Sex umferðum er lokið í Bestu deild karla og er vert að skoða hvaða leikmenn skora hæst þegar gögn eru tekin saman.
Fotmob heldur utan um tölfræði fyrir deildina og samkvæmt henni er Jónatan Ingi Jónsson, lykilmaður í liði Vals, bestur það sem af er móti og það með nokkrum yfirburðum.
Jónatan er með 8,15 í meðaleinkunn, en hann er með þrjú mörk og tvær stoðsendingar í fyrstu sex umferðunum.
Næstur er fyrirliði Breiðabliks, Höskuldur Gunnlaugsson, með 7,87. Hefur þessi frábæri leikmaður skorað þrjú mörk það sem af er móti og unnið mikilvæg stig fyrir Blika.
Markvörðurinn Guy Smit, sem hefur farið frábærlega af stað með spútnikliði Vestra, og Luke Rae í KR eru í þriðja og fjórða sæti með 7,85. Sá síðarnefndi er með þrjú mörk og þrjár stoðsendingar í hinu afar skemmtilega liði KR.
Athygli vekur að tveir aðrir leikmenn Vals, Patrick Pedersen og Birkir Heimisson, eru einnig á listanum yfir efstu tíu. Valur hefur fengið mikla gagnrýni í upphafi móts en svaraði vísu með stórsigri gegn ÍA í síðustu umferð.
Efstu tíu eftir sex umferðir
1. Jónatan Ingi Jónsson (Valur) – 8,15
2. Höskuldur Gunnlaugsson (Breiðablik) – 7,87
3. Guy Smit (Vestri) – 7,85
4. Luke Rae (KR) – 7,85
5. Sveinn Gísli Þorkelsson (Víkingur) – 7,77
6. Jóhannes Kristinn Bjarnason (KR) – 7,76
7. Patrick Pedersen (Valur) – 7,75
8. Birkir Heimisson (Valur) – 7,68
9. Bjarki Björn Gunnarsson (ÍBV) – 7,62
10. Tobias Thomsen (Breiðablik) – 7,60