Einn þekktasti herbloggari Rússa, Igor Gerkin, hefur verið handtekinn í Moskvu eftir gagnrýnin skrif í garð Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, og framgöngu rússneska hersins í Úkraínu. Þykir aðgerðin til marks um mun takmarkaðri þolinmæði yfirvalda varðandi hverskonar gagnrýni í kjölfar Wagnerliða-uppreisnarinnar á dögunum sem Yevgeny Prigozhin stýrði.
Igor Gerkin, er fyrrum foringi í KGB sem aðstoðaði þegar Rússar hertóku Krímskaga árið 2014. Þá var hann sakfelldur fyrir sinn þátt í fjöldamorðinu þegar að flugvél frá Malaysia Air var skotinn niður yfir austur-Úkrínu af Rússum með þeim afleiðingum að 289 manns létust.
Gerkin er öfgaþjóðernissinni sem heldur úti afar vinsælli rás á Telegram-samfélagsmiðlinum. Hann er ákafur stuðningsmaður innrásar Rússa í Úkraínu og er stuðningsmaður Vladimir Pútín þó að hann gagnrýni hann reglulega. Meðal annars var Gerkin í farabroddi „Reiðra föðurlandsvina“ sem ætluðu að bjarga Rússlandi og forsetanum frá kerfisbyltingu þar sem Pútín yrði bolað frá völdum.
Gerkin studdi þó oft gagnrýni Yevgeny Prigozhin á rússneska herinn og hefur einnig getað leyft sér að gagnrýna Pútín án þess að þurfa að óttast einhverjar afleiðingar. Þar til nú.
Á þriðjudaginn síðasta birti Gerkin færslu þar sem hann kallaði Pútín „ræfil“ og „huglausan aumingja“. Það virðist hafa verið kornið sem fyllti mælinn og þremur dögum síðar var Gerkin handtekinn á heimili sínu og leiddur á brott.
Hefur hann verið kærður af yfirvöldum fyrir að ýta undir öfgahyggju.
Sérfræðingar í málefnum Rússlands telja að handtaka Gerkin sé bein afleiðing af Wagner-uppreisninni og hvernig að þolinmæði Pútín og annarra ráðamanna gagnvart hverskonar gagnrýni sé á þrotum.