fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Eyjan
Fimmtudaginn 4. apríl 2024 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hér eins og annars staðar viðurkenna flokkar, sem byggja á hugmyndafræði frjálsrar samkeppni, nauðsyn þess að styðja landbúnað með ýmsum hætti.

En þegar þingmenn, sem segjast sjálfir vera frjálslyndir, skilja ekki lengur eigin hugmyndafræði verður rökstuðningur ákvarðana þeirra oft mótsagnakenndur.

Þingmenn stjórnarflokkanna komu sjálfum sér í slík vandræði á dögunum þegar þeir rökstuddu afnám samkeppni í kjötframleiðslu.

Lægstu laun og hæsta verð

Fyrir þremur árum hafði landbúnaðarstefnan leitt til þess að bændur í kjötframleiðslu fengu lægstu laun í Evrópu. Á sama tíma voru afurðir þeirra seldar neytendum á hæsta verði í Evrópu.

Lítillega hefur dregið úr þessari ofsafengnu skekkju. En samanburðurinn sýnir að það er eitthvað meira en lítið bogið við kerfið. Heita má óskiljanlegt að bændur skuli ekki hafa gripið til róttækra ráða til að vekja athygli á óviðunandi rekstrarumhverfi.

Þingmenn stjórnarflokkanna hafa að mestu setið aðgerðalausir þar til þeir gripu til þess ráðs að afnema samkeppnisreglur í kjötframleiðslu. Skiljanlega styðja bændur það þegar ekkert annað er í boði.

Heiðarlegri málflutningur

Þingmenn stjórnarflokkanna fullyrða að afnám samkeppnisreglna leiði til hagræðingar, sem tryggi bændum hærra verð, afurðastöðvum betri afkomu og neytendum lægra verð.

Þetta er alveg nýtt hagfræðilögmál. Ef það virkar með þessum hætti í landbúnaði ættu þingmennirnir að leggja til að það yrði tekið upp í öllum öðrum greinum. Af einhverjum ástæðum gera þeir það ekki.

Heiðarlegra hefði því verið að segja sem er að þeir hafi ekki átt nein ráð en fengið hringingu frá vinum.

Samhengi frjálsrar verðmyndunar og samkeppni

Lögmál virkrar samkeppni tryggir eðlilegt jafnvægi milli seljenda og kaupenda í viðskiptum.

Afnám samkeppni tryggir afurðastöðvunum meiri hagnað með hagræðingu og verðlagningu, sem þær ráða alfarið sjálfar. Það er svo bara undir gæsku afurðastöðvanna komið hvort bændur og neytendur njóta þess með þeim. Í lögunum er ekkert sem tryggir það.

Hugmyndafræðileg forsenda fyrir frjálsri verðmyndun er virk samkeppni.

Þingmenn stjórnarflokkanna þurfa því að svara tveimur spurningum: Telja þeir að unnt sé að afnema samkeppni og viðhalda samt frjálsri verðmyndun? Kemur virkilega ekkert hugmyndafræðilegt eða siðferðilegt álitamál upp í huga þeirra í því sambandi?

Vinir og óvinir bænda

Þeir sem rýna í hagtölur sjá að fjármagnskostnaður bænda er úr öllu samhengi við aðrar tölur í bókhaldinu. Láta mun nærri að jafna megi samkeppnisstöðu íslenskra bænda ef þeir byggju við sama vaxtaumhverfi og bændur í grannlöndunum.

Hvers vegna vilja þingmenn stjórnarflokkanna frekar afnema samkeppnisreglur en ræða kjarna málsins, vextina. Hvers vegna má ekki skoða möguleika á að taka upp alþjóðlega mynt, sem myndi breyta rekstri bænda í grundvallaratriðum?

Eru  bændur á móti því að allar hliðar vandans séu skoðaðar?

Getur verið að allir þingmenn þriggja stærstu flokkanna á Alþingi sjái enga aðra leið til að bæta samkeppnisskilyrði en að afnema samkeppnisreglur? Hin hliðin á þeirri pólitík er hækkun skatta til að niðurgreiða vexti og aukin miðstýring.

Svar þingmannanna er: Allir þeir sem efast um afnám samkeppni eru óvinir bænda. Meira að segja þingmenn sjálfstæðismanna tala svona.

Í sjálfheldu

Það getur verið í góðu lagi að víkja frá prinsippum við sérstakar aðstæður. Það á vissulega við í landbúnaði. En þegar menn missa algjörlega sjónar á hugmyndafræðinni er hætt við að hlutirnir þróist á annan veg en ætlunin er.

Landbúnaðurinn þarf myndarlegan stuðning frá skattborgurunum. Um það er ekki deilt. En landbúnaðarstefna, sem stöðugt fjarlægist grundvallarlögmál við framleiðslu og sölu afurða lendir smám saman í ógöngum.

Smáskammtalækningar með reglulegu millibili hafa ekki breytt þessum veruleika. Þess vegna hallar stöðugt á ógæfuhliðina hjá bændum. Þeir eru í sjálfheldu.

Eru bændur sammála?

Eru bændur almennt sammála þingmönnum stjórnarflokkanna og forystu Samfylkingar um að ekki megi opna umræðuna um vaxtakjör og gjaldmiðilinn? Og að ekki megi ræða raunverulegan vanda atvinnugreinarinnar? Eru bændur sammála þeim þingmönnum, sem staðhæfa að allir þeir, sem vilja opnara samtal, séu óvinir landbúnaðarins?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
28.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent
EyjanFastir pennar
18.03.2024

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði

Svarthöfði skrifar: Hjartað slær með bankastjóranum og krónunni – fullveldið sjálft að veði
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Tími öfgaaflanna er aftur runninn upp

Sigmundur Ernir skrifar: Tími öfgaaflanna er aftur runninn upp
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið
EyjanFastir pennar
10.03.2024

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam

Björn Jón skrifar: Laugavegurinn — in memoriam