
Þegar um 98 prósent atkvæða hafa verið talin í þingkosningum Hollands liggur fyrir að sigurvegari kosninganna er miðjuflokkurinn D66 sem þrefaldar fylgi sitt milli kosninga. Eins og staðan er nú fær hann í sinn hlut 26 þingsæti. Frelsisflokkurinn (PVV) fær einnig 26 sæti en hafði áður 37 og hefur því tapað töluverðu þingi. Þetta þykir vísbending um að vinsældir öfgahægrisins séu að dala í Hollandi.
Niðurstaðan bendir einnig til þess að næsta ríkisstjórn verði leidd af leiðtoga D66, hinum 38 ára gamla Rob Jetten sem yrði þá bæði yngsti forsætisráðherrann í sögu Hollands sem og sá fyrsti til að vera samkynhneigður og kominn út úr skápnum.
Gleðin var við völd á kosningavöku D66 þar sem Jetten sagði Hollendinga hafa sent heiminum skilaboð.
„Við höfum sýnt, ekki bara í Hollandi heldur heiminum öllum, að það er hægt að sigra popúlista og öfgahægrihreyfingar. Milljónir Hollendinga sneru í dag við blaðinu og sneru baki við stjórnmálum neikvæðni, haturs og endalausa stefinu: Nei, við getum ekki.“
Sérfræðingar hafa nefnt kosningarnar í Hollandi sem ákveðinn prófstein um stöðu öfgahægrihreyfinga í Evrópu og að þessi niðurstaða gefi til kynna að vinsældir þeirra hafi þegar náð hámarki.
Rétt er að geta þess að enn eru nokkur þúsund atkvæði ótalin. Það er naumt á munum milli D66 og Frelsisflokksins og gætu þingsæti skolast lítillega til á milli þeirra. Eins gæti farið svo að Frelsisflokkurinn verði enn stærstur á þingi, þó að litlu muni á honum og D66. Hins vegar hafa flestir stærstu flokkar Hollands lýst því yfir að þeir muni ekki vinna með Frelsisflokknum og leiðtoga hans, Geert Wilders.
Þetta voru þriðju þingkosningarnar í Hollandi á aðeins fjórum árum. Seinasta ríkisstjórn var leidd af Frelsisflokknum sem ákvað í júní að slíta stjórnarsamstarfi í kjölfar deilna um innflytjendamál. Það var þó ekki Wilders sem var forsætisráðherra, en samstarfsflokkarnir neituðu að samþykkja hann í embættið. Þess í stað var fyrrverandi forstjóri hollensku leyniþjónustunnar, Dick Schoof, fenginn til að leiða ríkisstjórnina.