fbpx
Föstudagur 10.maí 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn

Eyjan
Laugardaginn 27. apríl 2024 14:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svo háttar til í íslensku samfélagi – og hefur gert um langt árabil – að þjóðin kýs sér fremur vinstrisinnaðan forseta, en afneitar þeim sem eru íhaldsmegin í lífinu. Svona hefur þetta verið allan lýðveldistímann – og er þeim mun merkilegra sem sú staðreynd liggur fyrir að áttatíu prósent af þeim áttatíu árum hafa hægrimenn haft völdin við ríkisstjórnarborðið.

Sumsé. Þjóðin kýs til vinstri í forsetakosningum. En situr uppi með hægristjórnir í landsmálunum.

Sagan hefur endurtekið sig allar götur frá því fyrsti þjóðkjörni forseti lýðveldisins tók við embættinu af Sveini Björnssyni, sem kosinn var af þingheimi á Lögbergi rigningardaginn 17. júní 1944, en arftaki hans, framsóknarmaðurinn og síðar Alþýðuflokksmaðurinn Ásgeir Ásgeirsson, sem ríkt hafði sem forsætisráðherra um skeið, hafði þá ívið betur en helsti andstæðingur hans, hægriklerkurinn Bjarni Jónsson, dómkirkjuprestur, sem almennt var álitinn forsetaefni Sjálfstæðisflokksins.

Þar með var tónninn gefinn. Heita má að sagan hafi endurtekið sig 1968, eftir að Ásgeir hafði setið fjögur kjörtímabil í embætti, en þá vann þjóðminjavörðurinn Kristján Eldjárn stórsigur á stjórnmálamanninum Gunnari Thoroddsen með vel ríflega 65 prósentum atkvæða gegn litlu meira en 34 prósentum. Kristján hafði þá komið við sögu á framboðslista Framsóknarflokksins en var almennt talinn hallur undir félagshyggju, þvert á mótframbjóðandann sem var fulltrúi valdsins og vel til hægri.

Enn var þjóðfrægum sjálfstæðismanni hafnað í forsetakosningunum 1980, en goðsögnin Albert Guðmundsson, sem var borgarfulltrúi flokksins frá 1970 og þingmaður hans frá 1974, hlaut ekki brautargengi í kjörinu, náði ekki 20 prósentum atkvæða, ólíkt sigurvegaranum Vigdísi Finnbogadóttur sem hreppti rétt ríflega þriðjungsfylgi, raunar aðeins hálfu öðru prósenti meira en helsti keppinautur hennar, háskólarektorinn og síðar ríkissáttasemjarinn Guðlaugur Þorvaldsson.

„Það er vitaskuld rannsóknarefni af hverju hægrimönnum á Íslandi auðnast ekki að eignast forseta úr eigin röðum.“

Aftur og enn var fulltrúa hægrimanna hafnað í forsetakosningunum 1996, en hæstaréttardómarinn Pétur Kr. Hafstein varð þá að lúta í lægra haldi gegn Alþýðubandalagsþingmanninum Ólafi Ragnari Grímssyni – og munaði þar 12 prósentum á þeim tveimur efstu mönnunum í kjörinu.

Eftir tuttugu ára valdatíma Ólafs Ragnars á Bessastöðum – og raunar lét hann í veðri vaka að hann myndi bjóða sig fram í sjötta sinn, en hætti við það, var komið að því að sýna og sanna það í eitt skipti fyrir öll að landsmenn vilja ekki þjóðkjörinn forseta af hægri vængnum. Einum þaulsetnasta sjálfstæðismanninum á formannsstóli og í forsætisráðuneytinu, Davíð Oddssyni, var hafnað eftirminnilega í forsetakosningunum 2016, en hann hlaut 13,7 prósent atkvæða, langt fyrir neðan fylgi eigin flokks, og þrefalt minna en sigurvegarinn Guðni Th. Jóhannesson bar úr býtum.

Það er vitaskuld rannsóknarefni af hverju hægrimönnum á Íslandi auðnast ekki að eignast forseta úr eigin röðum. Og það ætti að vera þeim sjálfum áhyggjuefni af hverju þeir hafna sjálfir sínu fólki í forsetaframboðum. En ekkert lát er á þeirri afneitun, því varaþingmaður flokksins, sem nú er í kjöri, mælist ítrekað með innan við fimm prósenta fylgi í skoðanakönnunum, sem er aðeins fjórðungur af því sem flokkurinn hefur þó mælst með í landsmálunum á undanförnum misserum.

Og þetta er ósköp undarleg árátta. Því frekar kjósa þeir vinstrimenn en sína eigin menn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Málefnahnútarnir enn óleystir

Þorsteinn Pálsson skrifar: Málefnahnútarnir enn óleystir
EyjanFastir pennar
10.04.2024

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?

Svarthöfði skrifar: Svandís er nýr leiðtogi VG – hvað var Guðmundur Ingi að vilja upp á dekk?
EyjanFastir pennar
30.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
28.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fjörutíu og tvö prósent