RÚV hefur nú staðfest þátttöku í Eurovision-keppninni sem haldin verður á Ítalíu í máli á næsta ári. Undankeppnin íslenska, Söngvakeppnin, verður haldin í febrúar 2022 og hefur nú verið opnað fyrir innsendingar laga í keppnina á slóðinni songvakeppnin.is
Bæði verður tekið á móti innsendum lögum og leitað til reyndra og vinsælla lagahöfunda um að semja nokkur laganna.
Undanúrslit fara fram 12. og 19. febrúar og verður úrslitakvöldið laugardaginn 26. febrúar þar sem fjögur lög keppa um að verða framlag Íslendinga í Eurovision 2022. Framkvæmdastjórn áskilur sér þó sem fyrr leyfi til að hleypa „einu lagi enn“ áfram í úrslitin en þá myndu fimm lög keppa til úrslita á lokakvöldinu.
Í tilkynningu frá framkvæmdastjóra Söngvakeppninnar segir:
„Á síðustu árum hafa erlendar stórstjörnur úr Eurovision heiminum troðið upp í Höllinni á úrslitakvöldinu, Eleni Foureira, Alexander Rybak, Loreen, Robin Bengtsson, Måns Zelmerlöw og fleiri. Á því verður engin breyting í ár.
RÚV og framkvæmdastjórn keppninnar hvetja alla laga- og textahöfunda landsins til að senda inn lög og halda þannig áfram að móta tónlistarsögu Íslands. Söngvakeppnin snýst um fjölbreytni og eru allar tónlistartegundir velkomnar. Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti miðvikudaginn 6. október nk. Í janúar á næsta ári verður svo tilkynnt hvaða lög taka þátt í þessum stærsta sjónvarpsviðburði ársins.“