Tölvuárás var gerð á eina stærstu skyndikynnasíðu veraldar
Síðastliðinn sunnudag var gerð umfangsmikil tölvuárás á gagnagrunn síðunnar AdultFriendFinder. Megintilgangur síðunnar er að auðvelda fólki leitina að skyndikynnum.
Eftir árásina birtust netföngin sem og ýmsar tölfræðiupplýsingar á vefsíðunni LeakedSource. Aðstandendur síðunnar segjast vera með notendaupplýsingar og netföng 340 milljón notenda. Þar af eru 10.459 íslensk netföng skrá. Fréttablaðið greindi fyrst frá.
Samkvæmt upplýsingum Fréttblaðsins voru langflestir notendur með netföng sem enda á @visir.is, næstflest enda á @simnet.is eða 2.116, og þar á eftir kemur @internet.is, alls 656 talsins.
Á vefsíðu LeakSource kemur fram að eftir vandlega umhugsun aðstandenda síðunnar hafi þeir ákveðið að gagnagrunnurinn með tölvupóstföngum notenda síðunnar verði ekki gerður aðgengilegur almenningi. Það þýðir að ekki verður hægt að leita eftir tilteknum tölvupóstföngum eða upplýsingum um notendur á vef LeakedSource, enn sem komið er.
Á síðasta ári var upplýsingum 32 milljóna notenda stefnumótasíðunnar Ashley Madison stolið. Þar af voru 128 með íslensk netföng.