Morðinginn Brian Kohberger vill ekki greiða fjölskyldum fórnarlamba sinna meira í miskabætur. Hann telur að fjölskyldurnar hafi nú þegar fengið sitt í gegnum GoFundMe-safnanir. Frá þessu greinir fréttastofa Fox.
Afbrotafræðingurinn Brian Kohberger afplánar nú fjórfaldan lífstíðardóm fyrir morð fjögurra háskólanema, þeirra Ethan Chapin, Kaylee Goncalves, Xana Kernodle og Madison Mogen. Morðin áttu sér stað aðfaranótt 13. nóvember árið 2022. Kohberger þekkti ekki fórnarlömbin en hafði þó undirbúið morðin vel og framið þau af yfirlögðu ráði. Hann játaði sök í málinu til að losna undan dauðarefsingunni, en hann hefur þó neitað að útskýra hvers vegna hann framdi ódæðið.
Lögmenn hans hafa nú óskað eftir því að dómari leysi Kohberger undan bótakröfu fjölskyldna þeirra látnu með vísan til þess að þau hafi þegar fengið allt sem þeim ber í gegnum GoFundMe-safnanir.
Kohberger gerði dómsátt í málinu þar sem hann samþykkti að greiða um 2,5 milljónir til hverrar fjölskyldu. Tvær fjölskyldnanna hafa farið fram á að hann greiði þeim einnig kostnað sem féll til vegna dómsmeðferðar málsins, svo sem ferðakostnað og annað. Lögmenn hans segja þetta ósanngjarna kröfu þar sem morðinginn hafi þegar samþykkt áðurnefndar miskabótakröfur og eins hafi GoFundMe-söfnunarfé verið ætlað að bæta fjölskyldunum kostnað vegna málsins. Lögmennirnir benda einnig á að Kohberger sé enginn borgunarmaður fyrir frekari bótum enda sé hann í fjórföldu lífstíðarfangelsi og hafi ekki mikla möguleika á að afla sér tekna.