Það er nóg að gera hjá Ólöfu Skaftadóttur, sem stýrir Komið gott, einu vinsælasta hlaðvarpi landsins, ásamt Kristínu Gunnarsdóttur.
„Við erum mikið að veislustýra, koma fram og fundarstýra. Fólk hefur ægilegan smekk fyrir að láta drulla yfir sig. Við erum mikið bókaðar i haust og það er aðalega það sem við erum að gera en ég reyni að halda í milda dagvinnu samhliða.“
Í viðtali við Felix Bergsson í Fram og til baka á Rás 2 fræðir Ólöf okkur frekar um Komið gott og vinnuna þar að baki. Auk þess sem hún telur upp fimm hluti í íslensku samfélagi sem mæta að hennar mati ekki nægilegri andspyrnu.
Rúmt ár er síðan Komið gott fór í loftið, það er nú á sinni þriðju seríu og kemur út einu sinni í viku. Þær stöllur hafa einnig komið fram með lifandi flutning fyrir framan áhorfendur og þá er ekkert tekið upp eða sent út af því sem fram fer. Þar segir hún að þær gangi enn lengra en í þáttunum.
„Sumum finnst við ansi grófar í okkar málflutningi og það er eflaust hægt að færa rök fyrir því, en það er grín við hliðina á því sem gerist þegar þetta er ekki tekið upp.“
Þegar kemur að því að telja upp hlutina fimm er svokallaður tölvuleikjastóll fyrstur á lista. Segir Ólöf hann birtingarmynd stærri vanda, sem er sú þróun sem hefur orðið til þess að flestar upplifanir ungmenna fari fram í gegnum skjá.
.„Mér finnst þetta eins og að kaupa áskrift að Doritos,“ segir Ólöf sem segir þetta leiða til að ungmenni upplifi ekki alvöru reynslu. „Sem er erfið eða niðurlægjandi, en samt reynsla. Öll samskipti, að vera hafnað, pínulítið niðurlægður eða strítt, þetta fer allt núna fram í gegnum síma sem er allt öðruvísi reynsla. Ég held hún sé verri. Maður lærði alls konar félagslega færni á skólalóðinni við það að vera hrint.“
Ólöf segir einnig meira púður fara í hvort sé meðlæti á kaffistofu Kennarasambandsins, en að horfa á það vandamál að mörg börn og ungmenni geta ekki lesið sér til gagns.
„Það er svo alvarlegt að börn geti ekki lesið sér til gagns og óhuggulegt að geta ekki hugsað til framtíðarinnar þannig. Ég þekki fullt af ungmennum sem að eru bara hress og læs og allt þetta, en hvað erum við að búa til? Við höfum lagt mikið á okkur til að það sé jöfnuður í þessu samfélagi en við erum bara að búa til ójöfnuð. Það er verið að búa til stétt af fólki sem getur ekki hjálpað sér sjálft.“
Hún hrósar kennurum og segir flesta þeirra vera að gera góða hluti.
„En ég held það sé mikilvægt að tala um þetta og ég held að margir kennarar séu sammála mér um að við ættum að fara aftur í ræturnar og spyrja af hverju börnin okkar geta ekki lesið. Svo getum við rætt eitthvað kruðerí á kaffistofum síðar. En mér finnst æðislegt að kennarar fái þessa snúða.“
Hún tekur einnig fyrir íþróttir sem hún segir atlögu að heilsu fólks, og nefnir þar Bakgarðshlaupið.
„Þarna er verið að baka sér snemmbúna örorku. Ég er fanatíkus, er haldin skrefafíkn og er þræll úrsins míns. Ég er alveg í áhættuhópi en maður er að horfa á þetta og þetta fólk, fyrir utan að skemma á sér liði og hné er þetta bara önnur tegund af fíkn. Ég er mikil talsmanneskja þess að gera eitthvað, frekar en að vera einhver sófakartafla en þetta er birtingarmynd djúpstæðari vanda.“
Ólöf fer jafnframt yfir hvernig enginn má skara fram úr og pressu íslenskt samfélags um að ýta öllum í sama form.
„Ég segi alltaf að ég sé prinsipplaus en ég er það ekki. Ég hef ekkert sérstaklega vinsælar skoðanir en ég reyni að setja það í grínbúning, þá fer það betur niður með kaffinu.“
Ólöf segir í lokin að nóg sé komið af vínsmökkun.
„Ef mann langar að djamma eru þetta smáskammtalækningar. Þetta er gaman í svona tíu mínútur en svo er verið að tala um berjasaft. Ég hef þurft að sitja undir þessu nokkrum sinnum, meðal annars því einn vinur minn er að flytja inn kampavín. Fólk er að gera þetta í gæsunum og mér finnst þetta það óbærilegasta sem ég er dregin í gegnum.“