

Graeme Souness viðurkennir að hann slökkvi stundum á hljóðinu þegar ákveðnir fótboltasérfræðingar eru að tala en hrósar um leið Wayne Rooney fyrir sterka innkomu í sjónvarpsþáttagerð.
Souness starfaði sem sérfræðingur hjá Sky Sports í yfir 15 ár áður en hann hætti í lok tímabilsins 2022–23. Sá 72 ára gamli, sem á glæsilegan feril með Liverpool að baki, segir Rooney hafa tekið vel yfir í nýju hlutverki sínu.
Rooney hefur verið reglulegur gestur í Match of the Day hjá BBC á þessu tímabili, eftir að hafa skrifað undir samning upp á 800 þúsund pund á ári.
„Ég hlusta gjarnan á Wayne Rooney sem sérfræðing, hann talar skynsamlega,“ sagði Souness í viðtali hjá Sky Bet.
„Ef maður setur saman úrvalslið Manchester United í gegnum tíðina er Rooney eitt af fyrstu nöfnunum. Hann var algjör stríðsmaður.
„Ég elskaði að horfa á Rooney sem leikmann og ég hlusta á hann sem sérfræðing , hann hefur trúverðugleika.
„Sumir aðrir sérfræðingar… þar lækka ég hljóðið.“