Gilbert var staddur við bryggju í góðu veðri með vinum sínum þennan örlagaríka dag fyrir þremur vikum þegar svokallaðir vinir hans ákváðu að hrekkja hann. Þeir hrintu honum út í vatnið og þar sem Gilbert hefur aldrei lært að synda gat hann ekki með nokkru móti haldið sér á floti.
Atvikið náðist á myndband og gerðu vinir hans lítið til að koma honum á þurrt. Voru það viðskiptavinir veitingastaðar í nágrenninu sem stukku út í vatnið og komu Gilbert á land.
Hann var fluttur á sjúkrahús og var útlitið um tíma afar dökkt. Líffæri hans voru byrjuð að gefa sig þegar hann komst undir læknishendur og var honum haldið sofandi í þrjá sólarhringa.
Móðir hans, Yolanda George, segir við KSLA að hún hafi fengið áfall þegar hringt var í hana og henni tilkynnt um slysið.
„Mér fannst líf mitt enda á þessu augnabliki. Sonur minn vildi verða læknir, hann ætlar að verða læknir og hann náði sér í mastersgráðu í fyrra. Hann var í undirbúningi fyrir nám í læknisfræði þegar þetta gerðist.“
Hinir svokölluðu vinir sögðu við lögreglu að þeir hafi verið að fíflast og ekki vitað að hann væri ósyndur. Yolanda segist hins vegar ekki trúa þessum framburði vinanna.
Gilbert hefur verið á hægum batavegi síðustu daga og er kominn til meðvitundar. Hann er þó enn ófær um að tala og þarf að notast við öndunarvél þar sem lungu hans eru afar veikburða.
Yolanda hefur hvatt lögreglu til að komast til botns í málinu og handtaka þá sem báru ábyrgð á þessum hörmulega atburði.