Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem ríkið er dæmt til að greiða Ingólfi Val Þrastarsyni miskabætur vegna handtöku.
Ingólfur stefndi ríkinu vegna atviks sem átti sér stað árið 2019 en lögmaður Ingólfs, Gunnar Gíslason, hafði lengið leitað sátta í málinu áður en ákveðið var að stefna ríkinu.
Málsatvik eru þau að Ingólfur var á leið í vinnu sína á Keflavíkurflugvelli er lögregla stöðvaði för hans og handtók hann, vegna gruns um akstur undir áhrifum ólöglegra vímuefna. Tilefni handtökunnar var hraðakstur og greiddi Ingólfur sekt vegna hans.
Í stefnu málsins kemur fram að Ingólfi hafi ekki verið boðið að undirgangast munnvatnssýni á vettvangi en það hefði verið rétt á grundvelli þágildandi umferðarlaga. Var hann færður á lögreglustöðina í Keflavík, þar sem tekin var þvagprufa af honum. Þvagprófið skilaði neikvæðri niðurstöðu og því ljóst að Ingólfur hafði ekki ekið undir áhrifum fíkniefna. Engu að síður haldlagði lögregla bíllykla Ingólfs og keyrði hann í vinnuna. Segir í stefnunni að það hafi vakið mikla undrun og forvitni vinnufélaga hans að hann skyldi mæta til vinnu í lögreglufylgd.
Í stefnunni segir að handtakan hafi valdið Ingólfi miklum óþægindum og mikilli andlegri vanlíðan í kjölfarið. Hafi hann upplifað afskipti lögreglunnar sem niðurlægjandi og þau enda vakið mikið umtal á vinnustað hans.
Byggt var á því að samkvæmt lögum um meðferð sakamála eigi maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli rétt til bóta ef mál hans hefur verið fellt niður. Fella megi niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Ingólfur hafi hins vegar ekki með nokkrum hætti stuðlað að þessum lögregluaðgerðum.
Ingólfur byggði einnig mál sitt á því að lögregla hefði farið offari við aðferðir sínar en á það féllst dómurinn ekki. „Dómurinn fellst ekki á að lögregla hafi farið offari við framkvæmd skyldustarfa sinna enda er það meðal skyldna hennar að rannsaka ætlaða refsiverða háttsemi. Í 1. mgr. 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er vissulega vísað til vægari úrræða en handtöku. Þann búnað sem þar er vísað til var lögregla ekki með og ekki liggur fyrir að henni hafi verið það skylt, sbr. áðurnefndan dóm Landsréttar. Ekki liggur annað fyrir en að þvagsýnistakan hafi farið fram af eins mikilli tillitssemi við stefnanda og kostur var.“
Hins vegar var viðurkennt að Ingólfur ætti bótakröfu á grundvelli þess að mál hans hafi verið fellt niður. Einnig var fallist á að Ingólfur hefði ekki sjálfur stuðlað að handtöku sinni. Meginvörn ríkisins í málinu fólst í því að Ingólfur hefði ekki verið handtekinn því hann hafi sýnt samstarfsvilja og komið sjálfviljugur á lögreglustöðina til að gefa þvagsýni. Á þetta féllst dómurinn ekki og skilgreindi atvikið sem handtöku.
Niðurstaðan er sú að Ingólfi eru dæmdar 150 þúsund krónur í bætur með dráttarvöxtum frá 7. desember 2023 til greiðsludags.