fbpx
Miðvikudagur 10.ágúst 2022
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Af heimsóknum bresks kóngafólks hingað til lands

Eyjan
Sunnudaginn 5. júní 2022 17:32

Skjáskot/RÚV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlar eru uppfullir þessa dagana af fréttum sem tengjast sjötíu ára ríkisafmæli Elísabetar II Englandsdrotttningar enda viðburðurinn í meira lagi sögulegur. Enginn þjóðhöfðingi Evrópu hefur ríkt lengur ef undan er skilinn Loðvík XIV Frakkakonungur sem var formlega konungur frá því að hann var barn að aldri 1643 allt til dánardægurs 1715 eða í rúm 72 ár. En svo kann að fara að hennar hátign slái þetta met.

Ekki er nema von að margir nú á dögum undrist hversu mörg erfðaveldi eru enn við lýði í Evrópu en vitaskuld eru þetta alsaklausar leifar fornrar stjórnskipunar þar sem ríkti hinn guðs útvaldi konungur — sem í heiðnum sið rakti ættir sínar til guðanna. Upphafningin er nú að miklu leyti horfin; fyrrverandi drottning Hollands er farin á eftirlaun og Spánarkonungur býr ekki einu sinni í höllinni. Allt er þetta orðið með frjálsari brag en áður var og kóngafólkið meira að segja á reiðhjólum um borg og bý — nema í Bretlandi. Windsorarnir vilja ekki ástunda konungdóm öðruvísi en með „pomp and circumstance“.

Englandsdrottning á Íslandi

Englandsdrottning hefur aðeins einu sinni komið hingað til lands en hér var hún í opinberri heimsókn 1990. Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins rifjaði á dögunum upp að þau Filippus, hertogi af Edinborg, hefðu í þeirri heimsókn litið stutta stund í Höfða og heilsað upp á borgarstjóra, borgarstjórn og æðstu embættismenn Reykjavíkurborgar. Um kvöldið var boðið til veislu í Brittanniu, snekkju drottningar, en áður en hennar hátign mætti til að heilsa upp á gesti varð hirðsiðameistari að raða þeim í virðingarröð og þeir síðan kynntir fyrir drottningu með embættistitli og nafni. Hirðsiðameistaranum varð þó á í messunni því þegar kom að Ólafi Skúlasyni biskupi mælti hann: „Borgarstjórinn í Reykjavík, herra Oddsson.“ Drottningin er greinilega mannglögg því henni varð þá að orði: „Er það virkilega? Hann hefur þá bæði lengst og grennst síðan í dag!“

En þó svo að drottningin hafi aðeins einu sinni sótt landsmenn heim gilti öðru máli um Filippus heitinn drottningarmann sem var tíður gestur hér og kom raunar oftar hingað en nokkur fulltrúi bresku konungsfjölskyldunnar fyrr og síðar. Fyrst kom hann hingað sumarið 1964 og sigldi inn til hafnar í Reykjavík á áðurnefndri Brittanniu. Mikill mannfjöldi safnaðist saman á hafnarbakkanum og fagnaði komu Filippusar og enn fleiri fögnuðu honum á Austurvelli er hann steig út á svalir Alþingishússins og mælti nokkur orð á íslensku.

Hertoganum var síðan ekið til Bessastaða þar sem hann fékk að skoða hreiður kríu og hettumáfs. Sjálfur gaf Filippus ekki færi á viðtölum við íslensku blöðin en Ásgeir Ásgeirsson forseti sagði hann hafa verið áhugasaman um fuglalífið: Hann virtist „vita bókstaflega allt um fugla“, eins og Ásgeir orðaði það við blaðamenn. Frægt var að Filippus gat orðið viðskotaillur í garð ljósmyndara. Einn ljósmyndara íslensku blaðanna reyndi að hætta sér of nærri þar sem hertoginn var við fuglaskoðun, en varð frá að hverfa með blóð í hári eftir að krían hafði stuggað honum burt! Þegar ljósmyndarar íslensku blaðanna höfðu myndað drottningarmann og forsetahjónin úti á hlaði Bessastaða mælti Filippus stundarhátt: „Ljósmyndararnir hljóta að fara að verða búnir með filmurnar, þeir eru búnir að taka þau ósköp af myndum!“

Hertoginn áhugasamur um framtíð Reykjavíkurflugvallar

Daginn eftir hélt hertoginn af Edinborg á Þingvöll og þaðan um Uxahryggi í Borgarfjörð þar sem hann renndi fyrir lax í Norðurá. Samkvæmt fréttum blaðanna fékk hann þrjá laxa og vó sá stærsti níu pund. Þaðan flaug hann norður til Akureyrar og Mývatns og gisti á Hótel Reykjahlíð. Við Mývatn undi hertoginn sér við fuglaskoðun. Þar sá hann meðal annars skúfönd, sem hann hafði aldrei fyrr augum litið.

Síðasta deginum varði drottningarmaður í Reykjavík, þar sem hann fór um í fylgd Geirs Hallgrímssonar borgarstjóra. Þegar ekið var framhjá húsi Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara í Sigtúni var listamaðurinn úti í garði að vinna að verki sínu Tröllkonu. Listamaðurinn vildi ólmur sýna hertoganum verk sín, en Geir borgarstjóri kallaði: „Það er ekki tími til þess!“ En Ásmundur sinnti því engu og Filippus staldraði við hjá honum um stund.

Síðan sýndi Jóhannes Zoëga hitaveitustjóri drottningarmanni hitaveituframkvæmdir í Álfheimum og borholu skammt fyrir ofan Shell-stöðina við Suðurlandsbraut (nú Laugaveg). Holustúturinn var opnaður fyrir hinn tigna gest og upp kom myndarlegt gufugos. Í frétt Alþýðublaðsins sagði af þessum viðburði: „Þótti prinsinum þetta fróðlegt og merkilegt.“ Blaðið greindi einnig frá því að Filippus hefði spurt borgarstjóra um framtíð Reykjavíkurflugvallar og hvort til stæði að leggja flugbrautir út í sjó.

 

Næst kom hertoginn hingað þremur árum síðar á leið sinni til Toronto á alþjóðlega landbúnaðarráðstefnu. Íslensku blöðin gerðu að umtalsefni að hann flygi vélinni sjálfur, en um var að ræða litla vél frá flughernum. Í samtali við blaðamann hafði hann þetta að segja: „Ég vil heldur fljúga svona lítilli vél og fljúga henni sjálfur en í einhverri bannsettri þotu, sem kemur manni á áfangastað eins og örskot.“ Þrátt fyrir að aðeins væri um skamma viðdvöl að ræða gaf hertoginn sér tíma til að þiggja kaffiveitingar hjá Ásgeiri forseta á Bessastöðum.

Þegar komið var fram á tíunda áratuginn höfðu veitingamenn í Keflavík ætíð á boðstólum íslenskar pönnukökur með rabarbarasultu og rjóma þegar Filippus hafði hér viðkomu á leið sinni yfir hafið og jafnan fékk hann með sér aukaskammt í nesti, en íslenskar pönnukökur voru víst í alveg sérstöku uppáhaldi hjá drottningarmanni.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, er sá Íslendingur sem hafði hvað mest kynni af Filippusi hertoga. Hún segir frá því í ævisögu sinni að hann hafi haft skemmtilega nærveru og einhverju sinni tók hann svo til orða er þau kvöddust: „Do drop in when you are in London.“

Prinsinn tekur viðtal við blaðamann DV

Sonur þeirra hjóna, Karl ríkisarfi, kunni einnig vel við sig hér á landi á árum áður. Í byrjun ágústmánaðar 1975 veiddi hann alls 28 laxa í Hofsá og tók hluta fengsins heim með sér en var örlátur á aflann og færði Geir Hallgrímssyni, sem þá var orðinn forsætisráðherra, meðal annars vænan lax. Í samtölum við íslensku blöðin lét Karl þess sérstaklega getið hversu mjög hann hefði notið næðisins hér á landi. Er hann dvaldi í Reykjavík gisti hann í ráðherrabústaðnum og þáði þar kvöldverðarboð ríkisstjórnarinnar.

Áfram veiddi prinsinn í Hofsá næstu árin en lét af veiðiskapnum eftir að þau Díana festu ráð sitt. Grétar Norðfjörð lögreglumaður annaðist gæslu Karls er hann var við veiðar í Hofsá forðum. DV ræddi við Grétar í tilefni fimmtugsafmælis prinsins 1998: „Karl er einstakur maður og það er mín eindregin skoðun að hann sé sérstaklega vel fallinn til að leiða þjóð sína í framtíðinni,“ sagði Grétar, en hann var viðstaddur þegar Karli voru bornar fréttirnar af voveiflegu andláti frænda síns, Mountbatten lávarðar, árið 1979: „Við ókum honum niður á Vopnafjörð þar sem hann hringdi í móður sína.“

Þota konungsfjölskyldunnar millilenti á Reykjavíkurflugvelli til eldsneytistöku 2. september 1986 og Karl ríkisarfi gekk stuttlega frá borði á dýrðlegum síðsumardegi. Kristján Már Unnarsson, blaðamaður DV, var mættur á staðinn til að ná góðri ljósmynd en svo fór að Karl vildi ólmur spjalla við blaðamanninn, spurði hann um blaðið sem hann ynni hjá, starf blaðamannsins og íslenska blaðaútgáfu. Blaðamaðurinn hafði mestan áhuga á að vita hvenær næst væri von á Karli í laxveiði í Hofsá en því var til að svara að hann hefði verið upptekinn við uppeldi barna sem væru orðin tvö. En prinsinn hleypti Kristni Má lítið að og lét hann sitja undir spurningahríð það sem eftir lifði gönguferðarinnar!

Og nú 36 árum síðar situr móðir prinsins enn í hásæti og líklega hafa fáir verið jafn vel búnir undir starfa sinn og Karl sonur hennar þegar að því kemur að hann taki við krúnunni.

Hér má finna umrætt viðtal fyrir forvitna

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Fastir pennarFókus
23.06.2022

Var Charles Manson útsjónarsamur költ leiðtogi eða bara örlítið sjarmerandi óþokki?

Var Charles Manson útsjónarsamur költ leiðtogi eða bara örlítið sjarmerandi óþokki?
Fastir pennarFókus
20.06.2022

Poppsálin: Gerir ástarsorgin okkur klikkuð?

Poppsálin: Gerir ástarsorgin okkur klikkuð?
EyjanFastir pennar
19.06.2022

Birgir Dýrfjörð skýtur föstum skotum að formanni SÁÁ – ,,Mögulegt fjársvikamál“

Birgir Dýrfjörð skýtur föstum skotum að formanni SÁÁ – ,,Mögulegt fjársvikamál“
EyjanFastir pennar
14.06.2022
„Þú líka Brútus“
EyjanFastir pennar
12.06.2022

Björn Jón skrifar: Að lesa í úrslit kosninga

Björn Jón skrifar: Að lesa í úrslit kosninga
EyjanFastir pennar
29.05.2022

Björn Jón skrifar: Mikilvægi þess að læra þýsku – já og tungumál almennt

Björn Jón skrifar: Mikilvægi þess að læra þýsku – já og tungumál almennt
EyjanFastir pennar
13.05.2022

Framtíð menntunar

Framtíð menntunar
EyjanFastir pennar
07.05.2022

Kjósum borgarstjóra beinni kosningu

Kjósum borgarstjóra beinni kosningu
EyjanFastir pennar
05.05.2022

Leyndardómar Borgarlínunnar sem „gleymdist“ að skoða

Leyndardómar Borgarlínunnar sem „gleymdist“ að skoða
EyjanFastir pennar
25.04.2022

Hver á að borga fyrir nýjan Reykjavíkurflugvöll? Svarið gæti komið þér á óvart.

Hver á að borga fyrir nýjan Reykjavíkurflugvöll? Svarið gæti komið þér á óvart.
Aðsendar greinarFastir pennar
20.04.2022
Alls ekki tala um Bjarna
EyjanFastir pennar
17.04.2022

Björn Jón skrifar: Hreinsanirnar í Eflingu

Björn Jón skrifar: Hreinsanirnar í Eflingu
EyjanFastir pennar
15.04.2022

Að vera vitsmunalega niðurlægður af barni

Að vera vitsmunalega niðurlægður af barni