Sænski framherjinn Viktor Gyökeres er ansi eftirsóttur eftir stórkostlegt tímabil með portúgalska liðinu Sporting.
Kappinn gekk í raðir Sporting frá Coventry fyrir þessa leiktíð og er ekki ólíklegt að hann söðli um aftur í sumar, þá til enn stærra félags en stórlið á Englandi hafa til að mynda verið nefnt til sögunnar.
„Ég elska að vera hjá Sporting. Við sjáum hvað setur. Ég get engu lofað eins og er,“ segir Gyökeres sem er meðvitaður um umræðuna.
„Ég er mjög ánægður hjá Sporting og er á samningi en í fótboltanum gerast hlutirnir alltaf mjög hratt.“
Gyökeres er samningsbundinn Sporting til 2028 og félagið því í sterkri stöðu fyrir viðræður um kaupverð í sumar.