Á árum áður þegar DV kom út á prenti voru einkamálaauglýsingar blaðsins vinsælar. Auglýsendur mættu jafnvel með handskrifaða auglýsingu í Þverholt þar sem fjölmiðilinn var lengi til húsa, greiddu fyrir og mættu svo einhverju síðar til að sækja skrifleg svör sem borist höfðu.
Í dag má segja að Bændablaðið hafi tekið við þessu þarfaverki, að koma einstaklingum saman, sem af einhverri ástæðu, einni eða fleiri, ganga ekki út.
Í Bændablaðinu sem kom út í gær auglýsir borgarkona ekki eftir sambandi heldur vini í sveit. Segist hún vön að sofa í bílnum ef þörf er á, en hver vill ekki hýsa vin sinn?
„38 ára borgarkona óskar eftir vin í sveit. Langar í anda- og gæsaveiði, ef að það er í boði og rjúpnaveiði. Yrðir þú án efa besti vinur minn. Get boðið viskídrykkju, mokað flór eða bara almenna skemmtun í staðinn. Vön að sofa í bílnum svo engin þörf á húsakosti. Sveitavinur@gmail.com.“