N’Golo Kanté gæti verið á leið aftur til Evrópu, eftir að Al Ittihad í Sádi-Arabíu gaf grænt ljós á brottför hans.
34 ára gamli miðjumaðurinn verður ekki áfram hjá félaginu næsta tímabil í Saudi Pro League, og samkvæmt frönskum miðlum hafa áhugasamir aðilar þegar haft samband.
Samkvæmt frétt L’Équipe hefur Kanté verið boðinn tveimur félögum í frönsku efstu deildinni, Monaco og Paris FC, sem gætu bætt heimsmeistaranum í hóp sinn fyrir nýtt tímabil.
Þá er annað félag í Sádí Arabíu, Al Qadsiah, einnig talið fylgjast grannt með stöðu Kanté sem er sagður spenntur fyrir því að fara aftur heim til Frakklands.
Kanté hefur spilað síðustu tvö tímabilin í Sádi-Arabíu eftir farsælan feril í Englandi, þar sem hann lék með bæði Leicester City og Chelsea.
Hann vakti heimsathygli árið 2016 þegar hann lék lykilhlutverk í óvæntum Englandsmeistaratitli Leicester, áður en hann gekk í raðir Chelsea fyrir 32 milljónir punda. Þar vann hann meðal annars enska deildina, FA-bikarinn og Meistaradeild Evrópu, auk þess að verða heimsmeistari með Frakklandi árið 2018.