
Ekkert hefur spurst til hans í þrjár vikur, eða frá því hann hvarf af afskekktri jörð afa síns og ömmu um 40 kílómetrum suður af bænum Yunta í suðurhluta Ástralíu þann 27. september síðastliðinn.
Umfangsmikil leit hefur staðið yfir síðustu vikur með hundruðum sjálfboðaliða, leitarhundum, drónum, fjórhjólum, köfurum og hitamyndavélum. Einu ummerkin sem fundust í leitinni var eitt fótspor um 500 metrum frá heimili fjölskyldunnar. Talið er að Gus hafi ráfað í burt frá heimilinu og ekki ratað til baka.
Sjá einnig: Örvæntingarfull leit að fjögurra ára dreng – Eina vísbendingin er eitt fótspor
Ýmsum tilgátum var varpað fram um hvarfið, eins og að hann hafi dottið ofan í yfirgefna námu á svæðinu. Nokkrar slíkar eru sagðar vera á svæðinu og það getur verið erfitt að koma auga á þær. Lögregla segist ekki telja að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað.
Gus var úti að leika sér við heimili afa síns og ömmu síðdegis þennan örlagaríka dag. Þegar amma hans ætlaði að kalla á hann og biðja hann að koma inn var hann á bak og burt.
Lögregla telur sig hafa gert allt sem hægt er í leitinni, en í fréttum ástralskra fjölmiðla kemur fram að leitað hafi verið á 470 ferkílómetra svæði.
Lögregla segir að þó leitinni hafi verið hætt haldi rannsókn málsins áfram.