Svakalegar hrókeringar hjá þjálfurum í tveimur efstu deildum karla er í kortunum en svo gæti farið sex störf séu að losna hjá félögum í Bestu deild karla eftir næstu helgi. Þá gæti eitt starfað verið að losna í Lengjudeildinni.
Mikil óvissa ríkir um framtíð Srdjan Tufegdzic þjálfara Vals en félagið er í viðræðum við Hermann Hreiðarsson en áður hafði félagið verið í viðræðum við Ólaf Inga Skúlason um að taka við. Fari svo að Hermann taki við Val mun starfið hjá HK losna.
Allar líkur eru á því að Jón Þór Hauksson hætti með Vestra en hann tók við liðinu í þrjá leiki en hefur ekki hugsað sér að taka við liðinu til framtíðar. Vestri berst fyrir lífi sínu í deildinni og er á leið í úrslitaleik við KR á laugardag.
Háværar raddir hafa verið um það að Óskar Hrafn Þorvaldsson vilji stíga til hliðar sem þjálfari KR og einbeita sér að því að vera yfirmaður knattspyrnumála. Halldór Árnason sem var rekinn frá Breiðablik á mánudag er sterklega orðaður við starfið í Vesturbænum, hann hefur einnig verið orðaður við Val.
Magnús Már Einarsson er að verða samningslaus hjá Aftureldingu, liðið berst fyrir lífi sínu og falli Afturelding úr Bestu deild gæti Magnús róað á önnur mið.
Jökull Elísabetarson er á sínu þriðja tímabili með Stjörnuna, liðið er á leið í úrslitaleik um sæti í Evrópukeppni á sunnudag gegn Breiðablik. Fari illa fyrir Stjörnunni í því einvígi gæti framtíð Jökuls orðið til umræðu.
FH er búið að ráða arftaka Heimis Guðjónssonar og mun Jóhannes Karl Guðjónsson taka við starfinu. Heimir mun að sama skapi að öllu óbreyttu taka við Fylki í Lengjudeildinni.
Njarðvík, Völsungur, Leiknir og Selfoss eru svo án þjálfara eftir tímabilið.
Laus störf:
Njarðvík
Völsungnur
Leiknir
Selfoss
Störf sem gætu losnað:
Valur
Vestri
ÍA
Afturelding
KR
Stjarnan
HK
Störf sem er verið að ráða í:
FH – Jóhannes Karl Guðjónsson tekur við
Fylkir – Heimir Guðjónsson tekur líklega við