Vélin sem um ræðir var á leið frá Pisa á Ítalíu til Glasgow í Skotlandi, en gekk erfiðlega að lenda. Óveðurslægðin Amy hafði mikil áhrif á samgöngur á Bretlandseyjum umræddan dag og reyndu flugmenn í þrígang að lenda vélinni, þar á meðal í Glasgow og Edinborg, en þurftu í öll skiptin frá að hverfa.
Þá voru góð ráð dýr og var ákveðið að fljúga til Manchester þar sem loksins tókst að lenda vélinni, sem er af gerðinni Boeing 737. Eldsneytið var orðið af skornum skammti og segir í frétt Herald að vélin hefði aðeins geta flogið í sex mínútur í viðbót áður en henni var lent. Bresk flugmálayfirvöld rannsaka málið og segja að um „alvarlegt flugatvik“ sé að ræða.