
Lucas Paqueta vill yfirgefa West Ham United í janúarglugganum eftir martröðarbyrjun liðsins á tímabilinu, samkvæmt enskum fjölmiðlum.
Brasilíski landsliðsmaðurinn var hreinsaður af ásökunum um veðmálasvindl í sumar eftir tveggja ára rannsókn hjá enska knattspyrnusambandinu. Aston Villa reyndi að fá leikmanninn í kjölfarið, en tilboðinu var hafnað þar sem stjórn West Ham taldi of seint að selja hann.
Lundúnaliðið hefur áður verið opið fyrir sölu á Paqueta, en vill fá að minnsta kosti 60 milljónir punda fyrir hann.
Þessi 28 ára gamli miðjumaður hefur ekki náð sér á strik á þessu tímabili og aðeins skorað tvö mörk, en West Ham situr í 19. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Nýi stjóri liðsins, Nuno Espirito Santo, hefur ekki unnið leik frá því hann tók við í síðasta mánuði og stuðningsmenn eru verulega ósáttir með ástandið.
Hópur stuðningsmanna hyggst standa fyrir mótmælum eftir leik liðsins gegn Newcastle United á sunnudag.
West Ham stefnir á að styrkja liðið í janúar, en þarf að selja leikmenn til að afla fjár. Paqueta gæti því verið lykillinn að því að fjármagna ný kaup.