HK vann ansi óvæntan 3-1 sigur á Víkingi í Bestu deild karla í gær. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, setti nokkur stór nöfn á bekkinn fyrir leik en sparkspekingurinn og formaður Leikmannasamtakanna, Arnar Sveinn Geirsson, segir það hafa borið vott af hroka.
HK var aðeins með 1 stig fyrir leikinn í gær og Víkingur með fullt hús á toppnum. Arnar hafði menn eins og Nikolaj Hansen, Aron Elís Þrándarson og aðalmarkvörðinn Ingvar Jónsson utan byrjunarliðs Víkings.
„Mér finnst Víkingar pínu hrokafullir, að geyma þessa menn á bekknum sem mér finnst að eigi að vera í liðinu. En allt í lagi, þú getur farið í það að rótera því þú ert með Evrópukeppni líka og þetta er langt tímabil. En þegar þú gerir þetta sendir þú ómeðvitað skilaboð inn í leikmannahópinn um að þetta verði ekki erfiður leikur. Þannig allt liðið kemur með ákveðið vanmat inn í þennan leik,“ segir Arnar Sveinn í Dr. Football.
Varamarkvörðurinn Pálmi Rafn Arinbjörnsson var í marki Víkings í gær og telur Arnar það hafa getað verið vatn á myllu HK-inga.
„Sjáiði hvað þeir halda um okkur. Það er ekki meiri virðing fyrir okkur á heimavelli en þetta. Það sem gerist er að Arnar fær þetta massíft í bakið,“ segir Arnar Sveinn enn fremur.