fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Lögmaður skrifar fyrsta íslenska vestrann

Auður Ösp
Laugardaginn 15. desember 2018 17:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kári Valtýsson er höfundur bókarinnar Hefnd sem kom út á dögunum en hér er á ferð fyrsti íslenski vestrinn. Dagsdaglega starfar Kári sem lögmaður hjá Fulltingi en hann segir lögmannstörfin og bókaskrifin fara ágætlega saman.

Hefnd fjallar um Gunnar Kjartanson, ungan lögregluþjón í Reykjavík árið 1866 sem kemst í hann krappann og þarf að flytja af landi brott. Hann endar í erfiðisvinnu við lagningu brautarteina í Bandaríkjunum og kemst þar í kynni við harða menn sem kenna honum réttu handtökin þegar kemur að vopnaskaki.  Fyrr en varir er hann orðinn byssubrandur á sléttunum. Gunnar lendir í útistöðum við herskáa indíána af Cheyenne þjóðflokknum sem hundelta Gunnar og félaga hans um hrjóstrugt landslagið. Svo fer að endingu að ástæðurnar fyrir brottflutningnum frá Íslandi elta Gunnar uppi, og allsherjaruppgjör fer fram.

 „Ég byrjaði að skrifa þegar ég var 21 – 22 ára þegar ég var að vinna á næturvöktum á sambýli á Akureyri. Það var afar rólegt á þessum vöktum svo ég byrjaði að fikta við að skrifa sögur. Þarna kviknaði áhuginn fyrir þessu og ég hef skrifað allar götur síðan. Í dag reyni ég að skrifa á kvöldin þegar ró er komin yfir heimilið. Á tvö börn, 6 og 8 ára og því lítið ráðrými til skrifta nema á kvöldin þegar þau sofa,“ segir Kári og bætir við að handritin hafi fengið safnast upp gegnum árin.

„Ég hef skrifað fullt af sögum sem enduðu allar í skúffunni – reyndi ekki einu sinni að fá þær fyrstu útgefnar. Með tíð og tíma batnaði þetta allt hjá mér og fór að taka á sig útgáfuvænni mynd.“

Þrjú ár í mótun

Þetta er fyrsti íslenski vestrinn – Hvernig kom það til þú skrifaðir vestra?

 Hugmyndin kviknaði í raun út frá áhuga á sagnfræði. Ég hef alltaf haft áhuga á brottflutningi Íslendinga til Vesturheims og hvað það var sem olli þessum brottflutningum. Hvað var svona slæmt hérna á Íslandi? Hvers vegna flutti svo stór hluti þjóðarinnar til Kanada og Bandaríkjanna? Þegar ég var að grúska í heimildum um þetta kom árið 1866 alltaf upp reglulega.

Ég fór þá að skoða þetta allt nánar og um leið hvað var í gangi í Bandaríkjunum á sama tíma. Þar var verið að tjasla saman þjóðinni eftir Borgarastríðið og miklar framkvæmdir hafnar við lagningu brautarteina sem tengja áttu vesturströndina við þá austari. Mitt í þessu grúski fór þá að gerjast hugmyndin um að koma Íslendingi í þessar aðstæður og gera það með sagnfræðilega réttum hætti. Láta hann fara raunhæfa leið að því að komast á slétturnar og verða þar útlagi.

Meðan ég var að vinna heimildavinnuna mótaðist sagan mjög mikið. Það tók þrjú ár að gera þessa bók, heimildarvinnan tók ein og sér eitt ár og svo hef ég verið að skrifa bókina og vinna í henni síðastliðin tvö ár. Á þessu tímabili frá 2015-2018 lærði ég auðvitað mjög mikið um bæði Ísland og Bandaríkin á árunum 1866-1871 sem er innri tími sögunnar. Það kom skemmtilega á óvart hversu vel sagan sem slík hélst í hendur við sögulegar staðreyndir og atburði og hversu vel gekk að tvinna þetta tvennt saman, það er að segja skáldskap og raunveruleika.

 Aðspurður segist Kári alltaf hafa haft gaman af vestrum, hvort heldur sem það voru bókmenntir eða kvikmyndir.

„Þegar ég var krakki áttum við Lukku-Láka myndabækur, maður var stundum kúreki á Öskudaginn og horfði á vestra þegar maður komst í slíkar bíómyndir. Hugsa að áhuginn hafi alltaf verið til staðar. Ég er hrifinn af The Bounty Hunters og 3:10 to Yuma eftir Elmore Leonard. Svo er Blood Meridian eftir Cormac McCarthy líka frábær. Hvað bíómyndir varðar þá hefur mér alltaf þótt The Unforgiven og The Good the Bad and the Ugly frábærar og Clint Eastwood eitursvalur í þeim báðum.

Svo er líka skemmtilegt að sjá hversu mikið skrið er þessa dagana á vestrum og ógrynni af góðu efni dælist út um þessar mundir. Í þessu samhengi má til dæmis nefna The Ballad of Buster Scruggseftir Coen-bræðurna, síðustu tvær kvikmyndir Quentin Tarantino voru líka vestrar og nú er sögusvið eins stærsta tölvuleiks allra tíma, Red Dead Redeption II,  villta vestrið. Það er því af nógu að taka þegar kemur að góðum sögum og persónum hvað snertir vestra.“

Lögmennskan einkennist af grúski

Sem fyrr segir er Kári lögmaður að mennt en hann segir lagakunnáttuna hafa komið sér vel við gerð bókarinnar.

Lögmennskan einkennist af miklu grúski. Maður er alltaf að reyna finna anga á málunum sem hjálpa umbjóðendum að ná fram þeirri niðurstöðu sem þeir sækjast eftir. Að því leitinu eru bókaskrif og lögmennska ekki ólík.

Þegar maður gerir sögulega skáldsögu líkt og bókin Hefnd er, þá þarf auðvitað að vinna mikla heimildarvinnu og grúska. Þar kunni ég vel við mig og fann að reynslan úr lögmennskunni – eða réttara sagt vinnubrögð lögmennskunnar, auðvelduðu þetta ferli við skrifin. Svo er það náttúrulega allt annar handleggur að skrifa lagatexta en skáldskap. Það tvennt er mjög ólíkt í eðli sínu enda lagatextinn bundinn við staðreyndir en skáldskapurinn algjörlega laus við slíka hlekki.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki