fbpx
Laugardagur 18.maí 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Allir vildu Lilju kveðið hafa

Eyjan
Sunnudaginn 5. maí 2024 16:00

Ólafur Ragnar Grímsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Af frásögn Njálu má ráða að Gunnar Lambason hafi eggjað menn til stórræða í atlögunni að Bergþórshvoli – en sjálfur þó ekki gengið djarfmannlega fram. Flestir muna líklega eftir því þegar Skarphéðinn tróð eldinn meðfram hliðarveggjum, Gunnar hljóp þá upp á vegginn og mælti: „Hvort grætur þú nú, Skarphéðinn?“ — „Eigi er það,“ segir Skarphéðinn, „en hitt er satt, að súrnar í augunum. En svo sýnist mér sem þú hlæir, eða hvort er svo?“ — „Svo er víst,“ segir Gunnar, „og hefi ég aldrei fyrr hlegið, síðan þú vóst Þráin á Markarfljóti.“

Hér er ekki ætlunin að rekja eftirmál Njálsbrennu en Flosa Þórðarsyni, Gunnari Lambasyni og fleirum var gert að fara utan og eiga aldrei aftur útkvæmt. Þeir lenda í hafvillum, brjóta skipið í spón við Hrossey á Orkneyjum þar sem Flosi gerist hirðmaður Sigurðar jarls. Til mikillar veislu um jólin er boðið Gilla jarli, mági Sigurðar úr Suðureyjum, og Sigtryggi, konungi frá Írlandi. Menn fýsti að heyra tíðindi af brennunni og var Gunnar Lambason fenginn til frásagnar.

Sigtryggur konungur spyr: „Hversu þoldi Skarphéðinn í brennunni?“ — „Vel fyrst lengi,“ segir Gunnar, „en þó lauk svo að hann grét“. Um allar aðrar sagnir hallaði Gunnar mjög til og hló víða að. Þá vildi svo til að Kári Sölmundarson var mættur til drykkjunnar með sínum mönnum, öllum að óvörum. Er hann heyrði til hinnar broguðu frásagnar hljóp hann inn með brugðnu sverði og hjó á hálsinn á Gunnari svo snart að höfuðið fauk upp á borðið fyrir konung og jarlana. Svo fór loks að Flosi sagði söguna, bar öllum vel og var því trúað.

Varðveita þarf hina réttu sögu

„Forfeður mínir Jónsenar trúðu öllu sem stendur í Íslendingasögum og ég fylgi þeim svona hérumbil þó ég sé bæði föðurverrúngur og ættleri,“ segir Tumi Jónsen safnaðarformaður í Kristnihaldi undir jökli. Þetta var hið almenna viðhorf á árum áður: frásögn Íslendingasagna væri í meginatriðum rétt þrátt fyrir að aldir hafi liðið frá atburðum þar til þeir voru skráðir á bókfell. Sagan af örlögum Gunnars Lambasonar kann að vera til vitnis um almenna fyrirlitningu á ýkjum: varðveita þurfi hina réttu sögu kynslóð fram af kynslóð.

Ég ætla ekki að hætta mér lengra í aldarlangar deilur um sannleiksgildi Íslendingasagna en Gunnar Lambason var að líkindum sjaldnast sögumaðurinn. Mönnum var í mun að vitneskja um liðna atburði varðveittist sem best. Segja skyldi rétt frá, líkt og Flosi gerði, annað var ódrengskapur.

Verkalýðsforingjar voru ekki skósveinar pólitíkusa

Að kvöldi verkalýðsdagsins var sýnd í Ríkissjónvarpinu heimildarmynd um hin tíðu kennaraverkföll á síðustu áratugum tuttugustu aldar. Meðal viðmælenda í myndinni var Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, en hann var fjármálaráðherra 1988–1991. Hann rifjaði upp í þættinum að flokkarnir hefðu á árum áður gert sig mjög gildandi í verkalýðshreyfingunni og sagði svo:

„Það voru ekki til þau samtök launafólks í meira en fimmtíu, sextíu ár sem ekki voru á einn eða annan hátt tengd beint inn í æðstu valdastjórn flokkanna. Það var í raun og veru engin sjálfstæð launþegasamtök eða verkalýðssamtök á Íslandi fyrr en undir lok tuttugustu aldar.“

Það er rétt að um áratugaskeið var nálega sérhver fulltrúi á þingum Alþýðusambandsins jafnframt tengdur einhverjum stjórnmálaflokkanna og deilur um völd í verkalýðsfélögum gjarnan flokkspólitísk. En fullyrðingin um að hér hafi „engin sjálfstæð launþegasamtök“ verið til stenst aftur á móti enga skoðun.

Í liðinni viku var Guðmundur H. Garðarsson borinn til grafar en hann var formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur árin 1957–1979. VR var vitaskuld sjálfstætt félag allan þann tíma. Þrátt fyrir að Guðmundur væri virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins og þingmaður um hríð var hann sem formaður VR umfram allt trúr sínu fólki, félagsmönnum í VR, og í stjórninni sátu líka alla tíð menn úr öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokki. Nefna mætti nærtækara dæmi, en Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Dagsbrúnar, tók ekki við fyrirskipunum frá forystu Alþýðubandalagsins, hvort sem Ólafur Ragnar stóð þar í stafni eða aðrir menn.

Vitaskuld voru verkalýðsfélögin sjálfstæð þó svo að pólitísk tengsl launþegahreyfingarinnar hafi verið fram úr hófi á árum áður. En í ýmsu tilliti má færa fyrir því rök að við séum nú á verri stað — þar sem nærri algert tengslaleysi er milli stéttarfélaga og helstu stjórnmálaflokka.

Hver situr á sögustólnum?

Önnur ummæli Ólafs Ragnars í þættinum vöktu þó enn meiri undrun mína, en um þjóðarsáttarsamningana 1990 sagði hann:

„Það hefur auðvitað margt verið sagt um þjóðarsáttina. Fæst af því er á réttu róli hvað snertir uppruna hennar og hvernig hún verður til. Og það er augljós ástæða fyrir því vegna þess að við sem stóðum að því að undirbúa jarðveginn fyrir þjóðarsáttina og áttum ríkan þátt í því að hún varð á endanum að veruleika, gerðum okkur grein fyrir því að forystusveit launþegasamtakanna og atvinnulífsins í landinu varð að vera á sviðinu og í sviðsljósinu. Þjóðarsáttin hefði aldrei tekist ef að ráðherrar og ríkisstjórn hefðu þar verið í forystu.“

Mér er illskiljanlegt hvaða akur Ólafur Ragnar Grímsson telur sig hafa verið að plægja í aðdraganda þjóðarsáttarsamninganna. Skömmu áður hafði ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar staðið fyrir stórfelldum skattahækkunum, meiri skattheimtu á fólk og fyrirtæki en nokkru sinni fyrr, og þrátt fyrir það var gert ráð fyrir þriggja milljarða króna halla á ríkissjóði. Höfundur forystugreinar Morgunblaðsins 12. desember 1989, orðaði það svo að þetta sýndi að fjármálaráðherrann Ólafur Ragnar Grímsson og ríkisstjórnin hefði „gefist upp við að ná jafnvægi í fjármálum ríkisins“ enda teldu kunnugir að fjárlagahallinn yrði margföld sú tala sem áætluð væri. Á sama tíma voru lántökuheimildir ríkissjóðs auknar um sjö milljarða en ásókn ríkisins á innlendan lánsfjármarkað var öðru fremur talin stuðla að háu vaxtastigi. Grípum niður í áðurnefnda forystugrein: „Þá er það dæmigert fyrir fjármálastjórnina að stefnt sýnist samtímis í mesta fjárlagahalla og mestu skattheimtu Íslandssögunnar á komandi fjárlagaári.“

Þjóðarsáttin snerist minnst um aðkomu ríkissjóðs — hún var verk forystumanna launafólks og atvinnurekenda. En kannski er ekki skrýtið að menn vilji eigna sér slíkt þjóðþrifaverk sem þjóðarsáttin var; „allir vildu Lilju kveðið hafa,“ eins og sagt var um helgikvæði Eysteins munks.

Það skiptir nefnilega máli hver segir söguna og hvernig hún er sögð. Og gott væri ef við ættum fleiri Kára Sölmundarsyni sem gætu hrundið Gunnari Lambasyni af sögustólnum — án þess þó að höggva af honum höfuðið!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Misheppnuð tilraun snýst um prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Misheppnuð tilraun snýst um prinsipp
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Jarðarfararblús

Óttar Guðmundsson skrifar: Jarðarfararblús
EyjanFastir pennar
18.04.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna
EyjanFastir pennar
15.04.2024

Svarthöfði skrifar: Skortir heimildarmynd

Svarthöfði skrifar: Skortir heimildarmynd
EyjanFastir pennar
06.04.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Tuttugasta öldin, taka tvö

Sigmundur Ernir skrifar: Tuttugasta öldin, taka tvö
EyjanFastir pennar
06.04.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var
EyjanFastir pennar
28.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar