fbpx
Laugardagur 11.október 2025
Fréttir

Íslandsbanki hafði betur í máli gegn konu með litríka fortíð – Flúði til Rússlands eftir meintar ofsóknir og beið afhroð í þingkosningum

Ritstjórn DV
Laugardaginn 11. október 2025 12:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hugbúnaðarfyrirtækið Talk Liberation laut í lægra haldi fyrir Íslandsbanka í Héraðsdómi Reykjaness þann 30. september síðastliðinn. Fyrirtækið hafði krafist viðurkenningar á bótaskyldu bankans eftir að hann frysti fjármuni þess. Á bak við málið er litrík kona sem er búsett í Rússlandi eftir að hafa flúið þangað frá Nýja Sjálandi vegna meintra pólitískra ofsókna.

Dularfullar milljónir

Málið má rekja til ársins 2022 þegar Íslandsbanki ákvað að loka tímabundið á viðskipti um reikning fyrirtækisins. Aðdragandinn var sá að fyrirtækið fékk millifært til sín háa greiðslu, milljón bandaríkjadala sem jafngilti á þeim tíma um 139 milljónum. Þegar reikningur fyrirtækisins var stofnaður var gerð áreiðanleikakönnun. Þar áætlaði Talk Liberation að mánaðarleg velta á reikningunum yrði á bilinu 0-5.000.000 kr.

Viðvörunarbjöllur bankans fóru því í gang þegar þessi háa greiðsla barst. Íslandsbanki óskaði eftir frekari upplýsingum um eignarhald fyrirtækisins, uppruna fjármuna, samþykktir og annað. Framkvæma þyrfti nýja áreiðanleikakönnun í samræmi við kröfur bankans og í samræmi við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Fyrirtækið sendi gögn sem þóttu ekki fullnægjandi og svöruðu ekki öllum áhyggjum bankans. Svo gerðist það að lögmaður fyrirtækisins sendi tölvupóst með gögnum sem gáfu til kynna að Talk Liberation hefði áður sent rangar og villandi upplýsingar um eignarhald. Lögmaðurinn sagðist hafa sent þetta fyrir mistök og bað bankann að eyða tölvupóstnum en skaðinn var skeður.

Eftir nokkuð þjark um gögn og hvort þau væru fullnægjandi eða ekki sagði Íslandsbanki upp öllum bankaviðskiptum. Talk Liberation reyndi þá að stofna til viðskipta við Sparisjóð strandamanna og óskaði eftir að Íslandsbanki færði fjármuni fyrirtækisins þangað. Áður en til þess kom sagði Sparisjóðurinn fyrirtækinu upp viðskiptum. Loks millifærði Íslandsbanki fjármunina aftur þangað sem þeir komu.

Talk Liberation taldi málið hafa valdið sér tjóni. Þetta hefði stöðvað eðlilegan rekstur svo mánuðum skipti og gengið langt út fyrir nauðsynlegar ráðstafanir til að berjast gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Dómari taldi þó ljóst að Íslandsbanki hafi verið að fara eftir lögum. Bankanum beri skylda til að kanna eignarhald og bakgrunn fyrirtækja við upphaf viðskiptasambands sem og að hafa viðvarandi eftirlit. Í málinu væri um að ræða millifærslu sem var mun hærri en gert var ráð fyrir við upphaf viðskiptasambandsins. Því væri tilefni til að óska eftir frekari gögnum. Gögnin sem bárust voru ekki skýr hvað varðaði uppruna peninganna og raunverulegt eignarhald. Í sumum tilvikum hafi þau beinlínis verið misvísandi. Því var Íslandsbanka heimilt að loka tímabundið fyrir viðskipti til að framkvæma áreiðanleikakönnun. Bankanum hafi svo verið gert ómögulegt að ljúka þeirri könnun vegna ófullnægjandi svara frá Talk Liberation. Loks taldi dómari ósannað að fyrirtækið hafi raunverulega orðið fyrir tjóni. Íslandsbanki var því sýknaður.

Talk Liberation er að þróa samfélagsmiðil sem kallast Panquake og var fjármagnaður með hópfjármögnun um 3.8000 styrktaraðila. Miðillinn er ekki kominn í loftið, en fyrirtækið vísar til aðgerða Íslandsbanka sem hafi tafið þróunina. Eigandi fyrirtækisins samkvæmt fyrirtækjaskrá er kona sem heitir Suzette Dawson og er betur þekkt sem Suzie.

Stuttur pólitískur ferill

Suzie hefur verið búsett í Rússlandi frá árinu 2016 þegar hún sótti þar um pólitískt hæli. Hún tók þátt í mótmælum í heimalandi sínu, Nýja Sjálandi, árið 2011 og heldur því fram að síðan þá hafi hún verið skotmark leyniþjónustunnar. Hún sé að verða fyrir viðlíka ofsóknum og uppljóstrararnir Julian Assange og Edward Snowden.

Suzie hefur starfað sem aðgerðarsinni, blaðamaður og um skammt skeið í pólitík. Árið 2017 tókst henni að slá met þegar flokkur undir hennar leiðsögn, Internetflokkurinn, fékk verstu kosningu fyrr og síðar í Nýja-Sjálandi. Flokkurinn fékk 499 atkvæði og beið algjört afhroð. Fyrrum samflokksmaður hennar hefur síðan skrifað fjölda greina þar sem hann sakar Suzie um að hafa gert úti við flokkinn, um fjárdrátt og um að hafa logið til um ofsóknir gegn sér. Dawson sé ekkert annað en loddari og fjárglæframaður.

„Ég stend í þeirri trú að fröken Dawson sé viljandi að afbaka sannleikann þegar hún talar um fortíð sína og ég held að hún sé helbert að ljúga að minnsta kosti einhverja þætti til að auka orðstír sinn.“

Fóru í hart gegn Íslandsbanka

Talk Liberation hefur farið mikinn á miðlum sínum út af málinu gegn Íslandsbanka og meðal annars stofnað vefsíðuna: badbanki.is. þar sem segir:

„Hann [Íslandsbanki] hefði komist upp með þetta ef það væri ekki fyrir okkur óþolandi krakkanna! Talk Liberation er að berjast til baka og draga slæma bankann til ábyrgðar.“

Fyrirtækið tekur fram á vefsíðunni að það njóti aðstoðar lögmannateymis sem hjálpaði WikiLeaks að fá 1,2 milljarð í skaðabætur eftir að Valitor lokaði á greiðslugátt fyrir söfnunarfé til samtakanna árið 2011.  Þarna er verið að vísa til Sveins Andra Sveinssonar sem rak bæði málin fyrir dómi.

Það er ekki bara á badbanki.is sem fjallað er um málið heldur líka á samfélagsmiðlum Suzie sjálfrar, Talk Liberation og samfélagsmiðlum Bad Banki. Fjöldi færslna birtist á meðan aðalmeðferð fór fram en blaðamaður fann þó engar færslur eða blogg þar sem fjallað er um að niðurstaða sé komin og að bankinn hafi haft betur.

Deilur við annan banka

Suzie á líka í átökum við bankakerfið í heimalandi sínu. Það var í mars á þessu ári sem henni barst tilkynning frá viðskiptabanka sínum, Kiwibank, að þeir ætluðu að slíta viðskiptasambandi við hana með vísan til aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og vísan til efnahagsþvingana gegn Rússlandi. Suzie telur það enga tilviljun að þessir tveir bankar, Íslandsbanki og Kiwibank, séu að beita sér gegn henni á svipuðum tíma. Hún segist þó óviss um hvort bankinn hafi átt upptökin, eða eins og segir í bloggi sem Suzie skrifaði vegna málsins, hvort kom á undan – eggið eða hænan.

Hún telur ljóst að verið sé að beita lagaverkinu gegn henni, líklega til að refsa henni fyrir að mótmæla eftirliti leyniþjónustunnar í Nýja-Sjálandi með almennum borgurum. Nú sé verið að beita hana refsingu án dóms og laga með því að svipta hana aðgengi að bankaþjónustu. Það sé verið að beita lögunum gegn henni í refsingar- og þöggunarskyni.

Sumum gæti þótt þetta kaldhæðnislegt í ljósi þess að áðurnefndur samflokksmaður hennar úr Internetflokknum heldur því einmitt fram að Suzie hafi reynt að misbeita lögunum til að þagga niður gagnrýni hans í hennar garð.

Suzie sjálf segir það sorglegan veruleika að þeim sem standi í fæturna gegn ríkisvaldi sé refsað með þessum hætti. Það sé hættulegt að bjóða valdhöfum birginn því annars gæti fólk endað eins og Suzie Dawson.

„Það er sorglegt en satt að ef þú ríst á fætur þá gætir þú endað eins og ég. Eða eins og Ed [Snowden]. Eða eins og Julian [Assange].“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ásakanir ganga á víxl meðal fasteignasala og byggingafélagsins – Á milli stendur ekkja sem er búin að selja ofan af sér

Ásakanir ganga á víxl meðal fasteignasala og byggingafélagsins – Á milli stendur ekkja sem er búin að selja ofan af sér
Fréttir
Í gær

Réðist á tvö börn á kjúklingastað í Reykjavík – „Lítið sem ekkert tilefni“

Réðist á tvö börn á kjúklingastað í Reykjavík – „Lítið sem ekkert tilefni“
Fréttir
Í gær

Situr í súpunni eftir að hafa keypt flugmiða í vitlausa átt

Situr í súpunni eftir að hafa keypt flugmiða í vitlausa átt
Fréttir
Í gær

Elliði skrifaði færslu um Möggu Stínu: „Fyrsta líflátshótunin kom 18 mínútum seinna“

Elliði skrifaði færslu um Möggu Stínu: „Fyrsta líflátshótunin kom 18 mínútum seinna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Austurríkismenn hóta að halda ekki Eurovision ef Ísraelum verður vikið úr keppni

Austurríkismenn hóta að halda ekki Eurovision ef Ísraelum verður vikið úr keppni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Keypti hund dýrum dómum en á að fá hann endurgreiddan – Reyndist vera „gallaður“

Keypti hund dýrum dómum en á að fá hann endurgreiddan – Reyndist vera „gallaður“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Díana nefnir dæmi um ótrúlega stöðu námsláns sem hefur verið greitt af í 12 ár

Díana nefnir dæmi um ótrúlega stöðu námsláns sem hefur verið greitt af í 12 ár
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gera grín að auglýsingu fullveldissinna um bókun 35 – „Málþing haldinn“?

Gera grín að auglýsingu fullveldissinna um bókun 35 – „Málþing haldinn“?