Nýjung Bónus að gefa nýbökuðum foreldrum veglega fæðingargjöf hefur mælst gríðarlega vel fyrir. Nú þegar er búið að pakka í fyrstu þúsund kassana og afhending hafin. Búið er að afhenda ríflega 500 nýfæddum börnum Barnabónus og er gert ráð fyrir að næstu 500 boxin verði afhent í vikunni.
Sjálfboðaliðar munu pakka þúsund gjöfum til viðbótar í þessari viku en sjálfboðaliðarnir gefa vinnu sína til styrktar Gleym mér ei.
Það voru Thelma Lind Jóhannsdóttur og Óskar Bjarnasson sem tóku við fyrsta Barnabónusnum, en sonur þeirra kom í heiminn þann 19. mars. Bónus óskar fjölskyldunni innilega til hamingju.
„Viðtökurnar hafa verið hreint ótrúlegar en um 3000 umsóknir hafa borist. Vegna fjölda umsókna þá afhendum við umsóknir eftir fæðingardegi barns. Við erum að klára að afhenda þeim sem eignuðust barn fyrstu þrjá mánuði ársins. Við höldum svo áfram að vinna á umsóknir sem berast og miðum afhendingar við settan fæðingardag,“ segir Pétur Sigurðsson, verkefnastjóri Barnabónus. Allt í allt gerir Bónus ráð fyrir að gefa um 5.000 Barnabónusbox á þessu ári að andvirði 150 milljóna króna, eins og segir í fréttatilkynningu frá Bónus.
Barnabónus er nýtt verkefni sem Bónus hleypti af stokkunum í apríl 2025 til að styðja við bakið á barnafjölskyldum og létta þeim lífið í þessum nýja kafla lífsins. Hugmyndin að Barnabónus kemur upprunalega frá Finnlandi en Barnaboxið þar í landi hefur verið eitt af þekktustu og áhrifaríkustu félagslegu verkefnum Finna frá því fyrir miðja 20. öld. Finnska ríkið kom Barnaboxinu á fót árið 1938 til að styðja við nýja foreldra og draga úr fátækt. „Okkar Barnabónus er hugmynd af svipuðum toga, því okkur er annt um viðskiptavini og velferð þeirra,“ segir Pétur.
Öll nýfædd börn fá Barnabónus og því er mikilvægt að foreldrar sæki um eitt box fyrir hvert nýfætt barn. „Við hvetjum foreldra til að sækja einungis um eitt box fyrir hvert barn og það myndi flýta fyrir ferlinu ef einungis foreldrar sækja um en ekki skyldmenni,“ segir Pétur.
Bónus nýtur meðal annars leiðsagnar Helgu Reynisdóttur ljósmóður við val á vörum. Í boxinu eru vörur fyrir barnið en í Barnabónus er meðal annars að finna ungbarnagalla, bleiur, blautþurrkur, tannbursta og tannkrem, dömubindi, snuð, krem, andlitskrem fyrir móðurina, lekahlífar, þvottaefni, og fleira og fleira. „Svona gjöf er stór liður í því að auka vellíðan á þessum tíma og létta á fjárhagsáhyggjum hjá nýbökuðum foreldrum,“ segir Helga.
Björgvin Víkingsson, framkvæmdastjóri Bónus, segir að mikil vinna hafi farið í verkefnið og að það hefði aldrei orðið að veruleika án öflugs stuðnings samstarfsaðila og sjálfboðaliða. „Við erum einstaklega þakklát fyrir hversu jákvætt samstarfsaðilar okkar tóku í þessa hugmynd og fyrir þann kraft og góðvild sem þeir lögðu í verkið – einnig hafa margir sjálfboðaliðar komið að vinnunni sem gefa sína vinnu til styrktar Gleym mér ei,“ segir Björgvin. Hann vonast til að hægt verði að fara í sambærilegt verkefni á næsta ári „Vonandi verður þetta upphafið að sterkri og árlegri hefð hjá Bónus,“ segir Björgvin.
Hægt er að sækja um Barnabónus hér.