Guðrún Bjarnadóttir miðlar reynslu sinni af heimilsisofbeldi á sviði Tjarnarbíós með leikhópnum RaTaTam í leikverkinu Suss!
„Við lítum heimilisofbeldi í dag sömu augum og við litum alkóhólisma fyrir 60 árum.“ Þetta segir leikkonan Guðrún Bjarnadóttir sem hefur hrottalega reynslu af heimilisofbeldi. Guðrún sem opinberaði sögu sína árið 2014 hefur um langa hríð unnið mikla sjálfsvinnu. Í dag hefur hún þó alfarið sagt skilið við fyrra líf og lítur framtíðina björtum augum. Nýverið frumsýndi Guðrún, ásamt leikhópnum RaTaTam, leikverkið SUSS! sem byggir á reynslusögum gerenda, þolenda og aðstandenda þeirra af ofbeldi sem er alla jafna falið innan veggja heimilisins.
Guðrún tilheyrir leikhópnum RaTaTam en nýverið frumsýndi hópurinn, sem samanstendur af fimm leikurum, leikverkið SUSS! í Tjarnarbíói. Leikritið sýnir hinar ýmsu birtingarmyndir ofbeldis innan veggja heimilisins.
Auk Guðrúnar eru í hópnum Halldóra Rut Baldursdóttir, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Hildur Magnúsdóttir og Laufey Elíasdóttir. Charlotte Boving leikstýrir verkinu. Þórunn María Jónsdóttir sér um leikmynd og búninga. Tónlist er í höndum Helga Svavars Helgasonar. Arnar Ingvarsson og Kristinn Ágústsson sjá um ljósahönnun og tæknikeyrslu og listræna ráðgjöf veitti Heiðrik á Heygum.
Allir sem koma að verkinu eiga það sameiginlegt að hafa kynnst ofbeldi í einhverri mynd. Gríðarleg vinna liggur að baki sýningunni sem byggir á 50 viðtölum við þolendur, gerendur og aðstandendur.
„Við auglýstum eftir fólki til að taka viðtöl við á Facebook í janúar. Viðtökurnar voru framar öllum vonum og við tókum tugi viðtala við alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins.“
Í upphafi vinnunnar við sýninguna tóku þau nokkrar vikur í að lesa öll viðtölin en þau voru með yfir 200 klukkustundir af efni. Guðrún segir að það hafi tekið mikið á þau andlega að lesa allar þessar ofbeldissögur með það að markmiði að fiska út það sem átti að vera með í sýningunni.
„Maður áttar sig samt ekki á því fyrr en eftir á. Það er svo auðvelt að verða samdauna efninu. Á einum tímapunkti vorum við öll orðin andlega uppgefin. Charlotte, leikstjórinn okkar, sá þó hvað var í gangi og greip í taumana. Hún hélt svo vel utan um okkur og það er henni að þakka hvað við erum samheldinn og flottur hópur.“
„Það er ógnvekjandi að sjá mynstrið.“
Guðrún segir að langflestir sem sögðu meðlimum RaTaTam sögu sína hafi verið að segja sögu sína í fyrsta skipti. „Það sýnir kannski hversu algengt heimilisofbeldi er,“ segir Guðrún og bætir við að það hafi verið mjög sláandi að þrátt fyrir að sögurnar væru margar hverjar ólíkar væru þær í grunninn allar eins, ofbeldi er alltaf ofbeldi.
„Það er ógnvekjandi að sjá mynstrið. Hvernig samböndin byrja og hvernig gerandinn nær smátt og smátt að brjóta þolandann niður.“
Líkt og áður segir byggir leikverkið á sönnum frásögnum Íslendinga. Þar kemur til dæmis í ljós í rannsóknum sem hópurinn lagðist yfir að kynin beita ofbeldi jafnt og að karlmenn eigi mun erfiðara en konur með að viðurkenna ofbeldið.
„Það er oft hugsunarháttur karlmanna að þeir láti ekki konu berja sig. Og ef hún gerir það þá ertu ekki maður með mönnum ef þú viðurkennir það. Því er það látið liggja í þagnargildi.“
Guðrún bendir með þessu á að konur séu ekkert minni gerendur en karlmenn þegar kemur að heimilisofbeldi, þó svo að birtingarmyndin sé oft önnur. „Það er sárt að horfa upp á kynsystur mínar beita ofbeldi þannig að barnsfeður þeirra fái ekki að umgangast börnin sín.“
Þó svo að leikverkið sé með alvarlegan undirtón er einnig að finna mikinn húmor í sýningunni. Guðrún segir það bráðnauðsynlegt að geta hlegið að erfiðri lífsreynslu eftir á. Eða að minnsta kosti að einhverjum hluta hennar.
Þrátt fyrir allt sem á undan er gengið er Guðrún þakklát fyrir lífsreynsluna sem hefur kennt henni að sjá lífið frá allt öðru sjónarhorni. Hún hefur í dag mun meiri trú á sjálfri sér og því sem hún tekur sér fyrir hendur en áður en hún kynntist ofbeldismanninum. Reynsluna tekur hún, til dæmis, með sér á svið í Tjarnarbíói og miðlar henni áfram með það að markmiði að uppræta heimilisofbeldi fyrir fullt og allt.
„Ofbeldi er gríðarlegt mein í íslensku samfélagi en ég hef fulla trú á að við getum í sameiningu gert betur. Bæði sem einstaklingar og sem samfélag.“