„Í síðustu viku varð Tý á í messunni þegar hann notaði ósmekklega myndlíkingu, sem einnig varð að fyrirsögn, í pistli sem fjallaði um formann Samfylkingarinnar, Kristrúnu Frostadóttur og fylgisaukningu flokksins í skoðanakönnunum.“
Svona hefst skoðanapistill í Viðskiptablaðinu sem stílaður er á dulnefnið Tý. Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku birtist skoðanapistill eftir Tý með fyrirsögninni „Ótímabært sáðlát“ en pistillinn fjallaði um að það gæti reynst Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, áskorun að „halda bjarma sínum fram til næstu kosninga.“
Fyrirsögnin var gagnrýnd harðlega, meðal annars af Þórði Snæ Júlíussyni, sem er annar af tveimur ritstjórum Heimildarinnar. „Litlir kallar að gera það sem litlir kallar gera,“ skrifaði Þórður í færslu um málið sem hann birti á samfélagsmiðlinum Twitter.
„Skíta upp á bak og vona að skíturinn hverfi vegna þess að þeir láta eins og sé ekki þarna. En lyktina finna allir. Ágætt að þessi vettvangur minnstu nafnlausu kallanna opinberi sig aftur og aftur og aftur fyrir það sem hann er.“
Í skoðanapistlinum sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag er Kristrún beðin afsökunar. „Myndlíkingin var með öllu óboðleg og til þess fallin að særa,“ segir Týr.
„Tý þykir afar miður að hafa misboðið lesendum með vanhugsuðum skrifum og biður Kristrúnu og lesendur alla innilegrar afsökunar, enda stendur hann við það sem fram kom í umræddum pistli, að Kristrún sé mesta efni Samfylkingarinnar um langa hríð og bindur miklar vonir við að hún muni hafa góð áhrif á vinstri armi stjórnmálanna.“
Þá Týr að hann hafi gengið of langt með skrifunum en þó vill hann taka fram að ætlunin hafi ekki verið að særa eða misbjóða fólki. „Þessi skrif komu ekki frá slæmum stað, þótt ýmsir flautuþyrlar hafi reynt að nýta tækifærið til að væna Tý og Viðskiptablaðið í heild sinni um annarlegar hvatir,“ segir í pistlinum.
„Í fullri einlægni þá fór Týr fram úr sér með óviðeigandi myndlíkingu. Týr gerir sér nú grein fyrir að þegar skrifin eru skoðuð í víðara samhengi samfélagslegrar orðræðu, sérstaklega þegar kemur að konum, þá er útkoman vægast sagt ömurleg og allt annað en fyndin. Það er betra að vera vitur eftir á en að verða einskis vísari.“
Undir lokin segir í pistlinum að fátt sé skemmtilegra en hárbeitt stjórnmálaumræða þar sem hart en málefnalega er tekist á. „Stjórnmálaumræða getur þó oft verið ansi ósanngjörn og döpur, þar sem farið er í manninn frekar en málefnin. Við höfum séð fjölmörg dæmi þess í gegnum tíðina og slík stjórnmálaumræða er ekki eitthvað sem Týr vill standa fyrir,“ segir í honum.
„Týr leggur það í vana sinn að vera beittur og óvæginn, en á sama tíma málefnalegur og alls ekki meiðandi. Þess vegna tekur Týr því sérstaklega nærri sér að hafa gerst sekur um að bjóða Kristrúnu og lesendum upp á þann ósóma sem hann gerði í síðasta blaði.
Týr einsetur sér að læra af þessum mistökum. Hann mun áfram vera beittur og óvæginn í gagnrýni sinni en mun gera sitt allra besta til að sýna viðfangsefnum pistlanna virðingu og falla ekki aftur í sömu gryfju og síðast.“