fbpx
Laugardagur 07.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Flokkur í forystukreppu

Eyjan
Sunnudaginn 30. október 2022 17:30

Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Frjálsir stjórnmálaflokkar eru ein meginforsenda lýðræðislegra stjórnarhátta og svo vel megi takast til við stjórn ríkis þurfa að vera til staðar breiðir þjóðarflokkar sem geta orðið hreyfiafl umbóta í samfélögum. Sjálfstæðisflokkurinn var lengst af slíkur flokkur með meðalfylgi í kringum 37% á landsvísu og um 45% í bæjarfélögum. Í krafti styrksins gat flokkurinn haft forgöngu um mörg stærstu hagsmunamál þjóðarinnar á grundvelli nokkuð skýrra hugsjóna um einstaklingsfrelsi, mannréttindi, lýðræði, réttarríki, atvinnufrelsi og sér í lagi frjáls viðskipti.

Hér er þó rétt að slá þann varnagla að því fer fjarri að flokkurinn hafi fylgt þessum hugsjónum jafneinarðlega og talsmenn hans láta oft í veðri vaka. Sjálfstæðisflokkurinn lét verslunar- og fjárfestingahöft viðgangast alltof lengi, hann hefur fram á þennan dag umborið viðskiptahömlur í landbúnaði og aðhyllst alls kyns forræðishyggju svo fátt eitt sé nefnt. Samt sem áður má færa fyrir því gild rök að flokkurinn hafi haft forgöngu um að leiða til lykta mörg helstu hagsmunamál lýðveldisins.

Nú er hún Snorrabúð stekkur

Í alþingiskosningum 2007 hlaut Sjálfstæðisflokkurinn 36,6% atkvæða og 25 menn kjörna undir forystu Geirs H. Haarde formanns og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur varaformanns. Ef við horfum til skoðanakannana Gallups þá var meðaltalsfylgi Sjálfstæðisflokksins um og yfir 40% fram á árið 2008. Fylgið mældist sem dæmi 45,1% í júlí 2007. Síðan féllu viðskiptabankarnir og flokkurinn tapaði alls níu þingmönnum í kosningunum 2009 undir forystu nýs formanns, Bjarna Benediktssonar; hlaut aðeins 23,7% atkvæða.

Fylgishrunið þá var við erfiðar aðstæður í meira lagi en litið til kannana Gallups fór flokkurinn að hjarna við síðar sama ár. Í október 2009 mældist fylgið 32,7% og var almennt yfir þriðjungi næstu misserin. Sögulega var þetta samt slælegur árangur. Þegar óvinsælar vinstristjórnir voru við völd hér á árum áður var ekki óalgengt að kannanir sýndu sjálfstæðismenn með helmingsfylgi og þegar þarna var komið sögu var það svo sannarlega óvinsæl vinstristjórn sem hélt um valdatauma.

Gallup mældi fylgi Sjálfstæðisflokksins 35,5% í janúar 2013 en aðeins 22,2% í apríl sama ár. Flokkurinn náði nokkuð að rétta úr kútnum þegar kom að kosningunum það ár, hlaut þá 26,7% á landsvísu og 19 menn kjörna. Enn bætti flokkurinn við sig 2016. Fylgið fór upp í 29,0% og tveir þingmenn bættust við. Illa gekk að mynda ríkisstjórn í kjölfarið og það var ekki fyrr en á nýju ári sem til varð stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar undir forsæti Bjarna Benediktssonar. Það var brothætt samstarf enda þingmeirihlutinn eins naumur og hugsast gat. Fall stjórnarinnar skrifast ekki eingöngu á Bjarta framtíð. Það er mat margra að forsætisráðherra hefði þurft að leggja mun meiri rækt við forystuhlutverk sitt í stjórninni. Síðan þá hefur formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins ekki komið til álita sem forsætisráðherra.

Sjálfstæðisflokkurinn leiðir sósíalista til öndvegis

Í kjölfar þess að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar féll 2017 var efnt til kosninga. Þá missti Sjálfstæðisflokkurinn fimm menn og fylgið fór niður í 25,2%. Niðurstaða kosninganna veitti enga skýrari kosti á stjórnarmyndun en verið höfðu á fyrra kjörtímabili. Pólitísk upplausn misserin á undan og tvennar alþingiskosningar með skömmu millibili kölluðu á að málin yrðu hugsuð upp á nýtt.

Það var við þær aðstæður sem hið sérstæða stjórnarform varð til sem spannar allt pólitíska litrófið en undir forsæti helsta foringja sósíalista hér á landi. Stefnan hefur verið eftir því: ríkisútgjöld vaxið hratt og skuldir að sama skapi. Erfitt er að sjá margt sem minnir á grunngildi Sjálfstæðisflokksins við framkvæmd stjórnarstefnu síðustu fimm árin.

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði enn í síðustu alþingiskosningum, hlaut næstverstu kosningu frá upphafi eða 24,4% en þingmannatalan hélst óbreytt. Eftir þær kosningar horfði raunar svo við að ýmsir kostir voru á stjórnarmyndun en forystu Sjálfstæðisflokksins leið svo vel í faðmi og undir verkstjórn Vinstri grænna að flokkarnir endurnýju heit sín með Framsóknarflokknum. Áfram verða fjárlög því afgreidd með miklum halla, ríkisútgjöld stóraukin og almennar vinstriáherslur ríkjandi í flestum málaflokkum.

Það var á sinn hátt táknrænt að ráðist var í umfangsmikla stækkun Stjórnarráðsins á þessum tímamótum og ráðherrum fjölgað um tvo. Grunngildi sjálfstæðismanna um sparnað í opinberum rekstri eru farin veg allrar veraldar. Útþensla hins opinbera og aðrar vinstriáherslur svo grímulausar að tal forystumanna Sjálfstæðisflokksins um aðhald í ríkisrekstri og einstaklingsfrelsi eru hjóm eitt. Einn gamalreyndur sjálfstæðismaður orðaði það svo í samtali okkar á dögunum að flokkurinn starfaði ekki lengur á grundvelli neinnar hugmyndafræði. Hann væri nú orðinn ekkert annað en valdaflokkur — allt gengi út að að hanga á völdum sama hvað það kostaði.

Anni horribiles

Hverfum aftur til ársins 1978 sem kalla mætti annus horribilis í sögu Sjálfstæðisflokksins en þá gerðist það í fyrsta sinn að flokkurinn lenti utan ríkisstjórnar á sama ári og hann missti meirihluta í borgarstjórn. Í kjölfarið lögðust flokksmenn í alvarlega sjálfsskoðun, haldnir voru fjölmennir fundir þar sem hin vonda staða var rædd í þaula og forystumenn sættu harðri gagnrýni fyrir opnum tjöldum. Skipaðir voru starfshópar sem lögðust yfir málin og á grundvelli þeirrar vinnu sótti flokkurinn fram á nýjan leik og rétti úr kútnum.

Allt annað er uppi á tengnum nú og ljóst að vandræðagangur í tengslum við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka kostaði Sjálfstæðisflokkinn mörg atkvæði í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum (og líklega er flokkurinn ekki enn búinn að bíta úr nálinni með bankasöluna). Hvarvetna tapaði flokkurinn fylgi og í Reykjavík var útkoman hin versta frá upphafi. Þar hlaut hann aðeins 24,5% atkvæða. Hið sama má segja um fylgistapið í borginni og á landsvísu: Málin eru ekki rædd opinskátt á vettvangi flokksins. Engir fundir, engir vinnuhópar skipaðir. Annað hvort er hinum djúpstæða vanda afneitað eða umræðan þögguð niður. Vart má á milli sjá hvort er alvarlegra.

Þeir sem lærðu latínu vita að hörmungarárið er anni horribiles í fleirtölu. Það er kannski viðeigandi nafngift á svipugöng Sjálfstæðisflokksins undanfarin áratug og vandséð að núverandi formaður leiði flokkinn upp úr þeim táradal

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Að vinna bug á skrílmennskunni

Björn Jón skrifar: Að vinna bug á skrílmennskunni
EyjanFastir pennar
30.10.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?