
„Ég hélt ég hefði dáið. Ég hélt ég væri annað hvort á leið til himna eða komin þangað.“
Svona lýsir Abby Zwerner, kennari við Richneck Elementary-barnaskólann í Virginíuríki því sem fór í gegnum huga hennar þegar sex ára gamall nemandi hennar gekk upp að henni og skaut hana tveimur skotum með skammbyssu.
Abby bar vitni í málinu í vikunni en atvikið átti sér stað þann 6. janúar 2023. Hún hefur höfðað mál gegn skólayfirvöldum á svæðinu og heldur því fram að skólanum hefði mátt vera ljóst að hætta stafaði af umræddum nemanda og vitað væri að hann hefði komið með byssu í skólann þennan dag.
Zwerner var skotin í brjóstið og handlegginn þar sem hún sat við skrifborðið í skólastofu sinni þennan örlagaríka vetrardag. Nemandinn sem skaut hana var í fyrsta bekk og var Abby flutt alvarlega slösuð á sjúkrahús þar sem hún dvaldi í tæpar tvær vikur.
Á þeim tíma gekkst hún undir sex aðgerðir og þó brátt verði liðin þrjú ár frá árásinni hefur hún ekki enn náð fullri hreyfigetu í vinstri hönd. Mjög litlu mátti muna að kúlan hæfði hana í hjartað en í frétt AP kemur fram að kúlan sé enn inni í henni þar sem læknar telja of hættusamt að fjarlægja hana.
Málið vakti mikið umtal á sínum tíma og veltu margir fyrir sér hvernig sex ára barni dytti í hug að koma með byssu í skólann og skjóta kennarann sinn.
Í málinu er aðstoðarskólastjóranum stefnt en hann mun hafa fengið nokkrar ábendingar þess efnis, í aðdraganda árásarinnar, að nemandinn væri með byssu í skólatöskunni sinni. Aðstoðarskólastjórinn hefur einnig verið ákærður í málinu og gæti hann átt þungan fangelsisdóm yfir höfði sér.
Í frétt AP kemur fram að móðir hins sex ára drengs hafi verið dæmd í fjögurra ára fangelsi vegna málsins. Lýsti nemandinn því eftir árásina að hann hefði náð í byssuna úr skúffu á heimili móður sinnar.