fbpx
Sunnudagur 11.maí 2025
Fókus

Gítarleikari Sepultura í viðtali við DV – „Þungarokk er best, maður“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 10. maí 2025 20:00

Andreas Kisser hefur plægt rokkaakurinn í fjóra áratugi. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjórði júní næstkomandi verður stór dagur í þungarokkssögu Íslands því að þá stíga á stokk á Hlíðarenda hinir brasilísku Sepultura. Þetta verður bæði í fyrsta og síðasta skipti sem sveitin spilar á Íslandi en hún er á sínum kveðjutúr eftir 40 ára farsælan feril. DV ræddi við forsprakka og gítarleikara sveitarinnar, Andreas Kisser, á þessum tímamótum.

„Það hefur verið draumur okkar lengi að koma til íslands. Við elskum að koma á nýja staði og við höfum heimsótt svo mörg lönd í gegnum tíðina, óháð landfræði, stjórnmálum eða trúarbrögðum. Þungarokk er vinsælasta stefnan í heiminum. Þetta er fasti sem gengur niður kynslóðirnar. Við erum svo glaðir að fá tækifæri til að heimsækja Ísland í fyrsta skiptið á þessum kveðjutúr. Við getum ekki beðið eftir að koma og djamma, þetta verður frábært,“ segir Andreas sem er nú staddur á heimili sínu í Sao Paulo, stærstu borg Brasilíu og bækistöð Sepultura.

Heiður Brasilíu

Sepultura var stofnuð í borginni Belo Horizonte árið 1984 af bræðrunum Max og Igor Cavalera. Meðlimir hafa komið og farið en tveir núverandi meðlimir, Andreas og bassaleikarinn Paulo Jr. hafa leikið með bandinu síðan á níunda áratugnum. Söngvarinn Derrick Green gekk til liðs við sveitina nálægt aldamótum en trommarar hafa komið og farið.

Sepultura braut blað með því að verða fyrsta virkilega stóra og vinsæla rokksveitin frá þriðja heiminum. Ekki nóg með að það hafi vakið athygli heldur setti það skyldur á herðar sveitarinnar að halda uppi heiðri Brasilíu á þessum vettvangi og kynna menninguna. Það gerðu Sepultura einkum með því að blanda saman þjóðlegum trumbuslætti frumbyggja við óheflað þungarokkið.

Sepultura á gullaldartímanum árið 1994. Mynd/Getty

Sú ábyrgð fellur nú á hinn unga Greyson Nekrutman sem Andreas segir standa undir því og eiga fyrir sér bjarta framtíð.

„Igor Cavalera bjó til þetta tungumál, að blanda saman slætti frumbyggja við þungar trommur með tvöfaldri bassatrommu. Mjög þungt en að sama skapi mikil tónlist og mikill hrynjandi,“ segir Andreas. Síðar hafi Jean Dolabella komið með ný áhrif inn í tónlistina og Eloy Casagrande sem sé mikill hæfileikamaður sem hafi hvatt Andreas til þess að semja flóknari lög.

„Greyson er 22 ára gamall og með einstaka hæfileika. Hann hefur stórt hjarta og djúpa sál, mjög teknískur og lifandi trommari. Hann hjálpar Sepultura að komast á annað stig,“ segir hann.

Hætta á sínum forsendum

En eins og áður var greint frá er þetta svanasöngur Sepultura. Sveitin hefur ákveðið að hætta eftir rúmlega 40 ára feril. En hvers vegna? Mörg bönd spila vel fram á áttræðisaldur.

Miklar skyldur eru lagðar á herðar hins 22 ára Greyson Nekrutman. Mynd/Getty

„Af hverju ættum við að bíða eftir því að eitthvað gerist sem stoppi okkur,“ segir Andreas. „Óvild á milli okkar eða eitthvað slíkt sem eyðileggur bandið að innan. Við eigum frábært samband. Við elskum hvora aðra og virðum. Það er frábært á vera á þjóðveginum með krúinu okkar. Við njótum þess. En ég hef séð svo mörg bönd þróast þannig að meðlimirnir fara að hata hvora aðra og starfa áfram bara til þess að borga reikninga. Það er ekki listsköpun í fyllstu merkingu þess orðs. Við virðum listina svo mikið að við ákváðum að hætta núna, á okkar forsendum og á góðum stað.“

Andreas bendir á að allt endi. Endirinn sé mikilvægur partur af lífinu og geri það merkingarþrungnara og meira spennandi.

„Þetta er búið að vera frábært. Við eigum rúm 40 ár, gáfum út frábæra plötu síðast og komumst í gegnum covid. Við komumst líka í gegnum margar mannabreytingar og tæknibreytingar, svo sem í útgáfu. Hér erum við, á frábærum stað að spila út um allan heim og njóta lífsins. En það er kominn tími til að setja þetta verkefni í hvíld og leita að einhverju öðru. Að vinna að listinni á annan hátt og með öðru fólki. Ég er mjög spenntur fyrir því að takast á við næstu verkefni, að byrja á einhverju alveg nýju,“ segir hann.

Dauði eiginkonunnar breytti lífsviðhorfinu

Andreas hefur staðið á sviði og þeytt flösu undir háværri tónlist í áratugi en hann er mjög andlega þenkjandi maður. Hann stundar hugleiðslu, les mikið í sínum frítíma og spilar á klassískan gítar.

„Við þurfum að horfa inn á við og hugsa um okkur sjálfa. Það er það besta sem við getum gert fyrir heiminn. Svo lengi sem við elskum okkur sjálfa og ræktum okkur þá raðast allt hitt saman á réttan hátt. Ég hef enga eftirsjá í lífinu, aðeins lexíur. Allt sem við gerðum, gott og slæmt,“ segir hann.

Andreas hefur beitt sér í góðgerðar og líknarmálum eftir að hann missti eiginkonu sína Patriciu.

Árið 2022 missti Andreas eiginkonu sína, Patriciu, sem hann á þrjú uppkomin börn með, úr krabbameini. Hann segir að það hafi breytt hugarfari hans og viðhorfi til lífsins mikið, það er bæði missirinn og baráttan sem á undan fór.

„Ég kom af stað hreyfingu hér til þess að hvetja fólk til að tala opinskátt um dauðann. Dauðinn er tabú og enginn vill tala um hann en það er svo mikilvægt að tala um hann,“ segir Andreas.

Hefur hann beitt sér og barist fyrir lögleiðingu líknardráps og aðgengilegrar líknarmeðferðar í Brasilíu. Meðal annars með því að halda tónleikahátíð til að styrkja samtök sem veita alvarlega veiku fólki í fátækrahverfum líknandi meðferð. Til þess að það fólk fái tækifæri til að deyja með reisn.

„Eiginkona mín gekk í gegnum mjög sársaukafulla krabbameinsmeðferð í eitt og hálft ár á covid tímanum. Ég var engan veginn undirbúinn að takast á við þetta, sjúkrahúsdvölina, læknaviðtöl, tryggingar og fleira. Ég komst að því að flest sjúkrahús í Brasilíu eru ekki einu sinni með líknardeildir,“ segir Andreas. „Ég var mjög reiður að sjá eiginkonu mína í þessu ástandi en hún hafði þó þau forréttindi að vera með bestu tryggingar og á bestu spítulunum. Margt fólk í fátækrahverfunum hefur ekki þessi forréttindi. Fær hvorki tryggingar, lyf né neitt.“

Segist hann stefna að því að beita sér meira á þessu sviði eftir að Sepultura hætta.

Tónleikarnir á Hlíðarenda teknir upp

En þrátt fyrir að bandið sé að hætta þá er nú enn þá eftir nokkur spölur. Hljómsveitin stefnir að því að gefa út 4 laga stuttskífu (EP) á næstunni, þá fyrstu með Greyson á trommunum. Síðan mun koma út tónleikaplata sem tekin er upp á kveðjutúrnum, meðal annars á Íslandi.

„Við erum að taka upp alla tónleikana, þar á meðal á Íslandi. Hugmyndin er að gefa plötuna út með 40 lögum sem eru tekin upp í 40 mismunandi borgum heimsins,“ segir Andreas. Hann segir að tónleikagestir á Hlíðarenda megi búast við að sjá heildstæða tónleika sem spanni allan ferilinn.

Söngvarinn Derrick Green. Mynd/Getty

„Við eigum svo margar plötur, 40 ára saga. Við spilum lög frá öllum tímabilum í sögu Sepultura, sama hverjir voru í bandinu á þeim tíma eða hjá hvaða plötufyrirtæki við vorum hjá. Saga okkar hófst árið 1984 og við viljum leika eins heildstæða tónleika og hægt er,“ segir Andreas.

Tónleikaferðalagið byrjaði á síðasta ári í Brasilíu og Sepultura hafa leikið marga af sínum fjölsóttustu tónleikum á því. Settlistinn inniheldur mörg lög og er næstum 2 tímar.

Þungarokk er best

„Þungarokk er best, maður,“ segir Andreas aðspurður um stöðu þungarokksins í dag. „Það er betra en nokkru sinni fyrr. Það eru svo margar tónleikahátíðir í gangi út um allan heim, allar troðfullar af fólki. Hér í Sao Paulo var að klárast þriggja daga hátíð, Bangers Open Air, og það var uppselt. Þetta var frábært. Þetta er frábær tími fyrir þungarokk. Sepultura er að túra um allan heim og þetta er sennilega okkar stærsti túr. Þungarokk er fjölskylda, þungarokk hleypir öllum að, þungarokk er lýðræði og samheldni. Þetta er ótrúleg þjóð,“ segir hann að lokum og það er ekki erfitt að taka undir það.

Tónleikar Sepultura fara fram í N1 höllinni á Hlíðarenda þann 4. Júní og hefjast klukkan 20:00. Miða er hægt að nálgast á Midix.is.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Wacken Metal Battle: Flösuþeytarar etja kappi á laugardag um að fá að spila í fyrirheitna landinu

Wacken Metal Battle: Flösuþeytarar etja kappi á laugardag um að fá að spila í fyrirheitna landinu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu VÆB æfa á stóra sviðinu í Sviss

Sjáðu VÆB æfa á stóra sviðinu í Sviss
Fókus
Fyrir 4 dögum

Miður sín eftir að hún áttaði sig á því að verndarenglatattúið líkist einhverju mjög dónalegu

Miður sín eftir að hún áttaði sig á því að verndarenglatattúið líkist einhverju mjög dónalegu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Egill búinn að fá nóg af því að vera flokkaður í staðalímynd – „Ótrúlega þreyttur málflutningur“

Egill búinn að fá nóg af því að vera flokkaður í staðalímynd – „Ótrúlega þreyttur málflutningur“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sjáðu stjörnurnar á Met Gala 2025

Sjáðu stjörnurnar á Met Gala 2025
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kynlífsathöfnin sem hún hataði mest með Hugh Hefner

Kynlífsathöfnin sem hún hataði mest með Hugh Hefner