Fyrrum enski landsliðsmaðurinn og miðjumaður Tottenham, Paul Gascoigne, hefur snert við aðdáendum eftir að hann viðurkenndi í tilfinningaþrungnu viðtali að hann drekki enn áfengi. Viðtalið fór fram í morgunþættinum Good Morning Britain á ITV á mánudagsmorgun.
Gascoigne, sem er 58 ára, hefur árum saman glímt opinberlega við áfengisfíkn og andleg veikindi frá því hann lagði skóna á hilluna fyrir rúmum tveimur áratugum. Í nýrri ævisögu sinni, sem ber titilinn Eight, opnar hann sig um baráttuna við fíknina og þá viðleitni að halda sér edrú.
Í þættinum, þar sem hann mætti til að kynna bókina og hvetja aðra sem glíma við svipuð vandamál til að leita sér hjálpar, talaði Gascoigne hreinskilnislega um að hann eigi enn erfitt.
„Ég get verið mánuðum saman án þess að drekka, en svo kemur tveggja daga hiksti og svo afleiðingarnar,“ sagði hann.
„Þá líkar mér ekki við sjálfan mig í nokkra daga. Ég verð þunglyndur og þarf að fara á AA-fund til að hlusta og muna af hverju ég er þar. Það var ekki fyrr en ég fór fyrst á slíka fundi að ég áttaði mig á því að ég væri alkóhólisti.“
Gascoigne virtist á köflum nær því að gráta þegar hann rifjaði upp erfið tímabil úr fortíðinni. Áhorfendur lýstu yfir sorg og áhyggjum af ástandi hans og töldu hann hafa verið of viðkvæman til að mæta í beint sjónvarpsviðtal.