
Þrátt fyrir að Real Madrid sitji á toppi La Liga eftir tólf umferðir eru merki um óánægju innan herbúða liðsins.
Samkvæmt spænskum fjölmiðlum eru allt að fimm leikmenn ekki sáttir við nýjan stjóra liðsins, Xabi Alonso, sem tók við stjórnartaumunum í sumar.
Real hefur unnið tíu leiki, gert eitt jafntefli og tapað aðeins einum í deildinni undir stjórn Alonso, auk þess að vera í góðri stöðu í Meistaradeildinni. En samkvæmt Mundo Deportivo ríkir lítil samstaða milli leikmanna og stjórans.
Leikmenn á borð við Vinícius Júnior, Jude Bellingham og Thibaut Courtois eru sagðir ósáttir við leikstíl Alonso. Þá eru Fede Valverde og Eduardo Camavinga einnig sagðir óánægðir þar sem þeir hafa verið látnir spila á ólíkum stöðum á vellinum án þess að ná að festa sig í sessi í byrjunarliðinu.
Talið er að óánægjan tengist einnig breyttum æfingaaðferðum Alonso, sem hefur tekið upp strangara og tæknivæddari aðgerðir en forveri hans Carlo Ancelotti. Alonso notar meðal annars dróna, myndgreiningu og ítarlega taktíska greiningu í starfi sínu.