Lögmanni Kathryn Mayorga, konu frá Bandaríkjunum sem sakar portúgalska knattspyrnumanninn Cristiano Ronaldo, um að hafa nauðgað sér á hótelherbergi í Las Vegas árið 2009, hefur verið gert að greiða Ronaldo tæp 335 þúsund Bandaríkjadala vegna málskostnaðar Ronaldo.
Það jafngildir rúmum 48 milljónum íslenskra króna en í fyrra var málið látið niður falla eftir að rannsókn lögreglu hafði áður verið opnuð að nýju.
Það er The Athletic sem greindi frá.
Ronaldo hefur sjálfur ávallt neitað sök í málinu og árið 2010 er samkomulag sagt hafa náðst milli hans og Mayorga.
Átta árum síðar ákvað Mayorga þó að höfða mál gegn leikmanninum eftir að Football Leaks afhjúpaði upplýsingar um samskipti lögfræðinga Ronaldo. Það varð til þess að rannsókn á málinu var opnuð á nýjan leik árið 2018.
Það var síðan í júní í fyrra sem Jennifer Dorsey, dómari við héraðsdóm í Bandaríkjunum, ákvað að láta málið niður falla. Hún var ósátt með það hvernig komist var yfir gögn er tengdust málinu.
Að þeirri niðurstöðu komst hún eftir að hafa fengið vitneskju um að Leslie Mark Stovall, lögmaður Mayorga hefði reitt sit á upplýsingarnar sem sumum hverjum hafði verið stolið og seinna meir lekið af Football Leaks.
Hafði Dorsey á orði, þegar hún ákvað að láta málið falla, að Ronaldo hefði orðið fyrir skaða vegna ákvarðana Stovall.
Í nýjasta úrskurðinum, sem var opinberaður í gær, segir hún þó hluta sakarinnar liggja hjá Ronaldo sjálfum fyrir að hafa ekki reynt að koma Stovall frá málinu áður.
,,Jafnvel á fyrstu stigum málaferlanna var ljóst…að ásakanirnar ættu rætur í illa fengnu efni,“ sagði í 42 blaðsíðna úrskurði Dorsey sem The Athletic vitnar í.
Þá hafi gjörðir Stovall orðið til þess að Mayorga missi tækifæri sitt á að reka málið fyrir dómstólum.