
Vélin, sem var af gerðinni MD-11, var á leið í loftið frá Muhammad Ali-alþjóðaflugvellinum í Louisville og á leið til Honolulu á Hawai þegar slysið varð.
Daily Mail birti myndband af slysinu á vef sínum og má sjá eldhaf úr vinstri væng vélarinnar þegar vélin er á fleygiferð eftir flugbrautinni. Upptaka úr bílamyndavél sýnir svo þegar vélin skellur til jarðar og skilur eftir sig logandi brak.
Brak úr vélinni dreifðist yfir stórt svæði og lenti það meðal annars á tveimur fyrirtækjum í nágrenninu, Kentucky Petroleum Recycling og Grade A Autoparts. Alls eru sjö látnir og er talið að hluti þeirra séu starfsmenn fyrrnefndra fyrirtækja. Þrír voru í áhöfn vélarinnar.
Um 38 þúsund lítrar af eldsneyti voru um borð þar sem langt flug til Hawai var fram undan.
Ríkisstjóri Kentucky, Andy Beshear, sagði í gærkvöldi að tveir væru enn í lífshættu og búast mætti við því að tala látinna og slasaðra ætti eftir að hækka.