fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Tileinkaðu þér skipulag Marie Kondo – „Þú getur ekki tekið til ef þú hefur aldrei lært hvernig á að fara að því“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 23. janúar 2019 21:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hin japanska Marie Kondo hefur slegið rækilega í gegn með sjónvarpsþáttum sínum, Tipying Up With Marie Kondo, á Netflix. Í þáttunum kennir hún fólki að grisja líf sitt, heimili og vinnustaði af hlutum sem færa eigendum sínum enga hamingju, að skipuleggja og njóta frekar en að vera umvafinn dóti.

Þrátt fyrir að sjónvarpsþættirnir séu nýir af nálinni, þá eru fræði Kondo það ekki. Hún hefur gefið út fjórar bækur, sem selst hafa í milljónum eintaka og verið þýddar á fjölda tungumála, þar á meðal íslensku, en sú fyrsta kom út árið 2011.

Kondo er 34 ára, gift og tveggja barna móðir og býr fjölskyldan í dag í Los Angeles. Kondo hefur haft skipulag sem áhuga og ástríðu frá unga aldri og þegar hún var í skóla þá var hún inni að raða í bólahillunum meðan bekkjarfélagar hennar voru úti að leika sér.

Segist hún hafa uppgötvað það á ákveðnum tímapunkti að hún var ávallt að leita að dóti til að henda, í stað þess að leita að hlutum sem hún vildi halda og eiga. „Að bera kennsl á hluti sem færa þér gleði og hamingju, það er tiltekt.“

Bókin Taktu til í lífi þínu er enn til hjá Forlaginu fyrir áhugasama og gaf Forlagið góðfúslegt leyfi til að birta fyrsta kaflann úr bókinni.

Af hverju get ég ekki haldið húsinu mínu í röð og reglu?

Þú getur ekki tekið til ef þú hefur aldrei lært hvernig á að fara að því

Þegar ég segi fólki að atvinna mín sé að kenna öðrum að taka til lítur það venjulega furðu lostið á mig. „Geturðu raunverulega haft tekjur af því?“ er fyrsta spurningin. Því fylgir næstum alltaf: „Þarf fólk kennslu í tiltekt?“

Það er staðreynd að þótt leiðbeinendur og skólar bjóði námskeið í öllu frá eldamennsku og garðyrkju til jóga og hugleiðslu, getur verið mjög erfitt að finna námskeið um það hvernig á að taka til. Almenna hugmyndin er sú að ekki þurfi að kenna tiltekt, heldur finni fólk út úr slíku af hreinni eðlishvöt. Eldunaraðferðir og mataruppskriftir ganga gjarnan milli kynslóða, frá ömmu til móður til dóttur, en aldrei heyrist talað um að verið sé að deila fjölskylduleyndarmálum um hvernig best sé að taka til, jafnvel innan veggja heimilisins.

Hugsið til baka til bernskuáranna. Ég er viss um að flest höfum við verið skömmuð fyrir að taka ekki til í herbergjunum okkar, en hversu margir foreldrar litu á það sem þátt í uppeldinu að kenna börnum sínum markvisst að taka til? Í rannsókn á þessu sviði kom í ljós að innan við 0,5 % fólks svaraði játandi spurningunni: „Hefurðu lært formlega að taka til?“ Foreldrar okkar kröfðust þess að við tækjum til í herbergjum okkar en sjálf höfðu þau heldur aldrei lært hvernig best væri að bera sig að. Þegar kemur að tiltekt erum við öll sjálflærð.

Leiðsögn í tiltekt er vanrækt í skólakerfinu ekki síður en á heimilunum. Heimilisfræði og handmennt eru kenndar í Japan og víða um veröldina og börnum jafnvel kennt að matreiða hamborgara í matreiðslu eða nota saumavél og sauma svuntu í handmennt, en í samanburði við eldamennsku og saumaskap er engum tíma varið í námsgreinina tiltekt.

Fæði, klæði og húsaskjól eru grundvallarþarfir fólks svo að ætla mætti að það hvernig við búum væri álitið jafn mikilvægt og það hvað við borðum eða hverju við klæðumst. Samt er tiltekt, það sem gerir heimilin íbúðarhæf, fullkomlega hunsuð vegna þeirrar hugsanavillu að grunnþekking í tiltekt fáist með reynslunni og þess vegna þurfi ekki að þjálfa hana sérstaklega.

Gengur fólki sem hefur tekið til í mörg ár betur að taka til en öðrum? Svarið er nei. Tuttugu og fimm prósent nemenda minna hafa verið konur á sextugsaldri og flestar þeirra hafa rekið heimili í hátt í 30 ár, sem ætti að gera þær að algerum reynsluboltum í þessu starfi. En eru þær flinkari að taka til en konur á þrítugsaldri? Reyndin er sú að svo er ekki. Margar þeirra hafa eytt svo mörgum árum í að nota aðferðir sem duga ekki að heimilin eru yfirfull af óþarfa dóti sem þær berjast við að halda í skefjum með ómarkvissu geymsluskipulagi. Hvernig er hægt að ætlast til að þær kunni að taka til ef þær hafa aldrei lært það almennilega?

Þótt þú vitir ekki heldur hvernig best er að taka til svo árangur náist skaltu ekki missa móðinn. Nú er kominn tími til að læra það. Með því að læra og nota KonMari-aðferðina sem kynnt er í þessari bók munt þú líka sleppa úr þessum andstyggilega vítahring ruslahaugsins.

Tekið almennilega til, einu sinni

„Ég tek til þegar ég sé hversu draslaralegt er orðið í íbúðinni minni en þegar ég er búin líður ekki á löngu þar til allt draslið er komið aftur.“ Þetta er algeng umkvörtun og staðlaða svarið sem tímaritin gefa er þetta: „Ekki reyna að taka til í öllu húsinu þínu í einu. Þá gefstu bara upp. Vendu þig á að gera frekar lítið í einu.“ Ég rakst fyrst á þetta svar þegar ég var fimm ára. Þar sem ég var miðbarnið í hópi þriggja systkina naut ég mikils frelsis í uppeldinu. Móðir mín var upptekin við að hugsa um litlu systur mína sem var nýfædd á þessum tíma og bróðir minn sem var tveimur árum eldri en ég var alltaf límdur við sjónvarpið í tölvuleikjum. Afleiðingin var sú að ég var mikið út af fyrir mig.

Eftir því sem ég óx úr grasi varð það að lesa lífsstílstímarit fyrir húsmæður smám saman að mínu helsta áhugamáli. Móðir mín var áskrifandi að ESSE – lífsstílstímariti sem var fullt af greinum um innanhússhönnun, hvernig hægt væri að gera líf húsmóðurinnar auðveldara og umsögnum um ýmsar vörur. Um leið og blaðið barst greip ég það úr póstkassanum, jafnvel áður en móðir mín vissi að það var komið, reif upp umslagið og sökkti mér ofan í innihaldið. Á leiðinni heim úr skólanum fannst mér skemmtilegt að koma við í bókabúðinni og fletta í gegnum Appelsínugult, vinsælt matreiðslutímarit í Japan. Ég gat ekki lesið öll orðin en þessi blöð með myndum af ljúffengum mat, stórkostlegum ráðum til að hreinsa bletti og fitu og sparnaðarráðum voru jafn heillandi fyrir mig og tölvuleikjablöð voru fyrir bróður minn. Ég var vön að brjóta eyra á blaðsíður með sérlega áhugaverðu efni og mig dreymdi um að prófa þessi ráð.

Ég bjó líka til ýmiss konar „leiki“ sem ég gat leikið ein. Eftir að hafa lesið grein um peningasparnað bjó ég til dæmis til leik um ofursparnað sem fólst í því að þjóta um allt húsið og taka úr sambandi öll raftæki sem voru ekki í notkun, jafnvel þótt ég vissi ekkert um rafmagnsmæla. Eftir að hafa lesið aðra grein fyllti ég plastflöskur af vatni og setti þær í klósettkassann í „vatnssparnaðarkeppni fyrir einn“. Greinar um geymslutækni fengu mig til að breyta mjólkurfernum í skilrúm fyrir skrifborðsskúffurnar mínar og ég bjó til blaðagrind með því að raða tómum vídeóspólukössum upp milli tveggja húsgagna. Þegar aðrir krakkar í skólanum voru í eltingaleik eða að sippa tók ég að mér að endurraða í bókahillurnar í skólastofunni okkar eða rannsaka innihald moppuskápsins, allan tímann tautandi eitthvað um slæmt geymsluskipulag. „Ef það væri nú bara S-krókur hérna væri mun auðveldara að nota þetta.“

En það var eitt vandamál sem virtist óleysanlegt: Hversu mikið sem ég tók til leið ekki á löngu þar til allt var aftur komið á hvolf. Fljótlega fóru pennar að flæða upp úr mjólkurfernuílátunum í skrifborðsskúffunni minni. Blaðagrindin úr vídeókössunum varð fljótlega svo full af pappírum og bréfum að hún beyglaðist saman á gólfinu. Í eldamennsku og saumaskap er hægt að ná mikilli færni með því að æfa sig, en þótt tiltekt falli líka undir líka heimilisstörf tókst mér aldrei að bæta mig, hversu oft sem ég tók til – það hélst aldrei snyrtilegt nema í stuttan tíma.

Ég hughreysti sjálfa mig með: „Það er ekkert við þessu að gera. Það hlýtur alltaf að sækja í sama farið. Ef ég ræðst á allt verkið í einu hlýt ég bara að missa móðinn.“ Þetta hafði ég lesið í fjölmörgum greinum um tiltekt og ég gerði ráð fyrir að það væri rétt. Ef ég ætti tímavél núna myndi ég fara til baka og segja við sjálfa mig: „Þetta er rangt. Ef þú nálgast þetta á réttan hátt mun aldrei koma bakslag.“

Flestir tengja bakslagið við megrunarkúra en þegar fólk heyrir orðið notað í tengslum við tiltekt gengur það fullkomlega upp. Það virðist algerlega rökrétt að skyndileg minnkun á drasli geti haft sömu áhrif og skyndileg fækkun hitaeininga – skammvinn bót getur orðið en ekki haldist til frambúðar. En ekki láta blekkjast. Á því augnabliki sem þú byrjar að færa húsgögnin til og losa þig við hluti munu herbergin fara að taka breytingum. Þetta er mjög einfalt. Ef þú kemur húsinu þínu einu sinni í lag með óheyrilegri fyrirhöfn hefurðu tekið til fyrir fullt og allt. Bakslagið verður vegna þess að fólk heldur að það hafi tekið vandlega til en það hefur aðeins verið að flokka og raða hlutum í hirslur. Ef þú kemur húsinu þínu almennilega í lag geturðu alltaf haldið herbergjunum snyrtilegum, jafnvel þótt þú sé löt/latur eða draslari í eðli sínu.

https://www.instagram.com/p/Br0dHB4hC2P/

Taktu örlítið til daglega og þú verður að til eilífðarnóns

Hvað með hugmyndina um að gera svolítið á hverjum degi? Ekki láta blekkjast þótt hún hljómi sannfærandi. Ástæðan fyrir því að maður virðist aldrei vera búinn er einmitt sú að maður tekur bara smávegis til í einu.

Breytingar á lífsstíl sem fólk hefur tamið sér á löngum tíma eru oftast ótrúlega erfiðar. Ef þér hefur aldrei tekist almennilega að taka til fram að þessu mun þér reynast næstum ómögulegt að þróa þá aðferð að taka örlítið til í einu. Fólk nær ekki að breyta venjum sínum nema breyta líka hugsunarhættinum. Og það er ekki auðvelt! Þrátt fyrir allt er erfitt að hafa stjórn á hvernig maður hugsar. Samt sem áður er til ein leið til að breyta því hvernig við hugsum um tiltektina.

Viðfangsefnið tiltekt fangaði fyrst athygli mína þegar ég var 12–14 ára gömul. Ég rakst þá á bók sem hét Listin að henda eftir Nagisa Tatsumi (Takarajimasha Inc.) þar sem útskýrt er hversu mikilvægt sé að henda hlutum. Ég keypti bókina á leiðinni heim úr skólanum, uppveðruð yfir að hafa rekist á umfjöllunarefni sem ég hafði ekki séð fyrr og ég man enn fiðringinn sem ég fann fyrir þegar ég las hana í lestinni á heimleiðinni. Ég var svo niðursokkin að ég missti næstum að stöðinni minni. Þegar ég kom heim fór ég rakleitt inn í herbergið mitt með handfylli af ruslapokum og lokaði mig inni í nokkra klukkutíma. Þótt herbergið mitt væri lítið fyllti ég átta poka á þeim tíma – föt sem ég notaði aldrei, skólabækur frá fyrri skólastigum, leikföng sem ég hafði ekki leikið mér með lengi, strokleðra- og innsiglasafnið mitt. Ég sat hreyfingarlaus á gólfinu í um það bil klukkutíma á eftir og starði á pokahauginn og hugsaði: „Af hverju í veröldinni var ég að geyma allt þetta dót?“

Það sem kom mér þó mest á óvart var hvað herbergið mitt var breytt. Eftir aðeins nokkra klukkutíma sá ég hluta af gólfinu sem ég hafði aldrei séð áður. Herbergið virtist gjörbreytt og loftið þar inni var mun ferskara og bjartara en áður og jafnvel hugur minn virtist skýrari. Ég áttaði ég mig á að tiltekt gat haft miklu meiri áhrif en mig hafði órað fyrir. Steinhissa á þessum víðtæku breytingum fór ég að beina áhuganum frá eldamennsku og saumaskap, sem ég hafði fram að þessu talið mikilvægustu liðina í heimilishaldinu, að listinni að taka til.

Tiltekt hefur í för með sér sýnilegan árangur. Tiltektin lýgur aldrei. Hið stóra leyndarmál velgengninnar er þetta: ef þú tekur allt til í einu, fremur en smám saman, geturðu breytt hugarfarinu algerlega. Þetta er svo róttæk breyting að hún snertir tilfinningar manns og mun án vafa hafa áhrif á hvernig þú hugsar um lífsstílsvenjur þínar. Viðskiptavinir mínir venja sig ekki á að taka til smám saman. Allir hafa þeir verið án draslsins alveg síðan í tiltektarmaraþoninu. Þessi nálgun er lykillinn að því að koma í veg fyrir bakslagið.

Þegar fólk snýr aftur í ruslið hversu mikið sem það tekur til, þá er ekki herbergjunum eða eigum þess að kenna heldur þankaganginum. Jafnvel þó að fólk hafi verið áhugasamt í upphafi berst það við að halda áhuganum vakandi og átakið rennur út í sandinn. Rætur vandans liggja í þeirri staðreynd að fólk sér ekki árangurinn og finnur ekki fyrir áhrifunum. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að árangur byggist á því að finna fyrir áþreifanlegum áhrifum strax. Ef rétta aðferðin er notuð og maður einbeitir sér að því að útrýma draslinu algerlega á stuttum tíma, mun maður strax sjá árangur sem eflir mann í því að halda rýminu í röð og reglu upp frá því. Hver sá sem upplifir þetta ferli, sama hver það er, mun strengja þess heit að snúa aldrei aftur í draslaraganginn.

https://www.instagram.com/p/Br_E3MqgYxT/

Stefnt að fullkomnun

„Ekki stefna að fullkomnun. Byrjið hægt og hendið aðeins einum hlut á dag.“ Indæl orð til að sefa þau hjörtu sem skortir trú á hæfileika sína til að taka til eða trúa að þau hafi ekki nægan tíma til að ljúka verkinu almennilega. Ég rakst á þetta ráð þegar ég gleypti í mig hverja einustu bók um tiltekt sem nokkurn tímann hefur verið gefin út í Japan og trúði því eins og nýju neti. Uppljómun mín af krafti tiltektanna var farin að dvína og ég var að verða uppgefin vegna skorts á árangri. Þessi orð virtust skynsamleg. Það dró úr manni kjarkinn að stefna að fullkomnum frá byrjun. Þar fyrir utan er fullkomnun sögð útilokuð. Með því að henda einum hlut á dag gæti ég losnað við 365 á ári.

Sannfærð um að ég hefði fundið mjög hentuga aðferð fór ég strax að fylgja ráðum bókarinnar. Ég opnaði fataskápinn minn að morgni og velti fyrir mér hverju ég ætti að henda þann daginn. Ég sá stuttermabol sem ég var hætt að nota og setti í ruslapoka. Áður en ég fór í háttinn næsta kvöld opnaði ég skrifborðsskúffuna mína og fann stílabók sem mér fannst orðin of barnaleg fyrir mig. Ég setti hana líka í pokann. Svo sá ég minnismiðablokk í sömu skúffu og hugsaði með mér að ég þyrfti hana ekki heldur lengur en þegar ég teygði út höndina til að taka hana upp hugsaði ég að ég gæti geymt til morguns að henda henni. Og svo beið ég með það til næsta dags. En næsta dag gleymdi ég þessu alveg og henti því tveimur hlutum daginn þar á eftir …

Í sannleika sagt þá entist ég ekki í tvær vikur. Ég er ekki sú manngerð sem á auðvelt með að dútla við hlutina og taka eitt skref í einu. Fyrir fólk eins og mig, sem er vön að vinna verkefnin mín á síðustu stundu, virkaði þessi nálgun hreinlega ekki. Auk þess vó það að henda einum hlut á dag ekki upp á móti því sem ég keypti, því venjulega kaupi ég fleiri en einn hlut í einu. Að lokum gat hraðinn sem ég henti á ekki haldið í við það að ég fékk mér nýja hluti og ég sá fram á þá niðurdrepandi staðreynd að umhverfi mitt var ennþá á rúi og stúi. Og ekki leið á löngu uns ég hafði alveg gleymt áformum mínum um að fylgja þeirri reglu að henda einum hlut á dag.

Út frá eigin reynslu get ég því sagt að maður kemur aldrei húsinu sínu í samt lag ef maður tekur til með hálfum huga. Ef þú, eins og ég, ert ekki vinnusama og þrautseiga týpan, þá ráðlegg ég þér að stefna að fullkomnuninni í eitt skipti fyrir öll. Margir gætu mótmælt þegar ég nota orðið fullkomnun, og haldið því fram að þetta sé ómögulegt takmark. En ekki hafa áhyggjur. Þegar öllu er á botninn hvolft er tiltekt aðeins efnisleg athöfn. Vinnunni sem þarf að inna af hendi má skipta í tvennt: að ákveða hvort eigi að henda eða ekki og ákveða hvar eigi að setja það sem ekki er hent. Ef þú getur gert þetta tvennt geturðu svo sannarlega náð fullkomnun. Hlutirnir eru teljanlegir. Allt sem þarf að gera er að horfa á hvern þeirra, einn í einu, og ákveða hvort á að halda honum og hvar á að setja hann. Það er allt sem þarf til að ljúka þessu verki. Það er ekki erfitt að taka til, fullkomlega og algerlega, í einni lotu. Reyndar geta allir gert það. Og ef maður vill koma í veg fyrir bakslag er þetta eina leiðin.

https://www.instagram.com/p/BjESxllA-sd/

Um leið og þú byrjar endurskipuleggur þú líf þitt

Hefur þú einhvern tímann lent í því að vera að læra kvöldið fyrir próf og allt í einu staðið þig að því að vera farin að taka til á fullu? Ég játa að ég hef gert það. Reyndar var þetta frekar reglan en undantekningin hjá mér. Ég tók kannski bunka af blöðum sem vildu safnast á borðið mitt og henti þeim í tunnuna. Án þess að geta hamið mig réðst ég síðan á haug af skólabókum og verkefnum sem flæddu um gólfið og fór að raða þeim upp í bókahillu. Að síðustu opnaði ég skrifborðsskúffuna og fór að raða pennum og blýöntum. Áður en ég vissi af var klukkan orðin 2:30. Dauðsyfjuð hrökk ég svo upp um fimmleytið og fyrst þá gat ég í örvæntingarkasti grúft mig yfir skólabækurnar og komið mér að lestrinum.

Ég hélt alltaf að þessi þörf fyrir tiltekt rétt fyrir próf væri sérviska í mér en eftir að hafa hitt marga sem gera það sama hef ég komist að því að þetta er algengt fyrirbæri. Margt fólk hefur þörf fyrir að taka til hjá sér þegar það er undir álagi, eins og rétt fyrir próf. En þetta er ekki vegna þess að fólk hafi í raun svo mikla þörf fyrir að hreinsa til í herberginu sínu. Þetta gerist vegna þess að það þarf að koma reglu á eitthvað annað. Heilinn er í raun og veru upptekinn af lærdómnum en þegar hann tekur eftir rótinu í herberginu færist fókusinn yfir á „ég þarf að taka til í herberginu“. Sú staðreynd að tiltektarþörfin heldur sjaldan áfram eftir að neyðarástandið er liðið hjá sannar þessa kenningu. Þegar prófið er búið hverfur tiltektarástríðan frá kvöldinu áður og lífið fer aftur í sinn venjulega farveg. Öll hugsun um tiltekt hefur verið þurrkuð út úr huganum. Hvers vegna? Vegna þess að vandamálið sem maður stóð frammi fyrir, þ.e. þörfin fyrir að læra undir prófið, hefur verið „hreinsað burt“.

Þetta þýðir samt ekki að það að taka til í herberginu geti í raun róað hugann. Það getur kannski hjálpað til við létta lundina tímabundið en léttirinn endist ekki vegna þess að þú hefur ekki tekist á við raunverulegu ástæðuna fyrir áhyggjunum. Ef maður lætur blekkjast af tímabundnum léttinum sem maður finnur fyrir við að taka til í kringum sig, mun maður aldrei horfast í augu við þörfina fyrir að taka til í sínu sálræna rými. Þetta var svona hjá mér. Vegna þess að ég lét þörfina fyrir að taka til í herberginu trufla mig, svo ég ætlaði aldrei að koma mér að próflestrinum, var ég alltaf með hræðilegar einkunnir.

Hugsum okkur draslaralegt herbergi. Draslið kemur ekki af sjálfu sér. Þú, manneskjan sem býr í herberginu, hefur draslað það út. Það er til máltæki sem segir að óreiða í herberginu sé til marks um óreiðukenndan huga. Ég lít þannig á þetta. Þegar herbergi verður draslaralegt er ástæðan ekki bara efnisleg. Það að drasla út í kringum sig er í rauninni ósjálfráð viðbrögð sem beina athyglinni frá því sem er aðalatriðið. Ef þér líður ekki vel í hreinu herbergi þar sem er vel tekið til, reyndu þá að horfast í augu við áhyggjurnar. Það getur varpað ljósi á hvað er í rauninni að angra þig. Þegar herbergið er hreint og allt í röð og reglu kemstu ekki undan því að grannskoða þitt innra ástand. Þú sérð öll þau mál sem þú hefur verið að forðast og neyðist til að takast á við þau. Frá því augnabliki sem þú byrjar að taka til muntu neyðast til að endurskipuleggja líf þitt. Útkoman er því sú að líf þitt mun byrja að taka breytingum. Þess vegna þarf að takast hratt á við það verkefni að koma heimilinu í röð og reglu. Það gefur þér svigrúm til að takast á við þau mál sem eru í raun og veru aðkallandi. Tiltektin er aðeins verkfærið, ekki endastöðin. Hið sanna takmark ætti að vera að koma sér upp þeim lífsstíl sem þig langar helst til, loksins þegar húsið er komið í röð og reglu.

https://www.instagram.com/p/BaKWjDygX8x/

Geymslusérfræðingar eru ruslasafnarar

Hvert er fyrsta vandamálið sem þér dettur í hug þegar þú hugleiðir að taka til? Fyrir marga er svarið: geymsla. Viðskiptavinir mínir vilja oft að ég kenni þeim hvað á að setja hvar. Trúið mér, ég get alveg skilið þetta, en því miður er þetta ekki það sem málið snýst um. Í orðinu „geymsla“ er falin gildra. Blaðagreinum um það hvernig best sé að skipuleggja og varðveita eigur sínar og um sniðugar hirslur fylgja alltaf frasar sem gætu hljómað einfaldir, eins og „skipuleggið heimilið á svipstundu“ eða „gerið tiltektina fljótlega og auðvelda“. Það er í mannlegu eðli að reyna að sleppa vel frá hlutunum og margir stökkva á geymslueiningar sem gefa fyrirheit um fljótlega og auðvelda leið til að losna við allt sýnilegt rót. Ég játa. Ég var líka einu sinni hugfangin af „geymslugoðsögninni“.

Þar sem ég hef verið ákafur aðdáandi húsmæðrablaða alveg síðan í leikskóla varð ég alltaf að prófa strax allar hugmyndir sem þar voru kynntar um hvernig best væri að ganga frá hlutunum. Ég bjó til skúffur úr pappírsþurrkukössum og braut sparigrísinn minn til að geta keypt sniðugt geymsludót. Í síðustu bekkjum grunnskóla fór ég í föndurbúðir á leiðinni heim úr skólanum eða fletti í gegnum um tímarit í blaðastöndum til að skoða nýjustu vörurnar. Í framhaldsskóla hringdi ég meira að segja í framleiðanda sérlega áhugaverðra geymslueininga og reyndi að fá þann sem svaraði í símann til að segja mér söguna á bak við uppfinningu þeirra. Ég notaði þessa hluti svo samviskusamlega til að skipuleggja dótið mitt. Síðan stóð ég og dáðist að handarverki mínu, ánægð með það hversu þægileg veröldin væri orðin. Eftir þessa reynslu get ég með góðri samvisku sagt að aðferðir við skipulagningu leysa ekki vandann sem snýr að því hvernig best sé að losna við draslið. Þegar á allt er litið eru svona græjur aðeins yfirborðsleg lausn.

Þegar ég áttaði mig loks sá ég að herbergið mitt var alls ekki snyrtilegt, þrátt fyrir að það væri yfirfullt af tímaritaboxum, bókahillum, hilluskilrúmum og alls kyns skipulagseiningum af öllu mögulegu tagi. „Af hverju er herbergið mitt ennþá draslaralegt, þótt ég hafi unnið hörðum höndum að því að skipuleggja það og ganga frá dóti?“ velti ég fyrir mér. Á barmi örvæntingar skoðaði ég innihald hverrar hirslu þar til ég varð fyrir uppljómun. Ég þurfti ekki að nota mestan hluta þess dóts sem þar var að finna. Þótt ég hafi staðið í þeirri meiningu að ég væri að taka til hafði ég bara verið að eyða tíma mínum í að koma hlutunum úr augsýn, að fela undir loki það sem ég þurfti ekki að nota. Að ganga frá hlutum skapar þá blekkingu að draslvandamálið hafi verið leyst. En fyrr eða síðar fyllast allar hirslurnar, herbergið verður aftur yfirfullt af hlutum og nauðsynlegt reynist að finna nýjar og „auðveldar“ hirslur. Þannig vindur þetta allt upp á sig. Þess vegna verður tiltektin að byrja á því að henda hlutum. Við þurfum að beita okkur aga og berjast á móti því að geyma eigur okkar þar til við höfum lokið við að finna út hvað við í raun og veru þurfum og viljum geyma.

https://www.instagram.com/p/BcOTdL1AHf6/

Flokkið eftir tegund, ekki staðsetningu

Rannsóknir mínar á tiltekt hófust fyrir alvöru þegar ég var á unglingastigi í grunnskóla og fólust fyrst og fremst í síendurteknum athöfnum. Á hverjum degi hreinsaði ég einn stað í einu – herbergið mitt, herbergi bróður míns, herbergi systur minnar, baðherbergið. Dag hvern skipulagði ég hvar ég ætlaði að taka til næst og kynnti verkefni sem helst líktust auglýsingum á stórútsölum. „Fimmti hvers mánaðar er „stofudagur“!“ Í dag er „hreinsum til í búrinu“-dagurinn.“ „Á morgun mun ég takast á við baðskápana.“

Ég hélt þessari venju jafnvel eftir að ég var komin í framhaldsskóla. Þegar ég kom heim fór ég beint á þann stað sem ég ætlaði að þrífa þann daginn, án þess að skipta um föt. Ef viðfangsefnið var plastskúffustæða í baðherbergisskápnum opnaði ég skápinn og hellti öllu innihaldinu úr einni skúffunni; snyrtivörusýnishornum, sápum, tannburstum og rakvélum. Ég raðaði þessu í flokka, hólfaði skúffuna niður með skilrúmum og raðaði svo öllu ofan í hana aftur. Að lokum horfði ég full aðdáunar á snyrtilega skipulagt innihaldið áður en ég tók til við næstu skúffu. Ég gat setið á gólfinu og sorterað dótið úr skápnum tímunum saman þar til mamma mín kallaði á mig í kvöldmat.

Einn daginn þegar ég var að sortera og raða innihaldi skúffu í skápnum í forstofunni stoppaði ég full undrunar. „Þetta hlýtur að vera sama skúffa og ég tók til í gær, hugsaði ég. Svo var ekki en allir hlutirnir voru sambærilegir, snyrtivörusýnishorn, sápur, tannburstar og rakvélar. Ég flokkaði þá, setti í kassa og svo aftur í skúffuna alveg eins og ég hafði gert daginn áður. Á þessu augnabliki rann upp fyrir mér ljós. Það að taka til eftir staðsetningu eru slæm mistök. Ég verð því miður að segja að það tók mig þrjú ára að sjá þetta.

Margir verða hissa við að heyra að aðferð sem virðist mjög vænleg sé í raun algeng gildra. Rótin að vandanum er sú að margir geyma sams konar hluti á fleiri en einum stað. Þegar við tökum til á afmörkuðum stöðum áttum við okkur ekki á því að við endurtökum okkur og læsumst inni í vítahring tiltektarinnar. Til að koma í veg fyrir þetta ráðlegg ég fólki að taka til eftir flokkum. Í stað þess að ákveða að í dag ætlum við að taka til í ákveðnu herbergi, getum við sett okkur markmið eins og „föt í dag, bækur á morgun“. Ein helsta ástæðan fyrir því að svo mörgum okkar tekst ekki að taka almennilega til er sú að við eigum of mikið af hlutum. Þessi ofgnótt hefur orðið til vegna þess að við vissum í raun ekki hvað við áttum fyrir. Þegar við geymum ákveðna tegund hluta úti um allt hús og tökum til á einum stað í einu náum við aldrei að gera okkur grein fyrir umfanginu og okkur tekst þess vegna aldrei að klára. Til að komast hjá þessum vítahring er best að taka til eftir tegund, ekki staðsetningu.

https://www.instagram.com/p/BdMCG02gO_o/

Ekki breyta aðferðinni svo hún hæfi skapgerð þinni

Í bókum um tiltekt og frágang er því oft haldið fram að ástæður fyrir óreiðunni séu mismunandi og fari eftir skapgerð fólks, og við þurfum því að finna þá aðferð sem hentar manngerðinni. Við fyrst sýn virðist þetta fremur sannfærandi. „Svo það er þess vegna sem ég virðist ekki geta haldið snyrtilegu í kringum mig,“ gætum við hugsað. „Sú aðferð sem ég hef verið að nota hentar bara ekki mínum karakter.“ Við getum skoðað lista yfir hvað hæfir lötum, uppteknum, vandlátum eða óvandlátum og valið þá aðferð sem hentar.

Um tíma velti ég fyrir mér þeirri hugmynd að flokka tiltektaraðferðir eftir manngerðum. Ég las sálfræðibækur, ræddi við viðskiptavini mína um blóðflokka þeirra, skapgerð foreldra þeirra o.s.frv. og skoðaði jafnvel líka fæðingardaga þeirra. Ég eyddi rúmlega fimm árum í að greina niðurstöður mínar í leit að allsherjarreglu um hvaða aðferð hentaði best hverri manngerð. Í staðinn komst ég að því að það er alls engin ástæða til þess að breyta aðferðinni til að hún falli að skapgerð þinni. Þegar kemur að tiltekt er meirihluti fólks latur. Meirihlutinn hefur líka mikið að gera. Og hvað snertir það að vera vandlátur hafa allir ákveðnar skoðanir á sumum hlutum en ekki öðrum. Þegar ég athugaði þá manngerðarflokka sem nefndir voru komst ég að því að ég féll undir þá alla. Eftir hvaða kerfi ætti ég þá að flokka ástæður fólks fyrir því að vera ósnyrtilegt?

Ég hef þá venju að reyna að flokka alla hluti, sennilega vegna þess að ég hef varið svo miklum tíma í að velta því fyrir mér hvernig best sé að skipuleggja. Þegar ég byrjaði að starfa sem ráðgjafi vann ég mjög stíft að því að flokka viðskiptavini mína og sníða þjónustu mína að hverri manngerð. Sé litið til baka geri ég mér grein fyrir því að ég hafði aðra ástæðu fyrir þessu. Einhvern veginn ímyndaði ég mér að flókin nálgun sem fælist í mismunandi aðferðum fyrir mismunandi manngerðir hlyti að gera mig að meiri atvinnumanneskju. Eftir miklar vangaveltur komst ég samt að þeirri niðurstöðu að mun gæfulegra væri að flokka fólk eftir athöfnum sínum en almennum persónueinkennum.

Ef þessi nálgun er notuð er hægt að flokka fólk sem á erfitt með að halda öllu í röð og reglu í þrennt: manngerðin sem getur ekki hent; sú sem getur ekki gengið frá; og í þriðja lagi sú sem er sambland af þessu tvennu. Jafnframt áttaði ég mig á að níutíu prósent viðskiptavina minna féllu í þriðja flokkinn – væru „get ekki hent, get ekki gengið frá“-fólk – en þau tíu prósent sem eftir voru væru „get ekki gengið frá“-fólk. Ég hef ekki ennþá rekist á neinn sem er eingöngu „getur ekki hent“-manngerðin, sennilega vegna þess að sá sem ekki getur hent neinu mun á endanum sitja uppi með svo mikið dót að allar hirslur verða yfirfullar. Hvað varðar þau tíu prósent sem geta hent en ekki gengið frá eftir sig kemur berlega í ljós þegar við byrjum fyrir alvöru að taka til að þau gætu hent svo miklu meiru, vegna þess að frá þeim koma að minnsta kosti 30 pokar af drasli.

Það sem ég á við er að tiltekt getur aðeins hafist með því að losa sig við hluti, alveg sama hvaða manngerð fólk er. Svo framarlega sem viðskiptavinurinn áttar sig á því grundvallaratriði er engin ástæða til þess að breyta inntaki þess sem ég kenni til að það hæfi einstaklingnum. Hvernig ég kem því frá mér og hvernig viðskiptavinurinn nýtir sér aðferðina mun að sjálfsögðu alltaf fara eftir hverjum og einum, það er jafn einstaklingsbundið og hvernig húsgögnum fólk raðar í kringum sig. Árangursrík tiltekt felur aðeins í sér tvö grundvallaratriði: að henda og ákveða hvar á að setja hvað. Og það þarf að byrja á að henda. Þessi regla er óbreytanleg. Framhaldið ræðst svo af því hversu snyrtilegt þú vilt hafa í kringum þig.

https://www.instagram.com/p/BYhNxrHgvz4/

Gerðu tiltektina að sérstökum viðburði

Ég byrja námskeiðið mitt á þessum orðum: Gerðu tiltektina að sérsökum viðburði. Ekki taka til á hverjum degi. Þessu fylgir venjulega furðu lostin þögn. En ég endurtek samt sem áður: Maður ætti aðeins að taka til einu sinni. Það er að segja: vinnunni við tiltektina ætti að ljúka fyrir fullt og allt í einni lotu.

Ef ykkur finnst tiltektin vera endalaus vinna sem þarf að sinna á hverjum degi hafið þið rækilega rangt fyrir ykkur. Það er til tvenns konar tiltekt – „dagleg tiltekt“ og „tiltekt sem sérstakur viðburður“. Dagleg tiltekt, sem felst í því að nota eitthvað og ganga frá því aftur, verður alltaf hluti af lífi okkar, eins lengi og við þurfum að nota föt, bækur, skriffæri o.s.frv. En tilgangurinn með þessari bók er að kveikja með ykkur áhuga á að takast á við „tiltektina sem sérstakan atburð“ og koma húsinu ykkar í lag við fyrsta tækifæri.

Með því að ljúka þessu einstaka verkefni með góðum árangri getið þið öðlast þann lífsstíl sem þið keppið að og notið ánægjunnar af að hafa hreint og snyrtilegt í kringum ykkur eftir ykkar þörfum. Getið þið verið hreinskilin og svarið að þið séuð ánægð þegar þið eruð umlukin svo miklu dóti að þið munið ekki hvað þið eigið? Flest fólk hefur brennandi þörf fyrir að koma heimili sínu í röð og reglu. Því miður eru fæstir sem ráðast í að gera tiltektina að „sérstökum viðburði“ en nota herbergin sín frekar eins og geymslur. Áratugir geta liðið og fólk berst við að halda í horfinu með því að taka til á hverjum degi.

Trúið mér. Þar til þið hafið lokið við að koma húsinu ykkar í röð og reglu í eitt skipti fyrir öll eru tilraunir til að taka svolítið til á hverjum degi dæmdar til að mistakast. Þegar þið hins vegar hafið komið skipulagi á heimilið felst tiltektin einungis í að ganga frá hlutum á sinn stað. Það verður reyndar ómeðvitaður vani. Ég nota hugtakið „sérstakur atburður“ vegna þess að það skiptir sköpum að takast á við þetta verkefni á stuttum tíma, á meðan þið eruð enn full orku og spennings yfir því sem þið eruð að gera.

Þið hafið kannski áhyggjur af því að allt muni sækja í sama horfið aftur eftir að stóru tiltektinni er lokið. Kannski verslið þið mikið og haldið að eigur ykkar muni bara hrúgast upp aftur. Ég geri mér grein fyrir að það er erfitt að trúa því að óreyndu en þegar þessari gjörtæku tiltekt er lokið munuð þið alls ekki eiga erfitt með að ganga frá hlutunum á sína staði og ákveða hvar nýir eiga að vera. Þótt það virðist ótrúlegt þá þurfið þið aðeins að upplifa algjöra röð og reglu til að geta viðhaldið henni. Allt sem þarf að gera er að taka sér tíma, setjast niður og gaumgæfa hvern hlut sem þið eigið, ákveða hvort þið viljið halda honum eða henda og ákveða síðan hvar þið ætlið að geyma hann.

Hafið þið einhvern tímann sagt við ykkur sjálf að þið séuð ómöguleg í því að taka til? Eða „þetta er ekki tilraunarinnar virði, ég fæddist draslari“. Margt fólk gengur um með þessa neikvæðu sjálfsmynd árum saman en hún hverfur á augabragði þegar það hefur upplifað sitt eigið rými fullkomlega hreint. Þessi gjörtæku umskipti á sjálfsmyndinni, trúin á að geta gert hvað sem er bara ef ákvörðunin er tekin, umbreytir hegðan fólks og lífsstíl. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að nemendur mínir koma ekki aftur. Þegar þú hefur upplifað áhrifin af rými sem er í fullkominni röð og reglu munt þú heldur ekki snúa aftur í draslið. Já, ég meina þig.

Þetta getur virst erfitt en ég get sagt hreinskilnislega að þetta er mjög einfalt. Þegar þið takið til eruð þið að fást við hluti. Hlutum er auðvelt að henda og færa þá til. Hver sem er getur gert það. Takmarkið er í augsýn. Á því augnabliki sem allt hefur verið sett á sinn stað hafið þið náð yfir marklínuna. Ólíkt því sem gerist í vinnunni, námi eða íþróttum er engin þörf á að bera frammistöðu sína saman við frammistöðu nokkurs annars. Þú ert viðmiðið. Og það sem er enn betra, það sem flestum finnst erfiðast – að halda áfram – er algerlega ónauðsynlegt. Þú þarft bara einu sinni að taka ákvörðun um hvar allt á að vera.

Ég tek aldrei til í herberginu mínu. Hvers vegna? Vegna þess að þar er alltaf allt í röð og reglu. Eina tiltektin sem ég stend í fer fram einu sinni eða tvisvar á ári og þá í um það bil klukkutíma í hvert skipti. Allir þeir dagar sem ég hef eytt í að taka til án þess að sjá varanlegan árangur virðast nú órafjarri. Gagnstætt því sem þá var er ég nú hamingjusöm og ánægð. Ég hef tíma til að upplifa gleði í þöglu rýminu, þar sem loftið er ferskt og hreint; tíma til að sitja og sötra jurtate á meðan ég fer yfir atburði dagsins. Þegar ég lít í kringum mig sé ég málverkið sem er mér einstaklega kært og ég keypti í útlöndum og vasa með afskornum blómum í einu horninu. Þótt rýmið mitt sé ekki stórt er þar aðeins að finna hluti sem eru mér hjartfólgnir. Lífsstíll minn veitir mér gleði.

Mynduð þið ekki líka vilja lifa lífinu svona?

Það er auðvelt, þegar þið hafið lært fyrir alvöru að koma heimilinu í röð og reglu.

https://www.instagram.com/p/Bdo5mPEAKRI/

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Pressan
Fyrir 2 dögum

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða
Fókus
Fyrir 3 dögum

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín
Fókus
Fyrir 5 dögum

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla