

Leikarinn Hallgrímur Ólafsson lenti í hrakningum í umferðinni í dag, eins og svo margir aðrir. Dagskrá hans í dag var ekki þétt skipuð en sökum umferðarinnar fór allt úr skorðum. Hann deilir þessari sönnu smásögu úr hversdeginum á Facebook.
Hallgrímur átti pantaðan tíma í dekkjaskipti í morgun, klukkan 8:30. Hann ákvað að leggja tímanlega af stað klukkan 07:41 úr Hafnarfirði. Stefnan var sett á Lyngháls í dekkjaskiptin.
„Leiðin gekk ljómandi vel, meðalhraði var u.þ.b. 7 km á klst. Þegar ég loksins kom upp á Lyngháls 2 tímum of seint í áður bókaðan tíma var mér tjáð að þeir gætu því miður ekki tekið á móti mér þar sem tíminn væri liðinn. En buðu mér tíma á fimmtudaginn í staðinn.“
Hann sneri því aftur heim í Hafnarfjörð og var þangað komið klukkan 11:30, um fjórum tímum eftir að hann hélt af stað. Þar skipti hann yfir á „litla bílinn“ sem er kominn á nagladekk og stefnan var nú sett á Þjóðleikhúsið þar sem hann átti að mæta á æfingu klukkan 12:30.
„Þegar ég kom þangað (allt of seint) var mér tjáð að æfingin félli niður sökum þess að aðrir leikarar væru fastir í umferð á víð og dreif um borgina. 13:23 hélt ég því af stað neðan úr Þjóðleikhúsi áleiðis heim í Hafnarfjörð þar sem ég var að koma inn úr dyrunum núna kl. 15:52 tveimur og hálfri klst síðar.“
Hallgrímur tekur fram að hann eigi að mæta á æfingu á Akranesi út af tónleikum sem eru á morgun. Hann hefur þó afráðið að það sé líklega betra að halda sig heima eftir ófarir dagsins.