Árni sagði fjármálakerfið komið í hendur ríkisins og að vildarvinir stjórnaflokkanna biðu í ofvæni eftir að fá að verða hinir nýju Borgunarmenn.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, skaut föstum skotum á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, í ræðu sinni á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem er haldinn í tilefni að 100 ára afmælis stjórnmálahreyfingar jafnaðarmanna.
Orðrétt sagði Árni Páll:
„Sitjandi ríkisstjórn er verklaus og forsætisráðherra er hættur í vinnunni og tekinn við störfum sem leiðtogi minnihlutans í borgarstjórn. Rúmlega 80 þúsund manns skrifa undir áskorun um betra heilbrigðiskerfi, en svarað er með því að setja upp bráðadeild í bílageymslu.“
Árni sagði fjármálakerfið komið í hendur ríkisins og að vildarvinir stjórnaflokkanna biðu í ofvæni eftir að fá að verða hinir nýju Borgunarmenn.
„Fá að komast yfir aðstöðu sem skilar miklu meiri tekjum en gert var ráð fyrir í upphafi. Það er lífsnauðsynlegt að gera alvöru breytingar á fjármálakerfinu áður en sala hefst á eignarhlutum ríkisins,“ sagði formaðurinn svo.
Hann sagði að jafnaðarmenn þyrftu að teikna upp nýtt kerfi í þágu íslenskra heimila og fyrirtækja sem vinnur með heilbrigðum hætti og ætlar sér eðlilegan arð af þeim verðmætum sem starfsemin skapar.
„Ekki sjálftöku eða Borgunararð. Ekki arð sem er búinn til með því að taka lán, eins og í tilviki VÍS. Bara eðlilegan arð. Þetta er hægt og verður að vera forgangsatriði fyrir stjórnmálahreyfingu jafnaðarmanna,“ bætti hann svo við.