Á undanförnum misserum hafa þrjótarnir beint spjótum sínum að fyrirtækjum í rafmyntaheiminum, en í umfjöllun breska ríkisútvarpsins kemur fram að þeir séu í auknum mæli farnir að beina spjótum sínum að nýju skotmarki: auðugum einstaklingum í rafmyntaheiminum.
Talið er að stjórnvöld í Pyongyang geri út tölvuhakkara sem herja á fyrirtæki og stofnanir um allan heim. Telja Sameinuðu þjóðirnar að tekjur vegna þessa jafngildi um 13 prósentum af landsframleiðslu Norður-Kóreu.
Bent er á það í frétt BBC að undanfarin ár hafi hópar eins og Lazarus Group, sem tengist stjórnvöldum í Norður-Kóreu, beint sjónum sínum að stórum fyrirtækjum í rafmyntaheiminum en þeir virðast í auknum mæli vera farnir að herja á auðuga einstaklinga í þeim hópi.
Rannsakendur hjá Elliptic, fyrirtæki sem sérhæfir sig í greiningu á netglæpum og rafmyntaviðskiptum, segja að ástæðan sé sú að slíkir einstaklingar hafi oft veikari öryggisráðstafanir en fyrirtæki. Það geri þá að auðveldum skotmörkum fyrir tölvuþrjóta sem sækjast eftir stórum upphæðum í Bitcoin, Ethereum eða öðrum stafrænum eignum.
Öryggisstofnanir á Vesturlöndum telja að hinir stolnu fjármunir séu í ríkum mæli notaðir til að fjármagna þróun kjarnavopna og eldflauga í Norður-Kóreu.
Dr. Tom Robinson, yfirmaður hjá Elliptic, segir við BBC að raunverulegt umfang þjófnaðanna kunni að vera enn meira, þar sem árásir gegn einstaklingum séu sjaldnar tilkynntar.