fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda

Eyjan
Laugardaginn 30. mars 2024 15:00

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenskt samfélag er ekki ætlað almúganum. Það hefur alltaf þjónkað þeim sem betur hafa haft það um áraraðir. Og ríkjandi stjórnvöld, lengst af einn og sami flokkurinn, hafa fest í sessi sundrungina á milli þeirra sem gjalda og græða.

Þessu veldur einkanlega einn veikasti gjaldmiðill veraldar sem fær ekki staðist án hárra vaxta og verðtryggingar, sem merkir á mannamáli, að hann er alltof kostnaðarsamur fyrir almenning. Því er staðan sú að lántakendur, allur þorri launafólks í landinu, leggur stóran hluta af tekjum sínum til fjármagnseigenda á hverju ári. En með öðrum orðum merkir það að fátækari hluti landsmanna fitar þá betur stæðari, sjálft efnafólkið. Og þar er komið íslenska efnahagsundrið, eða hitt þá heldur.

Breytir hér engu að lántakendur eru hreyfiaflið í hagkerfinu. Með fjárfestingum sínum færa þeir efnahaginn úr stað. En á Íslandi er þeim einmitt refsað fyrir það. Nú um stundir með tvöfalt til þrefalt hærri vöxtum en þekkist í þeim löndum sem landsmenn bera sig einna oftast við hvað lífskjör varðar.

En það er enginn áhugi á að breyta þessu. Langflestum flokkum sem eiga sæti á Alþingi Íslendinga er sléttsama um þetta óheyrilega arðrán sem viðgengst á öllum tímum á Íslandi. Á meðan þessir martraðakenndu fjármagnsflutningar fara fram, árum saman, frá alþýðunni til aristókratanna, er hugur svo til allrar stjórnmálastéttarinnar bundinn við eitthvað allt annað.

Það merkir bara eitt. Mikill meirihluti Alþingis hefur ekki áhuga á að leiðrétta kjör almennings. Honum er fyrirmunað að bera hag þess fólks fyrir brjósti sem verður að greiða svo oft fyrir húsnæði sitt að engin önnur þjóð í heimi hér myndi sætta sig við viðlíka afarkjör – og raunar rán um hábjartan dag.

Og andlag þessa alls er stórlaskað hagkerfi sem heimtar líka sitt af almúganum. Og það til viðbótar við áðurnefnda óskammfeilni. Vegna krónunnar, sem er ekki boðleg í nokkru öðru landi en Íslandi, er samkeppnin í verslun og viðskiptum í skötulíki á norðurhjaranum. Þetta á ekki síst við um fjármálafyrirtækin í landinu, viðskiptabankana og tryggingafélögin, sem eru svo alræmd fyrir fákeppnina að önnur atvinnustarfsemi í landinu hefur ekki séð sér annað fært að ástunda annað eins. Verðsamráð byggingavöruverslana, olíufélaga og skipaútgerða eru hömruð í stein á Íslandi. Frjáls samkeppni í þessu volaða efnahagsumhverfi fær einfaldlega ekki þrifist.

„Mesti áfellisdómurinn yfir íslenskri pólitík er að hafa ekki í sér þá djörfung að bæta hag almennings.“

En stjórnmálastéttin vill hafa þetta svona. Í öllu falli stærstur hluti hennar. Og þar af leiðandi ríkjandi öfl. Hún kærir sig kollótta þótt þeir sem geti, flýi ástandið, og geri upp sín viðskipti í dölum eða evrum, einu nothæfu gjaldmiðlunum í viðskiptum hér á landi, á meðan pöpullinn situr uppi með ónýta krónu, allt sitt líf, og borgar allt sem hún á aukalega fyrir hana.

Mesti áfellisdómurinn yfir íslenskri pólitík er að hafa ekki í sér þá djörfung að bæta hag almennings. Því orsökina þekkja allir. Hennar er að leita í allt of veikri mynt. Jafnvel í Svíþjóð, sem er tuttugu og fimm sinnum stærra hagkerfi en Ísland, er uppi umræða um að sænska krónan sé allt of lítil og ræfilsleg fyrir alþjóðleg viðskipti og þau hin sem gerast heima fyrir. En á meðan ríkir þögnin ein á Íslandi. Engin raunveruleg svör. Kannski einhver æmtandi upphrópun, en ekkert alvarlegra.

Arðránið skal halda áfram. Frá lántakendum til fjármagnseigenda. Það er íslenska leiðin.

Og á meðan er bara fjasað um það eitt hvort ekki eigi að selja banka í almannaeigu til einstaklinga – og sjálfsagt vegna þess eins hvað landsmenn hafa góða reynslu af því að einkaframtakið sprangi þar um hirslur og hólf, allt þar til ríkið þarf að koma liðinu til hjálpar með gúlpvíðan pilsfald sinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
27.10.2024

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar