Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, er gáttuð á nýjustu fregnum af Starfsgreinasambandinu (SGS) – um að sambandið sé nú byrjað í samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA) um nýjan langtímasamning til að taka við af þeim samningi sem nýlega var samþykktur.
Sólveig veltir því fyrir sér á Facebook hvort að ekki sé um met í „lágkúru“ að ræða.
„Þetta hlýtur að vera eitthvað met í lágkúru: Í staðinn fyrir að styðja Eflingu, félag í harðri kjaradeilu, félag sem tilheyrir Starfsgreinasambandinu og er þar langstærst, ræðst forysta SGS í örvæntingu sinni yfir því að Efling nái betri samningi að okkur við hvert tækifæri með sífellt yfirgengilegri málflutningi. Og nú er forystan komin í sýndar-viðræður við SA í stað þess að setja þar pressu á um að samið verði samstundis við Eflingu! Hvers konar fólk gerir svona?“
Sólveig veltir því fyrir sér hvort viðlíka svik hafi áður sést í sögu verkalýðsbaráttu hér á landi.
„Hafa viðlíka svik sést í sögu verkalýðsbaráttu á þessu landi? Ég spyr í fullri alvöru. Og er ekki tímabært að forysta SGS láti kjósa um það að Efling sé einfaldlega rekin úr sambandinu í stað þess að halda áfram að féfletta félagið og verkafólk höfuðborgarsvæðisins, meðlimi Eflingar? Er það ekki hreinlegra en þetta sjúka framferði sem við verðum nú vitni að? Getur þetta fólk í alvöru réttlætt fyrir sér að taka við fjármunum verkafólks höfuðborgarsvæðisins til að borga undir þá ömurð sem við þurfum að horfa upp á?“
Sólveig segir að hún myndi segja „þessu fólki“ að skammast sín, en efast þó um að það hefði nokkuð gagn.
„Ég myndi segja þessu fólki að skammast sín en ég held að þau kunni það ekki. En skömm þeirra er sannarlega mikil og mun aldrei gleymast“