fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Eyþór sveik sjálfan sig með Eurovision – „Mig langaði ekkert og langar enn ekkert að taka þátt“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 26. nóvember 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyþór Ingi Gunnlaugsson hefur ekki náð þrítugsaldri enn þá en er þó fyrir löngu orðinn stórt nafn í skemmtanabransanum. Hann á að baki fjölbreyttan feril bæði í tónlist og leiklist og hefur unnið hverja keppnina á fætur annarri, jafnvel þótt hann hafi ímugust á þeim. DV ræddi við Eyþór um ímyndunarveika krakkann á Dalvík, átján ára sjónvarpsstjörnuna, Eurovision-farann og eftirhermuna.

Átti ímyndaðan vin

Við hittum Eyþór fyrir á kaffihúsinu í núverandi heimabæ hans, Hafnarfirði. Allar hans rætur eru þó fyrir norðan. Eyþór er fæddur árið 1989 og uppalinn á Dalvík í Eyjafirði, elstur þriggja systkina. Móðir hans er leiðbeinandi í skóla og faðir hans er sjómaður sem hefur bæði siglt á togara og trillu. Eyþór var gjarnan dreginn með á sjóinn sem unglingur en hann sá það ekki fyrir sér sem framtíðarstarf.

„Sjómennskan átti ekki við mig. Ég hef alltaf verið upptekinn af leiklist og söng, strax á leikskólaaldri. Þegar ég hitti leikskólakennarana sem ég var hjá rifja þeir þetta gjarnan upp. Varla talandi var ég búinn að ákveða hvað ég vildi gera. Það hefur aldrei neitt annað komið til greina.“

Eyþór fékk góðan stuðning frá foreldrum sínum í að feta þessa braut, en móðir hans var hrifnari af að hann yrði söngvari.

„Henni fannst leikarar eitthvað svo skrýtið fólk,“ segir hann og hlær.

Hvernig krakki varst þú?

„Ég var tiltölulega rólegur og mjög utan við mig. Alveg ofboðslega ímyndunarveikur. Hafði svo mikið ímyndunarafl að sem pjakkur átti ég ósýnilegan vin sem hét Ganga. Það mátti ekki loka dyrunum á Ganga. Það þurfti að leggja á borð fyrir hann eins og aðra í fjölskyldunni. Þetta var áður en ég man eftir mér en foreldrar mínir hafa sagt mér vel frá þessu. Eina minningin sem ég á sjálfur var þegar ég fór að skæla í eitt skiptið þegar mamma neitaði að opna dyrnar og Ganga komst ekki inn.“

Þó að Eyþór hætti að sjá og tala við Ganga dvínaði ímyndunaraflið ekki.

„Ég var alltaf að setja upp leikrit, „mæma“ við tónlist og fleira í þeim dúr. Ég var með vínylplötuspilara heima. Þar rúlluðu til skiptis plötur með Ladda og Elvis Presley og ég var með sýningar fyrir gesti og gangandi. Ég var alls ekki ofvirkur en mér leiddist ekki athygli.“

Skólabókin átti ekkert sérstaklega vel við Eyþór en félagslega stóð hann vel og var vinmargur.

„Langt fram eftir lék ég mér mikið við stelpur. Þegar strákarnir fóru að hafa áhuga á fótbolta leiddist mér. Stelpurnar voru frekar til í að setjast niður með mér og skrifa bók, setja upp leikrit eða bíómyndir.“

Heldur þú að það hafi hentað þér vel að alast upp í litlu sjávarplássi?

„Já, og ég er ákaflega þakklátur fyrir að hafa alist upp í litlu þorpi. Ég tel að það hafi hentað einstaklingi eins og mér ofboðslega vel. Ég er ekki viss um að ég hefði þrifist jafn vel í allri umferðinni og hraðanum í Reykjavík. Úti á landi hefur maður meiri tíma, það er svo stutt í allt. Ég var svo frjáls.“

 

Bubbi mætti í plássið

Trúin á leiklistar- og söngferilinn dó aldrei hjá Eyþóri. Eftir grunnskólann fór hann í Verkmenntaskólann á Akureyri. Þar var hann aðeins í eitt og hálft ár en náði þar að leika Jesú Krist og vinna Söngvakeppni framhaldsskólanna. Hann segir:

„Mér gekk illa í skólanáminu og hafði engan áhuga á læra frekar á bókina. Ég vildi læra tónlist og leiklist. Eina ástæðan fyrir því að ég skráði mig í VMA var að einhver hvíslaði því að mér að það myndi hjálpa til við að komast inn í Leiklistarskólann. Ég hef alltaf verið frekar áhyggjulaus og hugsa ekkert of mikið út í hlutina. Læt bara vaða. Það hefur sína kosti og galla, æðruleysi og kæruleysi.“

Sigurinn í söngvakeppninni reyndist vera stökkpallur fyrir Eyþór því ári síðar var hann kominn í aðra keppni, Bandið hans Bubba, sem sýnd var á Stöð 2 árið 2008. Eyþór segist þó ekki hafa sótt um það sjálfur.

„Það var búið að biðja mig um að taka þátt en ég hafði engan áhuga á svona raunveruleikasjónvarpi. Þá kom Bubbi sjálfur og náði í mig heim á Dalvík.“

Hvernig var það fyrir átján ára strák?

„Ég skalf bara á hnjánum og gat ekki sagt nei við hann. Þorði það ekki. Ég gat sagt nei við alla aðra.“

Eyþór segist eiga Bubba mikið að þakka því hann vann að lokum keppnina og varð þekkt andlit á skjáum landsmanna. Hann segir að þetta hafi flýtt mjög fyrir ferlinu og gefið honum gott start. Hann fékk snemma svo mikla vinnu við tónlist að hann gat einbeitt sér algjörlega að henni.

„Ég var ekki kominn með fjölskyldu og þurfti ekki að hafa mikið milli handanna til að lifa af. Þess vegna nýtti ég tækifærið og hellti mér á fullt út í þetta.“

Eyþór ferðaðist um landið með kassagítarinn, spilaði á tónleikum, árshátíðum og böllum. Eldri tónlistarmenn buðu honum einnig að spila með sér og tóku hann undir sinn verndarvæng. Nefnir Eyþór sérstaklega Magna úr Á móti sól, Hreim úr Landi og sonum og Matta úr Pöpunum, sem einnig er frá Dalvík.

„Þetta var skemmtilegur tími og mikið fjör. Ég held að það hafi hjálpað mér mikið hvað ég er jarðbundinn. Þegar ég hugsa til baka sé ég hversu auðvelt það hefði verið að villast af leið. Átján ára strákur frá Dalvík sem allt í einu verður þekkt andlit úti á götu í Reykjavík. Það er getur verið svolítið stórt stökk fyrir sveitalubba eins og mig.“

Árið 2009 var Eyþór gripinn inn í Stuðmenn, þá aðeins tvítugur. Var hann fenginn til að leysa Egil Ólafsson af sem reyndist nokkur áskorun.

„Þetta voru stórir skór að fara í,“ segir Eyþór og brosir. „Ég ætla ekki að segja að það hafi verið auðvelt, en þetta var mikill skóli og Jakob Frímann kenndi mér mikið. Ég hafði gaman af þessu en það var samt erfitt að standa á sviði með hljómsveitinni, strákpjakkur sem var í einhverjum sjónvarpsþætti. Fólkið úti í sal vildi fá Egil.“

 

Sveik sjálfan sig

Nú hefur þú tekið þátt í þremur tónlistarkeppnum og unnið þær allar. Er mikill keppnismaður í þér?

„Nei. Það er enginn íþróttamaður í mér og enginn keppnismaður. Ég er ekkert hrifinn af keppnum og að það sé yfir höfuð verið að keppa í tónlist. Þetta er nokkuð skondið þegar litið er til baka. Kannski hefur þetta æxlast svona út af kæruleysinu í mér,“ segir Eyþór og hlær.

Sú stærsta sem hann sigraði í var vitanlega Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2013 með laginu Ég á líf eftir Pétur Örn „Jesú“ Guðmundsson og Örlyg Smára. Í kjölfarið flugu þeir út til Malmö til að taka þátt í Eurovision, komust upp úr undanriðlinum og höfnuðu í sautjánda sæti lokakeppninnar.

„Eurovision var aldrei á stefnuskránni hjá mér, jafnvel þó að ég hafi alla ævi verið mjög upptekinn af söng. Kannski datt mér þetta í hug þegar ég var sex eða sjö ára. En allt frá unglingsárum fannst mér þetta það hallærislegasta sem til var.“

Eyþór segir að Eurovision hafi í raun verið svik af hans hálfu. Bæði gagnvart sjálfum sér og Bubba Morthens.

„Bubbi tók loforð af mér um að fara aldrei í Eurovision þegar ég vann keppnina hans. Ég lofaði því og sveik það síðan. Hann reyndar gerði það á undan mér og samdi texta fyrir lag sem Jógvan söng. Ég fel mig alltaf á bak við það,“ segir Eyþór og skellihlær. „Ég sveik samt aðallega sjálfan mig því að mig langaði ekkert og langar enn ekkert að taka þátt í þessari keppni. Eftir Bandið hans Bubba fékk ég fyrirspurnir á hverju einasta ári. Fékk sendan fjöldann allan af flottum lögum sem ég hefði alveg getað hugsað mér að flytja en ég vildi ekki fara í keppnina. Horfði ekki einu sinni á hana.“

Hvað var það sem breyttist?

„Pétur er góður vinur minn og áður en ég kynntist honum var hann átrúnaðargoð mitt því ég hlustaði mikið á Dúndurfréttir. Hann bað mig um að syngja lagið sem var þá komið inn í keppnina. Ég var hikandi til að byrja með, en af því að þetta var Pétur tók ég mér tíma í að hugsa þetta. Af því að ég var svo lengi að ákveða mig var ég eiginlega orðinn of seinn að segja nei,“ segir Eyþór og skellir upp úr. „Sem er mjög lýsandi fyrir mig.“

 

Eurovision gervilegur hliðarveruleiki

Ég á líf sker sig úr íslenskum framlögum að því leyti að það var sungið á íslensku í lokakeppninni. Eina lagið síðan tungumálið varð valfrjálst árið 1997.

„Okkur fannst mikilvægt, fyrst við vorum komnir inn í þetta umhverfi, að við gerðum eitthvað sérstakt. Við fengum marga enska texta, bæði frá innlendum og erlendum textahöfundum. En af því að lagið er í raun svo einfalt fannst okkur hæfa því betur að syngja á einhverju álfatungumáli eins og íslensku.“

Heldur þú að það hafi hjálpað til eða hamlað?

„Ég held að það hafi frekar hjálpað til,“ segir Eyþór hugsi. „Það voru margir af Eurovision-nördar sem voru þakklátir fyrir að við skyldum hafa valið okkar tungumál.“

Hvert var takmarkið hjá ykkur?

„Bara að hafa gaman af þessu. Fyrir mér var þetta allt svo súrt og eins konar bóla. Í viðtölum fengum við alls konar spurningar um takmörk og árangur lagsins og þá leið mér eins og íþróttamanni. Ég reyndi því að snúa mig út úr þeim viðtölum. Ég gekk inn í þetta umhverfi og tók þátt í þessu leikriti. Þarna var rauður dregill og paparassar úti um allt að mynda mig. Svo kom ég aftur heim til Íslands og fór í Bónus eins og venjulega. Þetta var algjör hliðarveruleiki. Það getur verið að aðrir upplifi þetta á annan hátt, en mér fannst þetta allt mjög gervilegt.“

Varstu smeykur við að standa á þessu sviði?

„Nei, ég var orðinn vanur því að flytja lög fyrir fjölda fólks. Bæði í ýmsum sýningum í Hörpu og svo á Fiskideginum á Dalvík.“

Hugsaðir þú ekkert um milljónirnar sem voru að horfa í sjónvarpi?

„Nei, ég hugsaði lítið um áhorfendur úti í heimi. En þegar myndavélin var fyrir framan mig og það var verið að telja niður í útsendingu hugsaði ég til Íslands. Ég veit hvað Íslendingum þykir upp til hópa vænt um keppnina, alveg sama hvað þeir þykjast ekki gera það. Þegar íslenska lagið byrjar hækka allir í sjónvarpinu. Þá allt í einu áttaði ég mig á því að ég væri ekki að taka þetta nógu alvarlega og þá varð ég stressaður. Ég mátti ekki klúðra þessu fyrir Íslendingum, þeir verða svo sárir,“ segir Eyþór og hlær.

 

Eiginkonan skilningsrík

Eyþór hefur fengist við sýningar og tónleika af ýmsum toga í gegnum tíðina. Það sem tekur mestan tíma þessa dagana eru „einkagigg“, þar sem fyrirtæki og einstaklingar ráða hann til að koma fram. Stundum eru þetta fjögur eða fimm gigg á kvöldi. Hann hefur verið meðlimur í hljómsveitinni Todmobile og kemur einnig fram í brúðkaupum, jarðarförum, setur upp tónleika víðs vegar um land og les inn á teiknimyndir svo að dæmi séu tekin.

Er þessi bransi hark eða koma verkefnin á færibandi?

„Þetta er vissulega hark, en ég er búinn að vera mjög heppinn undanfarin ár. Í rauninni þyrfti ég ekki að semja neitt sjálfur en ég geri það til að halda mér skapandi. Þegar ég er að skemmta fólki er ég í vinnunni en inni á milli er ég að búa til eitthvað sjálfur. Að skapa er það besta við þetta starf.“

Hvað er það versta?

„Hvað þetta getur verið óáreiðanlegt. Stundum er mikil eftirspurn og stundum þarf ég að sækjast eftir verkefnum. Ég er svo lánsamur að hafa getað dottið inn í leikhúsið líka og fengið þar mánaðarlaun eins og venjulegur maður. Fjölbreytnin er lykillinn hjá mér.“

Í dag er Eyþór kvæntur þriggja barna faðir. Eðlilega fylgir skemmtanabransanum mikil fjarvera um kvöld og helgar. Hann segir að eiginkona hans, Soffía Ósk, hafi skilning á þessari fjarveru.

„Hún kynntist mér þegar ég var kominn á fullt í skemmtanabransann. Það hefur reyndar verið meira að gera en venjulega undanfarin þrjú eða fjögur ár og hún hefur sem betur fer verið skilningsrík. Það óhentugasta er að þegar flestir eru í fríi þá er ég í vinnunni. Ég missi til dæmis alveg af desember af því að ég er að spila allan tímann.“

 

Vill að öllum líki við sig

Rokkið er aldrei fjarlægt, sérstaklega ekki rokk áttunda áratugarins. Um þessar mundir syngur Eyþór með sveitinni Rock Paper Sisters, sem innblásin er frá þessum tíma.

Ertu gömul sál?

„Já. Frá því ég var unglingur hef ég alltaf verið talinn eldri en ég er. Kannski af því að ég lít þannig út eða tala á þann hátt. Að minnsta kosti hef ég eignast vini sem eru umtalsvert eldri en ég.“

Stefnir þú að því að reyna að „meikaða“?

„Ég hugsa þetta ekki þannig. Takmark mitt er frekar að reyna að semja meiri tónlist og koma fram á fleiri stöðum. Bæði undir mínu eigin nafni og til dæmis með þessari nýju hljómsveit. Vitaskuld væri gaman að halda utan og spila kannski einhvern túr þar en það er ekki takmark í sjálfu sér.“

Tekur þú gagnrýni nærri þér?

„Ég er orðinn tiltölulega þjálfaður í því að tala við fólk, til dæmis eftir böll, sem lætur ýmislegt flakka. Oft mjög drukkið fólk. Oftast næ ég að leiða svona hluti hjá mér. Ég get orðið þakklátur ef ég fæ góða gagnrýni. Líka mjög sár ef ég fæ vonda. Einn af mínum göllum er að ég vil að öllum líki vel við mig, sem er ekki hægt. Það er mitt eilífðarverkefni að reyna að láta mér standa á sama um hvað fólki finnst.“

 

Eftirhermurnar náttúrulegar

Í desember ferðast Eyþór um landið með gítarinn og kemur fram á jólatónleikum. Eru þetta nokkuð innilegir tónleikar þar sem hann segir einnig sögur og gantast við áhorfendur. Kórar úr heimabyggð taka einnig undir með honum. Eyþór er orðinn landsþekktur fyrir eftirhermur sínar, til dæmis af Ladda, Kristjáni Jóhannssyni, Jakobi Frímanni og fleirum.

„Ég hef alltaf gert þetta, alveg síðan ég var krakki. Laddi var fyrstur af því að hann var átrúnaðargoðið mitt og ég hlustaði sífellt á hann. Það var hins vegar ekki fyrr en fyrir nokkrum árum að ég byrjaði að gera þetta opinberlega. Það er mikið grínast baksviðs og þegar ég var að rifja upp sögur var mér bent á að ég næði fólkinu sem ég var að tala um vel. Það var samt ekki meðvitað, ég hef aldrei sest niður og unnið í eftirhermunum. Þær eru líka misgóðar.“

Eyþór segist í dag eiga ágætis safn sem hann getur gripið í, þar af margar persónur sem Laddi skapaði.

Hvernig taka fyrirmyndirnar þessu?

„Ég veit það ekki,“ segir Eyþór hugsi. „Ég held og vona innilega að flestir taki þessu létt. Ástæðan fyrir því að ég hermi eftir fólki er að ég hef fylgst mikið með því og lít upp til þess. Það myndi brjóta í mér hjartað að vita af einhverjum sem væri sár við mig út af eftirhermu.“

Myndir þú þá hætta með þá persónu?

„Já. Mig langar svo til að fólki líki vel við mig,“ segir Eyþór og hlær dátt.

Auk þess að túra um landið kemur Eyþór fram á stórum jólatónleikum með Jóhönnu Guðrúnu um helgina í Háskólabíói. Þeir eru af allt öðrum toga, íburðarmeiri, hátíðlegri og fjörugri.

„Þetta verður mikið stuð, gospel og læti. Þarna verður mikil pissukeppni á milli okkar um hvort nær hærri nótum.“

Miða á alla jólatónleika Eyþórs Inga er hægt að nálgast á midi.is.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Diddy do it? – Rappari, athafnamaður eða Epstein rappsenunnar?

Diddy do it? – Rappari, athafnamaður eða Epstein rappsenunnar?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Fyrir 3 dögum

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta
Fókus
Fyrir 4 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna