Sean Dyche er að öllum líkindum að verða nýr stjóri Nottingham Forest samkvæmt öllum helstu miðlum.
Ange Postecoglou var rekinn strax eftir tap gegn Chelsea á laugardag og er þar með annar stjórinn sem fær að fjúka frá félaginu í upphafi tímabils, á eftir Nuno Espirito Santo. Forest situr í 18. sæti deildarinnar og er með aðeins einn sigur í átta leikjum.
Jákvæðar viðræður hafa átt sér stað milli Dyche og Forest á síðasta sólarhring og virðist hann vera að taka við. Roberto Mancini hafði einnig rætt við forsvarsmenn Forest, en hann verður ekki ráðinn. Marco Silva hjá Fulham var einnig á blaði en er ekki raunhæft að sækja hann á þessum tímapunkti.
Postecoglou var aðeins 39 daga í starfi, enginn í sögu úrvalsdeildarinnar hefur verið skemur í starfi. Nuno var rekinn eftir aðeins þrjá leiki.
Dyche er að taka við en hann hefur ekki verið í starfi frá því hann fór frá Everton í byrjun árs. Hann gerði auðvitað garðinn frægan hjá Burnley þar áður.