Manchester City hefur áhuga á að kaupa Eberichi Eze frá Crystal Palace í sumar. Football Insider segir frá þessu.
Eze hefur heillað í liði Palace sem er um miðja deild í ensku úrvalsdeildinni og er komið alla leið í úrslit bikarsins, þar sem liðið mætir einmitt City.
Eftir leik er ekki ólíklegt að City leggi fram tilboð í leikmanninn, sem er með 60 milljóna punda klásúlu í samningi sínum við Palace, en sá samningur rennur út eftir tvö ár.
Það má búast við nokkrum breytingum á leikmannahópi City í sumar eftir vonbrigðartímabil, þar sem liðið er enn í baráttu um Meistaradeildarsæti þegar tvær umferðir eru eftir.
City hafði unnið Englandsmeistaratitilinn í fjögur ár í röð áður en kom að þessari leiktíð og er styrkinga þörf fyrir næstu leiktíð.