

Bandaríski leikarinn Kelsey Grammer er orðinn faðir í áttunda sinn, sjötugur að aldri. Grammer og eiginkona hans, Kayte Walsh, eignuðust fjórða barn sitt, soninn Christopher á mánudag.
Grammer sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt sem sálfræðingurinn Frasier Crane í sjónvarpsþáttunum Cheers og Frasier varð faðir í fyrsta sinn árið 1983. Þá eignaðist hann dótturina Spencer, sem nú er 43 ára, með fyrrum eiginkonu sinni Doreen Alderman. Þau skildu og árið 1990 eignaðist Grammer soninn Greer, nú 33 ára, með kærustu sinni Barrie Buckner.
Hann var í skammvinnu hjónabandi með Leigh-Anne Csuhany, og tók síðan saman við Camille Grammer, sem hann eignaðist dótturina Mason, 23 ára, og soninn Jude, tvítugur, með.
Grammer byrjaði að halda við Walsh meðan hann var giftur Grammer. Hann og Walsh giftu sig árið 2011. Þau eiga fyrir dótturina Faith, 13 ára, og synina Gabriel, 11 ára og James, átta ára.
„Hann hefur stutt Kayte ótrúlega mikið alla meðgönguna, sem, þótt óvænt, hefur kveikt neista í hjónabandi þeirra sem þau bæði þurftu á að halda,“ sagði heimildarmaður Daily Mail í júní þegar ljóst var að von var á enn einum erfingja.
Var Grammer sagður ætla að taka virkan þátt í foreldrahlutverkinu sem hann missti af við uppeldi eldri barna sinna þegar hann stóð á hátindi ferils síns.
Grammer hefur áður rætt um að fjölskyldulíf hans hafi „þjáðst“ vegna vinnu sinnar og hann sagði við The Guardian árið 2018 að hann hefði fengið tækifæri til að „reyna þetta aftur“ með Walsh.
„Það er fegurðin við að vera eldri pabbi,“ sagði hann spenntur og kallaði reynsluna „sanna gjöf“.