Michelle Obama hefur í forsetatíð sinni ræktað veglegan grænmetisgarð á suðurflöt Hvíta hússins og þar er meðal annars að finna brokkólí, spínat og rófur. Í nýliðinni kosningabaráttu varð Barack Obama að orði að Donald Trump væri trúandi til að eyðileggja garðinn kæmist hann í Hvíta húsið.
Trump er, ólíkt Michelle, enginn aðdáandi heilsufæðis heldur einlægur aðdáandi skyndibita. Eiginkona hans Melania segir að honum líði best heima hjá sér, í sófanum að borða hamborgara. Grænmetisgarðurinn er vel merktur en á steintöflu er áletrun þar sem segir að hann hafi orðið til árið 2009 að frumkvæði Michelle Obama. Eiginkona Trumps gæti mögulega komið í veg fyrir að grænmetisræktun legðist af við Hvíta húsið en hún gætir vel að mataræði sínu og borðar grænmeti og ávexti á hverjum degi.