
Fáir höfðu veðjað á það að þingkonan Marjorie Taylor Greene myndi snúast gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta og ríkisstjórn hans. Fyrir ári síðan var hún ein háværasta stuðningskona forsetans og tók því meðal annars mjög illa þegar samflokksþingmenn hennar úr repúblikanaflokknum voru að íhuga að fara gegn vilja forsetans og neita að skipa Matt Gaetz sem næsta dómsmálaráðherra. Gaf Greene til kynna að ákvarðanir forseta væru hafnar yfir gagnrýni og að þingmönnum hans bæri skylda til að kyssa vöndinn. Gaetz var umdeildur og fór á endanum svo að hann varð ekki skipaður í embætti.
Undanfarna mánuði hefur Greene sjálf hætt að kyssa vöndinn og hefur verið svo gagnrýnin á ríkisstjórnina að sumir eru farnir að velta því fyrir sér hvort þingmaðurinn sé farinn að halla sér til vinstri.
Greene hefur ákveðið að mæta í spjallþáttinn The View en það þykja stórtíðindi því þingkonan hefur í gegnum tíðina ekki falið það hversu mikið hún hatar þáttastjórnendur, enda hefur The View verið mjög gagnrýnir í garð þingmannsins. Þetta breyttist þó fyrir nokkru þar sem þáttastjórnendur viðurkenndu að Greene hefði komið þeim á óvart.
„Það er myrkur dagur þegar Marjorie Taylor Greene er orðin rödd skynseminnar,“ sagði þáttastjórnandinn Farah Griffin fyrr í þessum mánuði en Greene hafði þá birt eldræður á samfélagsmiðlum þar sem hún gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að daðra of mikið við Ísrael og fyrir að birta ekki Epstein-skjölin umdeildu. Nú nýlega hefur Greene tekist á við leiðtoga flokks síns á þingi og krafist þess að komið verði í veg fyrir hækkanir á sjúkratryggingagjaldi milljóna Bandaríkjamanna, sem er einmitt það sem demókratar hafa sett sem skilyrði fyrir samþykkt fjárlaga.
Spjallþáttakóngurinn Jimmy Kimmel sagði í þætti sínum í gær að hann eigi bágt með að trúa því að hann sé sammála Greene. Mögulega hafi þingmaðurinn fært sig svo langt til hægri að hún hafi farið hringinn og endað til vinstri.
Fyrir vikið hefur Greene unnið sér inn virðingu margra vinstrimanna sem viðurkenna að þeir séu vissulega ekki sammála þingmanninum um margt en það sé merki um styrk að standa með eigin sannfæringu frekar en að sýna blinda flokkshollustu.
Samflokksmenn Greene virðast ekki alveg vita hvar þeir hafa þingmanninn. Öldungardeildarþingmaðurinn Ted Cruz hefur beðið almenning að virða hana að vettugi. Hún sé orðin mjög „frjálslynd“ sem í Bandaríkjunum er notað um vinstrimenn. Hann telur að þennan viðsnúning megi rekja til afstöðu Greene til Ísrael.
„Mér finnst það nokkuð stöðug þróun að þegar kjörinn fulltrúi ákveður að snúa baki við Ísrael, og að hann hati Ísrael, þá geti maður fljótt séð að allt annað sem kemur frá þeim verður mjög frjálslynt.“