra hægrimanna orðaði það svo eftirminnilega í sjónvarpsviðtali um árið, einmitt framan við þann sem hér lemur lyklaborðið.

Og það minnir raunar á að því aðeins geta hægrimenn unað því að ríkið reddi stöku manni pening að þeir renni í þeirra eigin vasa. En ekki annarra. Og til vara bíður svo auðvitað galopinn pilsfaldurinn.

„Það er verðugt verkefni fyrir glúrinn fræðimann á sviði sálfræði að krukka aðeins ofan í kollinn á andlausu íhaldinu …“

Nýjasta aðför íslenskra íhaldsmanna að listamönnum landsins er frumvarp þeirra um breytingu á myndlistarlögum. Þar er lagt til að afnema þá kvöð að eitt prósent af heildarkostnaði við hönnun og smíði opinberra bygginga renni til listaverkakaupa.

Þeir sjá ofsjónum yfir þessu eina prósenti. Þeir hræðast allt of háan byggingarkostnað út af þessu háa hlutfalli sem fer í óþarfa fínindi og fordild. Fyrr skal hver veggur og vistarvera vera berstrípuð af bulli kúnstneranna en að ríkissjóður rétti þeim ryðgað penní.

Þetta er alveg í anda áratugagamals óþols í garð listamannalauna. Ekki verður tölu komið á tillögur trúuðustu íhaldsgauranna um að fella niður með öllu opinbert styrkjakerfi til starfandi listamanna. Þeir fara á límingunum í sérhvert skipti sem þessar greiðslur koma til úthlutunar, hvað þá ef þær eiga að fylgja verðlagsþróun. Og ekki er gremjan minni þegar talið berst að heiðurslaunum listamanna. Þeir geta ekki betur séð en að allar þær formúgur renni bara til blóði drifinna bolsévikka.

Svo hefur átt að leggja niður Ríkisútvarpið í sinni mynd í hálfa eða heila mannsævina. Og til vara, að sníða því svo þröngan stakk að það geti ekki hreyft sig. Sem er í samræmi við aðra menningarfóbíu.

Það er verðugt verkefni fyrir glúrinn fræðimann á sviði sálfræði að krukka aðeins ofan í kollinn á andlausu íhaldinu – og reyna að komast að því sem veldur þessari óbeit hjá einum flokki manna út í eina og sömu atvinnugreinina, sem vel að merkja, engum öðrum flokkshestum, á miðjunni eða til vinstri, stendur nokkur einasti beygur af.

Því það hlýtur að vera einföld skýring á þessari ímugust íhaldsmanna út í andans fólk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
23.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Töfrar amfetamíns

Óttar Guðmundsson skrifar: Töfrar amfetamíns
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Steinunn Ólína skrifar: Afsakið meðanað ég æli

Steinunn Ólína skrifar: Afsakið meðanað ég æli
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar
EyjanFastir pennar
08.03.2024

Steinunn Ólína skrifar: Áunnið heyrnarleysi

Steinunn Ólína skrifar: Áunnið heyrnarleysi
EyjanFastir pennar
07.03.2024

Svarthöfði skrifar: Minningargrein um lifandi mann

Svarthöfði skrifar: Minningargrein um lifandi mann