Ange Postecoglou stjóri Tottenham virðist gera sér fulla grein fyrir því að Harry Kane gæti farið frá félaginu í sumar.
Kane, sem verður þrítugur síðar í mánuðinum, á aðeins ár eftir af samningi sínum við Tottenham og hefur verið sterklega orðaður við brottför.
Bayern Munchen bauð á dögunum sitt annað tilboð í Kane og hljóðaði það upp á 70 milljónir punda með möguleika á aukagreiðslum. Fyrra tilboð hljóðaði upp á 60 milljónir punda og var því rakleiðis hafnað.
Daniel Levy hjá Tottenham er harður í horn að taka í samningsviðræðum og vill 100 milljónir punda fyrir Kane þrátt fyrir að hann eigi aðeins ár eftir af samningi sínum.
„Það hefur enginn tjáð mér að það sé tryggt að Kane verði áfram og ég myndi heldur ekki búast við því,“ segir Postecoglou.
„Það er ekkert öruggt í þessum málum. Harry er hluti af hópnum eins og er og hlakkar til að snúa aftur.“