fbpx
Laugardagur 25.maí 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Eyjan
Sunnudaginn 21. apríl 2024 18:30

Tæknifyrirtækið Samey í Garðabæ er ört vaxandi. Mynd/Samey

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í liðinni viku var ég staddur í Færeyjum með hópi nemenda minna. Færeyskir gestgjafar kynntu okkur meðal annars fyrir starfsemi Bakkafrosts á Glyvrum á Austurey, en Bakkafrost er þriðja stærsta fiskeldisfyrirtækis heims og stærsti vinnuveitandi eyjanna. Í skoðunarferð um verksmiðju Bakkafrosts veitti ég því athygli hversu stór hluti vélakostsins var íslenskur. Sér í lagi varð ég heillaður af því að fylgjast með þjörkum við störf, en þeir voru frá Samey í Garðabæ. Það er fyrirtæki sem smíðar lagnir, færibönd, öryggiskerfi og fleira fyrir þjarka sem sjá um að taka frauðplastkassa með pökkuðum laxi af færiböndum og koma á bretti.

Ég verð að játa að ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hversu mikil umsvif Sameyjar eru orðin en fyrirtækið vinnur að alls kyns sjálfvirknilausnum. Ég rakst á vef Fiskifrétta á viðtal frá því í fyrra við Kristján Ármannsson, véltæknifræðing hjá fyrirtækinu, þar sem hann sagði alla stálvinnu við þjarkana unna hér á landi sem og alla vinnu við gerð hugbúnaðarins. Fyrirtækið hefur sér í lagi unnið að ýmsum lausnum tengdum laxaslátrun og meðferð á laxakössum. Kristján sagði í viðtalinu að þjarkarnir leystu af hendi ýmsa líkamlega vinnu sem almennt nyti ekki vinsælda, svo sem að lyfta hlutum, stafla á vörubretti og þess háttar. Þjarkarnir geta lyft allt að þremur tonnum, en dæmi um þjarka sem fyrirtækið hefur sett upp eru hjá Samherja á Dalvík og Brimi á Norðurgarði. Það eru þjarkar sem lyfta fiskkörum og sturta úr þeim inn á vinnslusvæði.

Hugvitsdrifin fyrirtæki

Í fiskvinnslu Bakkafrosts mátti líka sjá vélar frá Skaganum 3X sem þróað hefur byltingarkenndar tækninýjungar hvað varðar íslausa kælingu matvæla og lausna við pökkun. Langflestar vélanna voru þó merktar Marel.

Marel er gott dæmi um það hverju er hægt að áorka með þrautsegju og þolinmæði að vopni. Vísir að fyrirtækinu var tilraunaverkefni í verkfræðideild Háskóla Íslands í byrjun níunda áratugarins. Það þróaðist svo sem sprotafyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki, þá íslenskt iðnfyrirtæki, síðan alþjóðlegt fyrirtæki og nú er það stórfyrirtæki og meðal framsæknustu fyrirtækja í sinni grein á heimsvísu.

Því er ekki auðsvarað hvernig svo mikill árangur gat náðst eins og tilfellið er með Marel. Segja má að margir samverkandi þættir hafi haft áhrif þar á. Stjórn og stjórnendur hafa haft einlægan vilja til vaxtar og það hefur tekist með markvissum hætti. Mörg fyrirtæki hafa verið keypt sem falla vel að starfsemi Marels og þá hefur félagið árlega varið sem samsvarar 6% af rekstrartekjum til rannsókna og þróunar og segja má að þar liggi lykillinn að velgengni þess. Fyrirtæki eins og Marel þarf að hafa á að skipa fjölda háskólamenntaðra starfsmanna, svo sem verkfræðinga, tölvunarfræðinga og fólks með viðskipta- eða markaðsmenntun svo eitthvað sé nefnt, járniðnaðarmanna, rafvirkja og rafeindavirkja, auk fólks úr fleiri greinum.

Framtíðarsýnin

Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans, segir í grein á vefsíðu klasans frá athugun þeirra á þróun tækninýjunga í sjávarútvegi, en tæknifyrirtækin hafa notið þess að útgerðir og fiskvinnslufyrirtæki hafa haft einlægan vilja til að leita tæknilausna í starfsemi sinni. Samstarf tæknifyrirtækja og sjávarútvegsfyrirtækja hefði leitt af sér margvíslegar tæknilausnir sem sparað hefðu tíma og mannafla og haft í för með sér stórbætta meðferð afla. Þór segir athyglisvert að lausnir tæknifyrirtækja séu ekki einungis spennandi útflutningsvara hjá risum á markaði, líkt og Marel, heldur einnig hjá fjölda minni fyrirtækja. Þá hafa lausnir þessara tæknifyrirtækja ekki eingöngu gagnast sjávarútvegi heldur ekki síður öðrum matvælagreinum, svo sem kjúklinga- og svínaræktendum. Marel hefur verið þar í forystu en önnur fyrirtæki fylgt, svo sem Skaginn, Frost og Thorice.

Eins og Þór Sigfússon bendir á eru ótal samverkandi þættir sem hafa gert það að verkum að hátæknifyrirtæki í þessum geira hafa vaxið upp. Og þetta hefur gerst þrátt fyrir að rekstrarumhverfi fyrirtækja hér á landi sé á margan hátt óhagfellt. Það vakti raunar litla athygli í fyrra þegar birtar voru niðurstöður árlegrar athugunar IMD-viðskiptaháskólans í Lusanne í Sviss á samkeppnishæfni þjóða. Þar reka Íslendingar lestina þegar horft er til Norðurlandanna en Danmörk er í fyrsta sæti á heimsvísu. Skilvirkni hins opinbera hér á landi hefur ekki mælst lægri í átta ár samkvæmt úttektinni. Þar er Ísland í nítjánda sæti eða níu sætum neðar en meðaltal Norðurlandanna. Þetta er meðal annars rakið til „neikvæðrar þróunar regluverks“ en í þeim flokki féll Ísland niður um sex sæti milli ára og þá féll Ísland niður um níu sæti sé litið til stofnanaumgerðar.

Þetta leiðir hugann að því hversu mjög mætti auka verðmætasköpun yrði fyrirtækjum skapað hagfelldara rekstrarumhverfi. Það stórkostlega ævintýri sem saga íslenskra tæknifyrirtækja er gæti orðið enn magnaðra, þar sem til yrði enn meiri fjöldi hálaunaðra starfa fyrir fólk með margbreytilega menntun. Það hlýtur að vera hin eftirsóknarverðasta framtíðarsýn sérhvers þróaðs ríkis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Allir vildu Lilju kveðið hafa

Björn Jón skrifar: Allir vildu Lilju kveðið hafa
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Auðlindir í auðmannaþágu

Sigmundur Ernir skrifar: Auðlindir í auðmannaþágu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?

Björn Jón skrifar: Forsetaefni íhaldsmanna?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn
EyjanFastir pennar
14.04.2024

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
EyjanFastir pennar
13.04.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Trausti rúinn og reistur til valda

Sigmundur Ernir skrifar: Trausti rúinn og reistur til valda
EyjanFastir pennar
06.04.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Tuttugasta öldin, taka tvö

Sigmundur Ernir skrifar: Tuttugasta öldin, taka tvö
EyjanFastir pennar
06.04.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var