fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin

Eyjan
Fimmtudaginn 10. október 2024 06:00

Svandís Svavarsdóttir, nýkjörinn formaður VG, í ræðustól á landsfundi flokksins á laugardag. Mynd/VG

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsfundur VG ákvað að slíta stjórnarsamstarfinu frá og með næsta vori. Aldrei fyrr hefur stjórnarsamstarfi verið slitið með svo löngum fyrirvara og án þess að tiltaka frá og með hvaða degi stjórnarslitaákvörðunin tekur gildi.

Á fjármálamörkuðum taka menn gjarnan áhættu með svokölluðum framvirkum samningum. Slíkir afleiðugerningar eru í eðli sínu veðmál.

VG hefur nú fært eðli afleiðuviðskipta upp á borð stjórnarsamstarfsins með þessum fyrstu framvirku stjórnarslitum Íslandssögunnar.

Rökin

Þessi pólitíski afleiðugerningur er að því leyti ólíkur gerningum á fjármálamörkuðum að enginn formlegur samningur er gerður við gagnaðila. VG treystir því einfaldlega að samstarfsflokkarnir dansi í takt við hljómfall landsfundarins.

Í ályktun landsfundar VG eru rökin fyrir framvirkum stjórnarslitum í aðalatriðum þessi:

  • Samstarfið „nálgast leiðar lok.“ Bara ekki alveg komið þangað.
  • Efnahagsástandið kallar á „ víðtækar aðgerðir“ eftir sjö ára samstarf.
  • Meðan „venjulegt fólk glímir við afleiðingar“ stjórnarstefnunnar „sækja gróðaöflin í sig veðrið.“
  • Samstarfsflokkarnir þjóna „hagsmunum fjármagnsaflanna umfram almannahagsmuni.“
  • Síðustu sjö mánuðina fram að formlegum stjórnarslitum þurfi að takast á við verkefnin á „félagslegum grunni.“

Gamalt vín á nýjum belgjum

Ekki verður annað sagt en rökin séu skýr!

Þó er eins og þetta sé gamalt vín á nýjum belgjum. Rökin fyrir framvirkum stjórnarslitum nú eru nefnilega alveg þau sömu og færð voru fyrir samstarfinu í byrjun.

Í fyrstu stefnuumræðu ríkisstjórnarinnar í desember 2017 sagði Svandís Svavarsdóttir að VG væri komið í þessa ríkisstjórn til þess að „bjarga heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngunum frá langvinnri vanrækslu og ásælni peningaaflanna í landinu.“

Í þessu ljósi er vel skiljanlegt að landsfundurinn hafi helst horft til þeirra, sem véla um áhættu og afleiður á fjármálamarkaði, og eftir það kosið að hafa stjórnarslitin framvirk.

Athygli vekur þó að hugtakið „félagslegur grunnur“ er ekki skilgreint í ályktun landsfundarins. Engar nýjar tillögur eru settar fram um mál sem mynda eiga þennan grunn.

Nota ekki sterkari stöðu

Ætla hefði mátt að framvirkum stjórnarslitum fylgdi lýsing á þeim málum í „félagslega grunninum,“ sem samstarfsflokkarnir hafa staðið í vegi fyrir undangengin sjö ár en eiga nú að samþykkja á næstu sjö mánuðum.

Þetta er því sérkennilegra að forsætisráðherraskiptin liðið vor hefðu átt að styrkja VG til þess að ná meira af sínum sérmálum fram.

Það er gamall og nýr pólitískur veruleiki að flokkur forsætisráðherra þarf jafnan að gefa meira eftir en samstarfsflokkarnir til þess að halda ríkisstjórnum saman.

Þingmenn VG segjast allir sem einn ætla að notfæra sér þessa stöðu en samt er ekkert í ályktun landsfundarins sem bendir til þess að breyting verði á eðli samstarfsins á sjö mánaða tímabili framvirkra stjórnarslita. Þau eru einfaldlega orðaleikur fremur en alvara.

Keppni við Samfylkingu

Skoðanakannanir benda til þess að tvo þriðju hluta af einstæðri fylgisaukningu Samfylkingar megi rekja til breyttra kosningaáforma fyrrum kjósenda VG.

Ekkert í orðræðu landsfundarins bendir til þess að VG ætli að ná til þeirra kjósenda sem fylgja flokkum á miðjunni og lengra til hægri.

Það segir þá sögu að áform landsfundar VG um fylgisaukningu byggjast nær alfarið á því að ná aftur fylgi sem í skoðanakönnunum hefur farið frá VG til Samfylkingar.

Klípa VG er bara sú að Samfylking hefur endurútgefið nær óbreytt loforð VG frá kosningunum 2017 um umfangsmiklar skattahækkanir til að auka velferðarútgjöld. Á þessum sviðum hefur Samfylking staðsett sig nákvæmlega þar sem VG var þá.

Litlar nýjar ógnir

Trúlega kemst VG yfir 5% markið. Þá dettur flokkurinn ekki út af þingi. Hitt er allsendis óvíst að meira komi út úr framvirkum stjórnarslitum.

Ólíklegt er því að Samfylking tapi nema tveimur til þremur prósentustigum aftur til VG.

Niðurstaðan er sú að Samfylkingin þarf ekki að óttast þunga endurheimtusókn VG í nýfengið fylgi.

Og þingmenn sjálfstæðismanna þurfa ekki að óttast nýjar kröfur frá VG. Þeir fá bara ekki sín sérmál fram frekar en fyrri daginn.

Það eru litlar nýjar ógnir í þessari stöðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
30.10.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?